Þetta hófst með rekstri Múlakaffis en hefur undanfarin ár vaxið í samsteypu fjölda fyrirtækja.
Jói í Múlakaffi er landsþekktur vegna hins vinsæla þorramatar en það eru kannski færri sem vita að hann tekur af fullum krafti þátt í ört vaxandi ferðaþjónustu og hafa umsvifin aukist ár frá ári. Hann og fjölskylda hans reka Múlakaffi sem er elsta veitingahús landsins en fyrirtækin eru orðin fjölmörg sem fjölskyldan rekur. Enn einn reksturinn bætist við í febrúar þegar fluttir verða til landsins öflugir bílar með eldhúsi og veitingahúsi á hjólum sem ætlað er að þjónusta þá sem koma til landsins til að kvikmynda auk þess sem hægt verður að nota bílana fyrir erlenda ferðamannahópa. „Þá erum við fjölskyldan einnig viðloðandi mjög skemmtilegt verkefni í samstarfi með góðu fólki. Það er verið að búa til átta hótelsvítur á 20. hæðinni í Höfðatorginu við Katrínartún. Þetta eru fimm stjörnu svítur og verður svakalega flott.“