Gunnlaug Óladóttir fæddist 9. ágúst 1972. Hún lést 29. desember 2015.

Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku ljúfa Gulla okkar, það er döpur staðreynd að þú sért farin frá okkur. Þú hafðir notalega nærveru og bros þitt og hlátur vakti gleði hjá okkur sem fengu að kynnast þér.

Þú varst skemmtilega dularfull og vaktir oft upp spurningar um hvað þú værir að hugsa í það og það skiptið, þegar andlitið þitt ljómaði, fallega brosið þitt sýndi sig og í kjölfarið fylgdi smitandi hlátur, sem við hin tókum oft þátt í án þess að hafa hugmynd um hvað væri svona fyndið.

Við vonum að nú líði þér vel. Ef allt er eins og það á að vera þá ertu með kubbana eða dagskrána í hönd og kók á kantinum. Ekki mundi það nú eyðileggja stemminguna ef einn og einn myndarlegur engill léti sjá sig.

Við trúum og treystum því að þú vakir yfir okkur hérna í gilinu og sjáir til þess að við munum að loka dyrunum á eftir okkur.

Við þökkum þér fyrir yndislega samveru og kveðjum þig með söknuði.

Svefninn langi laðar til sín

lokakafla æviskeiðs,

hinsta andardráttinn.

Andinn yfirgefur húsið, hefur sig til himna

við hliðið bíður drottinn.

Það er sumt sem maður saknar

vöku megin við,

leggst útaf á mér slokknar

svíf um önnur svið.

í svefnrofunum finn ég

sofa lengur vil

þegar svefninn verður eilífur

finn ég aldrei aftur til.

(Björn Jörundur og Daníel Ágúst)

Fyrir hönd samferðafólksins í Snægili 1,

Aðalbjörg Árnadóttir.