Barn á flótta Barn bíður grátandi með flóttafólki og öðrum farandmönnum við landamæri Makedóníu og Serbíu.
Barn á flótta Barn bíður grátandi með flóttafólki og öðrum farandmönnum við landamæri Makedóníu og Serbíu. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Leyniþjónustumenn í Bretlandi óttast að leiðtogar Ríkis íslams, samtaka íslamista í Sýrlandi og Írak, notfæri sér flóttamannastrauminn til að lauma liðsmönnum sínum til Evrópu og fyrirskipa þeim að fremja hryðjuverk.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Leyniþjónustumenn í Bretlandi óttast að leiðtogar Ríkis íslams, samtaka íslamista í Sýrlandi og Írak, notfæri sér flóttamannastrauminn til að lauma liðsmönnum sínum til Evrópu og fyrirskipa þeim að fremja hryðjuverk. Breska dagblaðið The Telegraph hafði þetta eftir embættismönnum í bresku leyniþjónustunni í gær.

Blaðið segir að liðsmenn íslömsku öfgasamtakanna villi á sér heimildir til að komast til Evrópu og flestir þeirra noti fölsuð sýrlensk eða írösk vegabréf sem séu svo nákvæm eftirlíking af ófölsuðum vegabréfum að það sé nánast ógjörningur að aðgreina liðsmenn samtakanna frá raunverulegum flóttamönnum.

Embættismenn bresku leyniþjónustunnar óttast að hópar liðsmanna samtakanna hafi laumast til Bretlands og fleiri Evrópuríkja í því skyni að fremja hryðjuverk eftir að hafa verið þjálfaðir til árása. Leiðtogar öfgasamtakanna eru sagðir hafa séð mönnunum fyrir fölsuðum vegabréfum og gefið þeim fyrirmæli um að fremja hryðjuverk í heimalandi sínu.

Europol óttast mannskæðar árásir

The Telegraph hefur einnig eftir Frans Timmermans, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að meirihluti flóttamannanna, eða um 60%, hafi ekki flúið stríð eða ofsóknir í heimalandi sínu, heldur farið til Evrópu af efnahagslegum ástæðum frá löndum á borð við Marokkó og Túnis í von um betra líf, og eigi því ekki rétt á vernd sem flóttamenn. Ummæli Timmermans eru sögð byggjast á nýjustu tölum landamærastofnunar ESB, Frontex, en þær hafa ekki verið gerðar opinberar.

Í nýlegri skýrslu frá Europol, lögreglustofnun ESB, segir að Ríki íslams sé að undirbúa fleiri hryðjuverk í Evrópu eins og árásirnar sem gerðar voru í París 13. nóvember þegar 130 manns létu lífið. Líklegt er talið að samtökin undirbúi hryðjuverk á mannmörgum stöðum þar sem erfitt er að koma í veg fyrir þau. Markmiðið með því að velja slík skotmörk sé að valda sem mestu mannfalli og ótta meðal íbúanna.

Segja að mannréttindi hafi verið skert

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að óttinn við hryðjuverk og straum flóttamanna frá löndum múslíma hafi orðið til þess að stjórnvöld í Evrópu hafi skert mannréttindi. Samtökin nefna Frakkland sem dæmi og segja að neyðarlög sem sett voru eftir árásirnar í París hafi orðið til þess að menn, sem grunaðir séu um að vera róttækir íslamistar, hafi verið settir í stofufangelsi án réttarhalda og yfirvöld hafi fengið aukna heimild til húsleita án sérstaks leyfis dómara. Hætta sé á að saklausir ungir múslímar verði fyrir barðinu á slíkum aðgerðum eingöngu vegna þess að þeir séu ættaðir frá Austurlöndum nær.

Mannréttindasamtök óttast einnig að hryðjuverkaógnin verði vatn á myllu þjóðernisöfgamanna í Evrópu og Bandaríkjunum og grafi undan alþjóðasáttmálum sem voru gerðir eftir hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar.

Dönsku lögin sögð „fyrirlitleg“

Kenneth Roth, framkvæmdastjóri Human Rights Watch, gagnrýndi í gær umdeilt lagafrumvarp sem danska þingið samþykkti í fyrradag til að heimila yfirvöldum að gera peninga og hluti í fórum hælisleitenda upptæka ef verðmæti þeirra fer yfir 10.000 danskar krónur, jafnvirði 190.000 króna. Samkvæmt frumvarpinu þurfa foreldrar, sem koma til Danmerkur án barna sinna, að bíða í að minnsta kosti þrjú ár áður en þeir geta sótt um að fá börn sín aftur. Talið er að þetta verði til þess að fjölskyldurnar verði aðskildar í allt að fimm ár.

Kenneth Roth sagði að nýju lögin væru „fyrirlitleg“. „Þarf auðugt ríki eins og Danmörk virkilega að svipta þessa örvæntingarfullu hælisleitendur aleigunni til að sjá þeim fyrir grunnþjónustu?“ spurði Roth þegar hann kynnti árskýrslu mannréttindasamtakanna í Istanbúl. „Ef stjórnvöld í Danmörku vilja að hælisleitendurnir endurgreiði kostnaðinn ættu þau að útvega þeim atvinnu, sem er einmitt það sem flestir hælisleitendur vilja.“

Talsmaður Danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum, Martin Henriksen, sagði í gær að danska stjórnin hygðist herða reglurnar um hælisleitendur frekar. Flokkurinn hefði þegar náð samkomulagi við Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og leiðtoga mið- og hægriflokksins Venstre, um að lækka bætur til flóttamanna sem hafa þegar fengið hæli í Danmörku. Hann kvaðst einnig búast við því að sett yrðu lög sem myndu auðvelda yfirvöldum að vísa hælisleitendum úr landi ef þeir gerast sekir um glæpi.

Danski þjóðarflokkurinn varð stærstur hægriflokkanna í Danmörku í þingkosningum í fyrra og minnihlutasjórn Venstre þarf á stuðningi hans að halda á þinginu.

Öfgamönnum vex ásmegin í Þýskalandi
» Þýska leyniþjónustan BfV varaði í gær við fjölgun róttækra íslamista í Þýskalandi og einnig þjóðernisöfgamanna sem eru andvígir því að landið taki á móti flóttafólki frá löndum múslíma.
» Leyniþjónustan segir að 790 íslamskir öfgamenn hafi farið frá Þýskalandi til Sýrlands og Íraks til að berjast með samtökunum sem kalla sig Ríki íslams. Um þriðjungur þeirra hafi snúið aftur til Þýskalands.
» Flestir þýskra liðsmanna samtakanna koma úr öfgahreyfingu sem hefur sótt í sig veðrið í Þýskalandi. Félögum hennar hefur fjölgað í 8.350.
» Vitað er um 230 tilvik þar sem félagar í hreyfingunni hafa reynt að hafa samband við hælisleitendur, að sögn BfV.