Þorskur Árið 2015 var metár í norskum sjávarútvegi þegar litið er til útflutningsverðmætis í norskum krónum. Þegar útflutningstölur eru skoðaðar sést hins vegar að útflutt magn afurða dróst verulega saman frá árinu 2014 eða um 23%.

Þorskur Árið 2015 var metár í norskum sjávarútvegi þegar litið er til útflutningsverðmætis í norskum krónum. Þegar útflutningstölur eru skoðaðar sést hins vegar að útflutt magn afurða dróst verulega saman frá árinu 2014 eða um 23%. Samdrátturinn skýrist af minni veiði og hærra hlutfalli þurrkaðra afurða. Efra súluritið sýnir hvernig útflutt magn hefur breyst á 10 stærstu mörkuðum fyrir norskan þorsk. Portúgal er áfram mikilvægasti markaðurinn en hafa ber í huga að flest þessara landa eru ekki endilega neyslulönd afurðanna heldur dreifast afurðirnar frá löndunum auk þess sem frekari vinnsla afurða fer þar fram.

Á kínverska markaðinn er hægt að tala um hrun en dreifing um Holland eykst á milli ára. Neðra súluritið sýnir verðbreytingu milli ára, mælt í evrum, á öllum mörkuðum sem tóku við meira en 1.000 tonnum af norskum þorski árið 2015. Þar sést að stærstu markaðir hafa hækkað meðalverð um 25-30% og minni markaðir, á borð við Litháen, enn meira.

Bandaríkin og Kanada hækka mest en þar hefur gengi gjaldmiðla einnig áhrif. Þessa verðbreytingu er helst að túlka sem viðbrögð við skorti enda benda fréttir til að vinnslufyrirtæki í Evrópu séu farin að snúa sér í meira mæli að ýsu vegna þess hversu dýr þorskurinn er. Norðmenn státuðu af því árið 2014 að selja þorsk til 85 landa en þeim löndum fækkaði í 77 árið 2015 með þeim fyrirvara að vissulega dreifist þorskurinn víða frá Danmörku og Hollandi. Jaðarmarkaðir hafa tapast, meðal annars lönd í Afríku og S-Ameríku. Eftir þessum sama mælikvarða er íslenskur þorskur seldur til 46 landa.