María Jónsdóttir fæddist 8. apríl 1923 í Vík í Norðfirði. Hún lést 17. janúar 2016 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Jóhanna Sveinbjörnsdóttir frá Kolableikseyri í Mjóafirði, f. 21. nóvember 1892, d. 15. október 1972, og Jón Benjamínsson frá Ýmastöðum í Vaðlavík, f. 22. júlí 1882, d. 23. maí 1964.
Margrét og Jón Ben eignuðust sjö börn. Af þeim komust til fullorðinsára, auk Maríu, Anna Sigríður, f. 1926, Óla Sveinbjörg, f. 1934 og Stefán Frímann, f. 1938, d. 2011. Systkini Maríu samfeðra: Sveinrún, f. 1907, Rannveig, f. 1910, Óli Ben, f. 1912, Lilja, f. 1913, Hermann, f. 1913, Stefán, f. 1916, Aðalbjörg, f. 1918, Anton f. 1920, öll látin, og Áslaug, f. 1948.
María giftist Einari Hannessyni skipstjóra frá Keflavík 4. desember 1948. Hann fæddist 20. ágúst 1923 og lést 26. mars 2004. Foreldrar hans voru Arnbjörg Sigurðardóttir frá Bergþórsbúð á Arnarstapa á Snæfellsnesi, f. 29. september 1887, d. 21. maí 1981, og Hannes Einarsson frá Úlfsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði, f. 7. febrúar 1878, d. 13. júlí 1947.
Börn Maríu og Einars eru: 1) Hannes, f. 20. júlí 1948, maki Laufey Steingrímsdóttir, f. 3. júní 1948, d. 11. janúar 2015. Börn þeirra: a) Ína Björk, f. 1972, sambýliskona Margrét Pétursdóttir og á hún þrjú börn. b) Einar, f. 1974, maki Hrund Óskarsdóttir og á hann sex börn og eina stjúpdóttur. c) Brynja Huld, f. 1978, sambýlismaður Jakob Hermannsson, og á hún fjóra syni og fjögur stjúpbörn. d) Ellert, f. 1980, maki Magnea Lynn Fisher og á hann eina dóttur og þrjú stjúpbörn. 2) Sigurlaug, f. 14. október 1951, maki Bjarni Ásgeirsson, f. 3. júlí 1955. Börn þeirra eru: a) Helga Huld, f. 1981, maki Bjarni Már Hauksson og eiga þau tvær dætur. b) Ásgeir, f. 1985, maki Paula Cajal Marinosa og eiga þau eina dóttur. 3) Margrét Lilja, f. 22 september 1956, sambýlismaður Jón Kristfinnsson, f. 9. júní 1949. Börn hennar eru: a) María, f. 1978. b) Pétur, f. 1981, sambýliskona Lilja Guðmundsdóttir og eiga þau einn son. c) Heiðrún, f. 1991, sambýlismaður Theódór Sölvi Thomasson. 4) Jón Benjamín, f. 19. júní 1965, maki Gerður Pétursdóttir, f. 11 desember 1969. Börn þeirra eru: a) María, f. 1993, sambýlismaður Sigurður Gunnarsson og eiga þau einn son. b) Skapti Benjamín, f. 1995.
María ólst upp í Vík í Norðfirði og lauk hefðbundnu námi í barna- og gagnfræðaskóla Neskaupstaðar. Hún fór ung sem ráðskona á vertíð til Keflavíkur þar sem hún kynntist Einari eiginmanni sínum. Þau hófu búskap í Hannesarbænum í Keflavík, byggðu Miðtún 5 árið 1953, Krossholt 10 árið 1969 og fluttu að lokum á Vatnsnesveg 29 árið 2003. María var sjómannskona sem sinnti börnum og búi. Eftir að börnin komust á legg starfaði hún í hlutastarfi um tíma við fiskvinnslu.
Útför Maríu verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 28. janúar 2016 og hefst athöfnin klukkan 13.
