Kristinn Jónas Steinsson fæddist 10. ágúst 1935. Hann lést 30. desember 2015.
Útför Kristins fór fram 15. janúar 2016.
Elsku afi, það er skrítið að hugsa til þess að þú hafir farið svona skyndilega. Sérstaklega í ljósi þess að þú varst aldrei að flýta þér neitt og rólegri manni höfum við ekki kynnst. Alltaf varstu þó mættur á réttum tíma á áfangastað, hvort sem það var í mat til mömmu, að passa fyrir okkur eða skutla börnunum í skóla eða á æfingar. Alltaf var hægt að treysta á þig þar sem þú varst alltaf tilbúinn að aðstoða og erum við mjög þakklátar fyrir það.
Það verður skrítið að fara ekki til þín í graut lengur eins og við höfum gert frá því að við vorum litlar stelpur. Börnin okkar hafa sérstakar áhyggjur af því hver tekur við grautargerðinni af þér og eru hrædd um að grauturinn verði ekki eins góður og hann var alltaf hjá þér. Við erum heldur ekki vissar um að einhver annar en þú hafi þolinmæði til að taka á móti okkur, því venjulega ruddumst við inn með miklum látum í skíðafötunum sem svo dreifðust út um allt hús. Alltaf hafðir þú samt gaman af því að taka á móti okkur. Ekki þótti þér heldur leiðinlegt þegar við sýndum þér myndir og myndböndaf börnunum úr fjallinu og það er ljóst hvaðan við höfum öll áhugann á skíðaíþróttinni.
Á sama tíma og við söknum þín erum við ævinlega þakklátar fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt með þér, elsku afi.
Alma Rún, Eva
Dögg og Gyða Björk.