Vöruhönnuðirnir Róshildur Jónsdóttir og Snæbjörn Stefánsson, sem mynda hönnunarteymið Hugdettu, frumsýna speglaseríu á Stockholm Design Week, sem fram fer í Stokkhólmi dagana 8. – 14. febrúar. Verkefnið unnu þau í samstarfi við finnska hönnunarteymið Aalto&Aalto og sænska hönnuðinn Petru Lilju. Hópurinn sýndi fyrst á Hönnunarmars 2015 undir nafninu 1+1+1.
Á norrænu samsýningunni Aurora á hönnunarvikunni verða verk eftir Garðar Eyjólfsson og hönnunarteymið BØrk, sem samanstendur af þeim Jóni Helga Hólmgeirssyni og Þorleifi Gunnari Gíslasyni. Þá mætir Katrín Ólína til leiks og tekur þátt í örfyrirlestraröðinni Pecha Kucha og segir frá verki sínu, Primitiva - Talismans. Fyrirlestrarnir ganga út á að hönnuðir greina frá verkum sínum og hugðarefnum á innan við 5 mínútum.