Guðni Tómasson fæddist 12. janúar 1953. Hann lést 8. janúar 2016.
Foreldrar Guðna eru Tómas Grétar Sigfússon, f. 1921, og Sigríður Gunnarsdóttir, f. 1923. Systkini Guðna eru Gunnar, Sigfús, Tómas og Anna Margrét.
Eftirlifandi eiginkona Guðna er Rita Eigminaite. Guðni á þrjú börn með fyrri eiginkonu sinni Arnfríði Þráinsdóttur: Jónas, Hlín og Helga. Tengdabörn Guðna eru Elísa Ólafsdóttir, Michael Hassing og Helga Guðmundsdóttir. Barnabörn Guðna eru níu, í aldursröð: Tómas Ingvi Hassing, Agnes Eir Hassing, Thelma Nótt Þráinsdóttir, Gylfi Þór Hassing, Kristín Arna Hassing, Emil Óli Jónasson, Grétar Páll Hassing, Viggó Guðni Jónasson og yngstur Guðni Hassing, fæddur 2. janúar 2016.
Guðni ólst upp fyrstu árin á Eyrarbakka en fluttist svo til Hafnarfjarðar á unglingsárum. Hann bjó í Hveragerði frá 1982 og til 2009 þegar hann flutti aftur til Hafnarfjarðar. Guðni útskrifaðist frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1980 og frá Vilvorde gartnertekniker skole í Danmörku 1982. Hann starfaði við sitt fag fram í nóvember 2015.
Að ósk Guðna fór útför hans fram í kyrrþey 13. janúar 2016.
Kæri pabbi, það er svo margt sem ég á þér að þakka. Þitt veganesti til mín inn í lífið er dugnaður og ósérhlífni. Þú sýndir ótrúlegt æðruleysi þegar þú tókst á við veikindin og talaðir um lyfjagjafir eins og það væri minnsta mál í heimi. Ég mun aldrei gleyma því þegar þú tilkynntir mér og Elísu um veikindi þín, þú hafðir frestað því um nokkurt skeið og okkur grunaði að eitthvað væri að. Þú ætlaðir þér aldrei að tapa í þessari baráttu og hélst þér gangandi lengur en margur mundi gera. Þú kvartaðir aldrei eða kveinkaðir við mig, ég sá það þó á þér að oft var þér illt og þér leið illa.
Ég á góðar minningar frá því ég var lítill af fótbolta, útilegum, fríum og fimmaurabröndurum. Ég átti einnig góð ár hjá þér í vinnu á sumrin, þótt mér þætti nú nóg um allar vinnustundirnar. Þú kenndir mér mörg handbrögð og ég mun líklegast seint standast þér snúning í vinnuframlagi. Þú studdir mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og það er þér að þakka að ég valdi þá braut sem ég er nú á í námi og starfi. Þér þótti nú samt nóg um þegar afkvæmið þitt þóttist hafa betra vit á grágrýti og blágrýti og spurðir mig oft út í það. Þú komst m.a. út til okkar í Kaupmannahöfn til að fylgjast með útskrift minni þar og hjálpaðir mér um vinnu hjá gömlum skólafélaga. Undir það síðasta áttum við margar umræður um sumarhúsið þitt og hvað þig langaði að gera þar. Elsku pabbi, mér þykir mjög leitt að þurfa að kveðja þig svona snemma og ég mun minnast þín, í hvert skipti sem ég fer í húsið þitt, kalla á nafna þinn, sé hleðslu eftir þig, lóð sem þú hefur unnið eða tré sem þú hefur plantað. Vertu sæll, elsku pabbi.
Jónas Guðnason.
Pabbi minn er besti maður sem ég hef á ævi minni kynnst, hann er fyrirmynd mín í einu og öllu, það sem hann gerir vel vil ég gera vel.
Ég hef orðið þess heiðurs aðhljótandi að eyða með honum megninu af ævi minni, hef unnið með honum öll sumur hingað til og nokkra vetur að auki. Við vorum orðnir það háðir hvor öðrum að þegar ég vildi prófa eitthvað nýtt í sambandi við vinnu þurfti ég að flytja til Finnmerkur, norður fyrir heimskautsbaug. Það stóð nú ekki lengi þar sem ég var kominn aftur í hrökkbrauðið hálfu ári seinna.
Ást mína á íþróttum hef ég fengið frá pabba, fótbolta, handbolta og körfubolta.
Höfum við farið á marga kappleikina saman og er mér minnisstætt eitt tímabilið hjá Haukunum þar sem Evrópuleikirnir voru viku eftir viku, eða tímabilið þar sem Man. Utd vann þrennuna og stríðsdans var tíður inni í sjónvarpsherbergi, allt þetta mun fylgja mér alla ævi.