Það var erfitt að vera í fjarlægu landi þegar móðir mín kvaddi, en við vorum alltaf svo nánar hvor annarri. Í huga mínum og hjarta finn ég nálægð hennar og minnist mömmu með hlýju og þakklæti. Það er gott að ylja sér við minningar frá liðinni tíð hvort sem ég var barn að aldri eða fullorðin manneskja. Það bjó í mömmu mikil seigla, gjafmildi, og kærleiksrík var hún mér og mínum. Spiladrottningin Maja í Vík eins og við sögðum stundum, hvort sem það var bridds, manni, vist, kani, skrafl, kasína eða jóna þá geislaði af henni gleðin og keppnisskapið við spilaborðið. Hún hafði gaman að vísum; kunni ógrynnin öll af alls konar vísum og ljóðum og fannst ekki leiðinlegt að kveðast á við okkur börnin sín þegar við vorum að alast upp. Lestur góðra bóka og krossgátur voru í miklu uppáhaldi. Mamma hafði fallega rithönd og fannst mikilvægt að skrifa alltaf á kort þegar hún gaf gjafir. Hún var víðlesin og margar bækur las hún oftar en einu sinni.
Þegar komið er að kveðjustund þykir okkur gott, mér og fjölskyldu minni, að hugsa um allar þær helgarferðir sem hún kom á Furuvellina síðustu árin eftir að pabbi lést. Tengdasonurinn eldaði góðan mat og hafði einstaklega gaman af því að bjóða sérríglas fyrir matinn. Þessar helgar var tekið í spil, spjallað og oft var farið í heimsóknir. Hún fræddi okkur um margt úr bernsku sinni og ljómaði þegar rifjaðar voru upp gamlar minningar. Mamma kynntist pabba á vertíð hér fyrir sunnan og þrátt fyrir að Keflavik yrði bærinn sem fóstraði hana í tæp 70 ár var hún fyrst og fremst Austfirðingur og ekkert jafnaðist á við fjörðinn hennar, Norðfjörð. Það var dásamlegt þegar hún orðin 89 ára og fór með tveimur barna sinna og uppáhalds frænku austur og maður fann svo innilega hvað þetta veitti henni mikla gleði.
Ég gæti sagt svo margt um alla umhyggjuna og það góða uppeldi sem ég fékk frá foreldrum mínum en í huganum ylja ég mér við minningarnar, hvort sem það var að ferðast með þeim um landið og austur á Norðfjörð á Moskvitchnum og gista í botnlausu hvítu tjaldi á leiðinni eða góðar stundir á Spánarströnd. Það er komið að því að kveðja og þar varð fyrir valinu ljóðið sem mér fannst alltaf vera um hana mömmu mína.
Elskulega mamma mín
mjúk er alltaf höndin þín.
Tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn.
Þegar stór ég orðin er
allt það skal ég launa þér.
(Sig. Júl. Jóhannesson.)
Þín
Sigurlaug.
María alltaf svo fín og vel tilhöfð en dró aldrei af sér í dugnaði, skar af netum í skúrnum, bakaði og fór í göngur til að heilsa upp á vinkonur sínar. Já, hún var mikil myndarkona sem fórst flest vel úr hendi. Spilakonan María er sérkafli út af fyrir sig, þvílíkt keppnisskap og aldrei gaf hún eftir, nema kannski þegar hún spilaði jónu við yngstu barnabörnin. Svo kom að því að við hjónin ákváðum að flytja til Danmerkur í nokkur ár. Ég veit að það var ekki auðvelt fyrir Maríu því hún sá ekki sólina fyrir börnunum okkar tveimur. Sem betur fer þá rættist úr þessu og tengdó komu til okkar á sumrin og við eyddum jólunum hjá þeim á Íslandi, þannig að þau fengu að njóta barnabarnanna. Það sýndi sig á dánarstundu hve mikil amma María var, barnabörnin umvöfðu hana og kærleikurinn skein úr hverri ásýnd. María var mikil fjölskyldumanneskja og tengingar hennar náðu langt út í stórfjölskylduna. Margir búa yfir hlýjum og góðum minningum um atlæti hennar og ástúð. María kvaddi okkur södd lífdaga, hún átti hamingjuríkt líf og hætti aldrei að hafa gaman af góðum mannfagnaði. Hún var skvísa fram í andlátið, réð krossgátur fram á það síðasta og tapaði aldrei einstakri kímnigáfu sinni. Ég kveð elskulega tengdamóður með þakklæti í huga fyrir allt sem hún hefur gefið mér og börnum mínum.
Gerður Pétursdóttir.
