Vefsíðan Víða um heim er meiriháttar vandamál að staðsetja fólk og fyrirtæki. Í sumum löndum eru heimilisfangakerfin flókin og ónákvæm, og annars staðar er ekki einu sinni hægt að gefa upp heimilisfang með hefðbundnum hætti.

Vefsíðan

Víða um heim er meiriháttar vandamál að staðsetja fólk og fyrirtæki. Í sumum löndum eru heimilisfangakerfin flókin og ónákvæm, og annars staðar er ekki einu sinni hægt að gefa upp heimilisfang með hefðbundnum hætti. Er enn verra þegar hörmungar dynja yfir, raska innviðum heilu landanna, og koma þarf hjálargögnum hratt til skila á heimilisfang sem er kannski ekki lengur til, eða í tjaldbúðir sem hafa orðið til yfir nótt.

Heimilisfangsvandinn torveldar öll viðskipti, samskipti og hjálparstarf. Það væri hægt að notast við GPS-hnit, en þau eru óþjál og erfitt að muna langar talnarunur.

What3words.com er bráðsniðug lausn á vandanum. Um er að ræða kerfi þar sem öllu yfirborði jarðar er skipt niður í box sem eru 3x3 metrar á stærð. Hvert box er auðkennt með þremur venjulegum orðum. Til að finna hvaða stað sem er þarf einfaldlega að slá þessi þrjú orði inn í þar til gert snjallforrit en inn í kerfið er byggð villuvörn sem ætti að grípa inn í ef röng samsetning af orðum er skrifuð í appið.

Fyrir atvinnulífið býður What3words upp á þann möguleika að gefa upp enn nákvæmari staðsetningu en áður. Þannig getur 3x3 metra boxið t.d. vísað á tiltekna hurð eða tiltekinn bás.

Til gamans má geta þess að þriggja orða heimilisfang aðalinngangs Morgunblaðsins er hobbits.huggable.silhouette. ai@mbl.is