— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Apple er að reyna að lappa upp á „veruleikabjögunarsviðið“ (e. the reality distortion field), hin óskilgreindu hughrif fyrirtækisins. Svo áratugum skipti hjálpaði það Steve Jobs að fylla forritara og viðskiptavini af andagift.

Apple er að reyna að lappa upp á „veruleikabjögunarsviðið“ (e. the reality distortion field), hin óskilgreindu hughrif fyrirtækisins. Svo áratugum skipti hjálpaði það Steve Jobs að fylla forritara og viðskiptavini af andagift. Nú er farið að halla undan fæti. Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hafa fallið um fjórðung síðan í júlí og hreyfðust ekki úr stað í viðskiptum eftir lokun markaða á þriðjudag, þó svo að félagið hefði birt afkomutölur sem sýna methagnað á síðasta fjórðungi.

Arðbærasta fyrirtæki heims er núna verðmetið á aðeins áttfaldar árstekjur, að reiðufé undanskildu. Það virðist svo sannarlega af öðrum heimi. Fjárfestar einblína hins vegar á spár um hversu vel iPhone muni seljast og nú segir Apple sjálft að á næsta ársfjórðungi muni það gerast í fyrsta sinn að salan muni dragast saman.

Svar Apple er að sýna nýjar tölur um útbreiðslu símtækjanna – um einn milljarður síma er í notkun í dag – og minna á að þeim sé að takast að lokka notendur til að láta af hendi milljarða dala fyrir snjallforrit og tónlist. Apple segist ekki bara vera vélbúnaðarframleiðandi og bætir við að fyrirtækið selji stafrænar vörur með hárri framlegð í meira magni en flest netfyrirtæki. Tekjur af þjónustu hækkuðu um 26% á milli ára og námu 6 milljörðum dala. Á þessum hraða munu þjónustutekjur fljótlega verða meiri en tekjur af sölu á Mac-tölvum og iPad.

En Alphabet, sem fór nýlega fram úr Apple í heildarvirði, er verðmetið á sem nemur tuttuguogfimmföldum væntum hagnaði. Facebook er verðmetið með stuðlinum 45 og hjá Amazon er hann 111.

Að setja hlutina fram á annan hátt með því að benda á eitthvað áhugavert í rekstrinum – sérstaklega ef það reynist vera sannleikanum samkvæmt, eins og í þessu tilviki – er góð og gild leið til að styðja við hlutabréfaverð. Rétt eins og það er skiljanlegt að sótt sé á skuldabréfamarkað til að geta greitt hluthöfum út tugi milljarða dala í reiðufé (þegar 200 milljarðar dala eru „fastir“ erlendis).

En bjögunarvélin er enn í hönk. Tim Cook og teymi hans mun ekki takast að tala hlutabréfaverðið upp úr því sleni sem það er nú í. Núna þegar fyrsta tímabil samdráttar í tekjum af sölu iPhone er hér um bil orðið að veruleika, þá eykst þrýstingurinn á fyrirtækið að stöðva blæðinguna og búa til nýja vöru sem getur stutt við væntingar enn á ný.