Amma var frá Norðfirði og eitt sumar fórum við austur saman og mikið sem amma hafði gaman af því. Í barnaskóla tók ég viðtal við ömmu sem skólaverkefni og nefndi það „þegar amma var ung“, en þar sagði hún mér meðal annars frá bernsku sinni, og hversu yndislegt henni fannst að hafa alist upp á Norðfirði í Víkinni. Hún sagði mér frá frönsku skútunum sem komu og áhöfnin gaf krökkunum beinakex í staðinn fyrir ber sem þau höfðu tínt í berjamó. Hún sagði mér líka frá skólagöngu sinni og að íslenskan hefði verið hennar uppáhald, sérstaklega málfræðin en hún var í stúku sem hét vorperlan nr. 64 og var ritari síðasta árið.
Amma og afi komu reglulega inn á heimili foreldra minna þegar ég var barn og gættu okkar Ásgeirs þegar foreldrarnir voru uppteknir erlendis. Þá var aldrei spurning um annað en að hlaupa heim í hádeginu og fá heita kakósúpu og kruður sem amma beið með. Þetta voru ljúfar stundir sem við systkinin minnumst með þakklæti.
Elsku amma, ég veit að afi hefur tekið á móti þér með útbreiddum faðmi og nú leiðist þið um lífsins helgidóm eins og segir í kvæðinu Draumur fangans sem ykkur þótti svo vænt um.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson)
Þín
Helga Huld.
Það er mér minnisstætt að þegar ég varð ólétt var það fyrsta sem hún sagði við mig að hún væri alveg viss um það að ég yrði mjög góð móðir. Daginn eftir að ég átti var ég svo spennt að segja ömmu frá því að ég ætlaði að skíra Einar minn í höfuðið á afa. Það gladdi hana mikið og var hún alltaf jafn heilluð af litla Kóngaling eins og hún kallaði hann.
Ég er svo þakklát fyrir það að hafa átt svona góða ömmu, alltaf svo fín og falleg fram á sinn síðasta dag. Húmorinn var ekki langt undan þrátt fyrir erfið veikindi síðustu vikuna og er ég afar glöð að við gátum líka brosað þrátt fyrir allt.
Eins og það er erfitt að þurfa að kveðja veit ég að amma var tilbúin í þetta ferðalag og það hjálpar til. Þegar ég sat hjá henni langaði mig til þess að segja henni svo margt en á sama tíma fannst mér ég ekki þurfa þess. Við vissum það bara báðar að nú færi hún til Einars afa og að þau myndu passa hvort annað og ég myndi passa vel upp á Einar minn.
Guð geymi þig, elsku amma mín.
María Jónsdóttir.
Við amma vorum alltaf miklar vinkonur og áttum margar góðar stundir saman, það eru til margar myndir af okkur sem eru dýrmætar nú þegar litið er til baka. Amma Mæja hafði einstaklega gaman af því að spila og hún kenndi mér ýmis spil en við spiluðum alltaf þegar ég kom í heimsókn og oftast varð skraflið fyrir valinu. Amma var á 92. aldursári þegar hún lést en síðasta skraflið tókum við saman fyrir ekkert svo löngu. Hún var skýr í kollinum fram á síðasta dag og réði krossgátur á spítalanum nokkrum dögum fyrir andlátið. Amma hafði gaman af því að ferðast innanlands sem utan og sumir urðu hissa á því að hún væri enn að ferðast þegar hún heimsótti mig í sumarbústað fyrir nokkrum árum. Hún vildi aldrei að neinn færi svangur frá henni en þegar ég var yngri voru það pönnukökur, „kringlumjólk“ og kakósúpa sem ég vildi helst fá hjá henni. Þegar ég kom til ömmu og afa til að gista í Keflavík sem barn kenndi hún mér Faðirvorið og fleiri bænir.
Amma hafði mikinn áhuga á fólki og var enn að spyrja frétta af fólki fáum dögum fyrir andlátið.
Hún var stolt af sínum fjölmörgu afkomendum og var með það á hreinu að langömmubörn nr. 19 og 20 væru á leiðinni. Hún talaði oft um hvað það yrði gaman fyrir mömmu mína að verða amma en því miður lifði hún ekki að sjá það, það skeikaði um einn dag. Ég er þakklát fyrir að við fengum að hafa hana elsku ömmu Mæju svona lengi hjá okkur.
