Fjórgangur Árni Björn Pálsson og Skíma frá Kvistum komust í úrslit.
Fjórgangur Árni Björn Pálsson og Skíma frá Kvistum komust í úrslit. — Ljósmynd/Jón Björnsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Maður stefnir að því að hámarka árangur sinn. Meistaradeildin dregur fram það besta sem maður á og í hestinum og þar með liðinu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Maður stefnir að því að hámarka árangur sinn. Meistaradeildin dregur fram það besta sem maður á og í hestinum og þar með liðinu. Þrýstir manni til að ná öllu því út sem maður á mögulega inni,“ segir Árni Björn Pálsson, sigurvegari tveggja síðustu ára í Meistaradeild í hestaíþróttum.

Aðal-keppnistímabil meistaradeildarinnar hefst í kvöld í Fákaseli í Ölfusi. Raunar var forskot tekið á sæluna í haust þegar skeiðkeppnin sem þarf að fara fram úti var háð á Selfossi.

Í kvöld verður setningarathöfn klukkan 18.30 og síðan verður keppt í fjórgangi. Keppnisgreinarnar verða síðan hver af annarri næstu vikur og lokakeppnin föstudaginn 8. apríl þegar keppt verður í tölti og flugskeiði.

Nýir knapar taka þátt

Meistaradeildin er liða- og einstaklingskeppni. Átta lið taka þátt og nú eru fimm knapar í hverju liði í fyrsta skipti, einum fleiri en undanfarin ár. Garðar Hólm Birgisson, formaður stjórnar Meistaradeildar, segir það gert til að auka breiddina í knapahópnum.

Flestir af bestu knöpum landsins eru í liðum Meistaradeildarinnar og þeir eru vitaskuld með góðan hestakost. Á síðustu stundu urðu óvæntar breytingar á sigursælasta liði síðustu ára, liði Top Reiter / Sólningar. Meðal annars kom Jóhann Rúnar Skúlason, margfaldur heimsmeistari í tölti, inn í stað Guðmundar Björgvinssonar sem sigrað hefur í meistaradeildinni. Jóhann býr og starfar í Danmörku og tekur ekki þátt í öllum keppnum. Hann tekur til dæmis ekki þátt í fjórgangnum í kvöld. „Eins og nafnið gefur til kynna á meistaradeildin að vera með bestu keppendurna. Ég fagna nýjum keppinautum og vona að þeir geti verið sem mest með,“ segir Árni Björn.

Garðar getur þess að enn sé verið að þróa keppnina og umgjörð hennar til að þjóna áhorfendum sem best, hvort sem þeir mæta í höllina, horfa á útsendingar Stöðvar 2 sport eða streymi á netinu erlendis. Meðal nýjunga er að hægt er að kaupa aðgang að útsendingu með lýsingu á ensku.