Þegar maður hugsar um hrökkbrauð þá hugsar maður til pabba, en pabbi var ekki bara hrökkbrauð hann var líka ís og möndlur, ég veit ekki um neinn sem hefur borðað jafn margar möndlur og pabbi – ég þori að fullyrða að pabbi hefur borðað fleiri möndlur sofandi en flestir hafa borðað vakandi.
Sundferðir hafa verið tíðar hjá fjölskyldunni í gegnum árin en pabba er ekkert sérlega vel við það, hann vill heldur vera heima, en alls ekki einn. Því tók hann oft til þess ráðs þegar við vorum yngri að hvísla í eyrað á mér þegar ég var á leið út um dyrnar: „Vilt þú ekki bara vera heima með mér og við fáum okkur ís?“ Einn diskópinni á mig og tveir á pabba.
Að vera uppi í sumarbústaðnum hans pabba er yndislegt. Eitt sinn þegar við vorum þar tveir að vinna skaust ég upp á Laugarvatn að horfa á fótboltaleik og á bakaleiðinni keypti ég lítra af ís. Í staðinn fyrir takk eða annað þá sagði pabbi: „Ætlar þú ekki að fá þér neitt?“
Minningarnar eru margar og sögurnar enn fleiri, ég vildi að ég hefði fengið að vera með þér síðustu dagana, en þú hefðir ekki verið sáttur ef ég hefði sleppt prófi fyrir það eitt að annast þig. Það lýsir þér best, dugnaður, engin vorkunn og aldrei að gefast upp, vinna, íþróttir og möndlur.
Elsku Guðni, mig langaði til þess að fá að þakka þér fyrir allt sem þú hefur sýnt mér og gefið. Þú ert og verður mér ávallt mikil fyrirmynd eins og margra annarra. Þú hefur kennt mér að stækka og kannski aðallega að minnka sjóndeildarhringinn þegar við á.
Þú hefur skilið eftir þig fallega slóð sem þú getur verið afar stoltur af, slóð fulla af góðum minningum, ferðalögum, steinum og fólki sem ann þér afar heitt. Ég hugsaði um að skrifa ljóð en þá sá ég fyrir mér svipinn sem að þú myndir setja upp svo ég brosti út í annað og hætti við. Takk fyrir glottið, einstaka vináttu, dugnað og góð gen. Þú getur hvatt slóðina með stolti. Einu sinni enn takk fyrir mig, takk fyrir okkur.
Þinn Helgi og þín Helga.
Það eru margar tilfinningar sem eru í gangi hjá mér núna. Mikil gleði en svo á móti ofsalega mikil sorg.
Ég er svo glöð að við eignuðumst lítinn Guðna og að þið hafið fengið nokkra daga til að vera saman.
En í allri þessari gleði er ég svo leið, ég hef ekki ennþá náð því að þú sért farinn.
Ég hlakka til sumarsins þegar við drögum fram teikningarnar af Bláengi sem þú varst mikið búinn að spá í og skrifa inn á og við gerum lóðina saman, fæ jafnvel bræður mína með í lið því þeir hafa lært ýmislegt af þér. En Mikki ræður.
Elsku pabbi, mikið sem ég er heppin að vera Guðnadóttir og að börnin mín öll áttu þig sem afa.
Það eru mörg tár sem falla þegar ég skrifa þetta. En þú sagðir mér að ég yrði að vera sterk og það reyni ég.
Elska þig alltaf, pabbi minn.
Saknaðarkveðjur.
Hlín Guðnadóttir,
Michael Hassing og börn.
Grjótkarl með gullhjarta.
Að heilsast og kveðjast er lífsins saga.
Minningarnar streyma fram um áratuga samveru í blíðu og stríðu.
„Addý, strákurinn með kúlugleraugun er að spyrja eftir þér,“ kallaði Ragnhildur 5 ára. „Hann er í Garðyrkjuskólanum,“ sagði hún okkur foreldrum, afa og ömmu til upplýsingar. „Ég held að hann sé líka skotinn í henni.“
Já, þú varst greinilega farinn að stíga í vænginn við heimasætuna á Reykjamörk 7 og það bar árangur. Þetta var á hinni öldinni.
Börnin ykkar urðu þrjú eins og hjá okkur og alltaf var mjög mikill kærleikur og samgangur milli heimilanna.
Verklagni og fagmennska í stórum og smáum verkum voru þér eðlislæg. „Vel skal vanda það sem lengi skal standa,“ sagðir þú og um það vitna verkin þín, t.d. gamla dyrahellan sem þú felldir ofan í stéttina við gróðurhúsið í kotinu.
Fjölskyldan stækkaði og óx í ýmsar áttir en vinátta, samvera og væntumþykja hélst áfram. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Svona er lífið.
Minning þín lifir.
Margrét og Sigurður.