Við höfði lútum í sorg og harmi
og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.
Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið
því fegursta blómið er frá okkur horfið.
Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir
og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir
þótt móðuna miklu þú farin sért yfir
þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.
Við kveðjum þig amma, með söknuð í hjarta,
en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.
Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi
og algóður Guð á himnum þig geymi.
(Sigfríður Sigurjónsdóttir.)
Elsku besta amma mín, takk fyrir allt. Þín
María.
Ég sótti mikið í að vera hjá ömmu og afa í æsku en einnig bað amma mig oft að gista þegar afi var á sjó.
Þá hjálpaði ég henni gjarnan að greiða úr netum í bílskúrnum, en hún skar af netum á unglingsárum mínum.
Amma var alltaf til í að spila við okkur krakkana og þá var ekkert gefið eftir.
Hún var mikil keppniskona í spilum og spurði gjarnan „hvernig standa stigin“ þegar hún vissi að hún stæði vel. Afi kom okkur krökkunum þá gjarnan til aðstoðar í baráttunni við ömmu.
Við amma vorum perluvinkonur alla tíð og það var alltaf gaman að heimsækja hana og taka í spil eða bara spjalla. Hún bjó sjálfstætt fram á síðasta dag og var hún mjög félagslynd. Hún elskaði að taka á móti fólki og gefa því eitthvað sætt og gott að borða. Hún lét heldur ekki gott partí framhjá sér fara.
Þegar ég varð fertug fyrir tæpum fjórum árum sagði hún við mig að nú væri hún hætt að fara í partí. En hver haldið þið að hafi mætt fyrst af öllum, önnur en hún amma Mæja. Amma kunni svo sannarlega að njóta lífsins alveg fram á síðasta dag, en hún átti stutt í 92 ára afmælisdaginn þegar hún lést.
Það er gott að ylja sér við minninguna um góða ömmu og góða vinkonu.
Þitt barnabarn
Ína Björk.
Fyrstu minningarnar um hana eru frá æskustöðvunum á Norðfirði þar sem við lékum okkur alla daga ásamt Indu vinkonu og Maja stjórnaði. Hún var ótrúlega góður stjórnandi jafnt í leikjum sem öðru.
Ég man til dæmis þegar pabbi kom í árlega sumarheimsókn frá Kristneshæli og það þurfti að selja eitthvað í þágu spítalans, þá tók Maja það að sér en bankaði aldrei á neinar dyr, það lét hún okkur Indu gera. Sölumennskan gekk vel og skipuleggjandinn fékk allt hrósið.
Ekki minnkaði áhugi og aðdáun okkar Indu þegar Maja kom úr sumardvöl á Eskifirði og sagði okkur frá sætustu strákunum á staðnum og hverjir dönsuðu best.
Hún hafði þann eiginleika að láta mann hrífast með þegar hún sagði frá og kímnigáfan var aldrei langt undan. Hæfileiki hennar til að stjórna nýttist síðar sjómannskonunni á stóru heimili.
Maja hafði einstaklega góða nærveru og sama mátti segja um lífsförunautinn, hann Einar Hannesson.
Með þeim hjónum var ljúft að deila frístundunum. Á milli heimila okkar var mikill samgangur og fjölskylda mín minnist með þakklæti allra heimsóknanna til Keflavíkur og glæsilegra boða á jóladag þar sem stórfjölskyldan mætti árum saman. Að ekki sé minnst á öll ferðalögin og sumarbústaðaferðirnar þar sem unað var við leiki og spilamennskan var aldrei langt undan þegar Víkursystkinin hittust.
Í huganum þakka ég allar ánægjulegu samverustundirnar hér heima og á hlýjum ströndum Spánar.
En mest þakka ég fyrir það að hafa átt einstaklega góða systur. Fjölskylda mín sendir ástvinum Maju innilegar samúðarkveðjur.
Anna.
Kristur minn, ég kalla á þig
komdu að rúmi mínu.
Gakktu hér inn og geymdu mig,
Guð, í faðmi þínum.
Elsku langamma.
Þú varst svo góð við mig og mér fannst svo gaman að koma til þín. Mér þykir mjög vænt um þig og að bera fallega nafnið þitt.
Þín
Sigurlaug María.