Landsmenn eru bjartsýnir á atvinnuástandið framundan.
Landsmenn eru bjartsýnir á atvinnuástandið framundan. — Morgunblaðið/Golli
Efnahagsmál Væntingavísitala Gallup í janúar mældist í hæsta gildi síðan í október 2007. Vísitalan stendur í 124,3 stigum og hækkaði um tæp 11 stig frá fyrri mánuði.

Efnahagsmál

Væntingavísitala Gallup í janúar mældist í hæsta gildi síðan í október 2007. Vísitalan stendur í 124,3 stigum og hækkaði um tæp 11 stig frá fyrri mánuði. Þetta er sjötti mánuðurinn í röð sem vísitalan mælist yfir 100 stigum, sem markar jafnvægi á milli bjart- og svartsýni. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Þar segir jafnframt að gildi vísitölunnar nú í janúar sé 43 stigum hærra en á sama tíma í fyrra. Allar undirvísitölur hækka milli mælinga í desember og janúar og eru þær allar mun hærri en á sama tíma í fyrra. Munurinn á milli ára er einna mestur á mati neytenda á núverandi ástandi, en sú vísitala hækkar um rúm 13 stig á milli mánaða og er um 62 stigum hærri en hún mældist á sama tíma í fyrra. Væntingar neytenda til aðstæðna eftir 6 mánuði hækka um rúm 9 stig sem er 29 stigum hærra en á sama tíma í fyrra.

Mat neytenda á efnahagslífinu hækkar um tæp 15 stig og er gildi þeirrar undirvísitölu 47 stigum hærra en það var á sama tíma í fyrra. Mat á atvinnuástandinu hækkar um tæp 10 stig og er gildi þeirrar vísitölu einnig 47 stigum hærra en á sama tíma í fyrra en gildi hennar hefur ekki mælst hærra síðan í júní 2007. Íslandsbanki bendir á að há mæling á undirvísitölu fyrir atvinnuástandið rími við tölur Hagstofunnar af vinnumarkaði, sem sýna að atvinnuleysi í árslok var hið minnsta í 8 ár.