Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Mikið álag hefur verið á starfsfólki Landspítalans undanfarnar vikur og það þótt inflúensan hafi ekki enn gert vart við sig, að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum.
„Inflúensan er væntanleg og það veldur nokkrum áhyggjum að bóluefnið tekur ekki á algengasta stofni flensunnar sem kemur. Það má því búast við miklum veikindum þegar flensan kemur, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Sama gerðist í fyrra og við fundum mikið fyrir flensunni þá. Fólk þarf að fara varlega ef það veikist,“ sagði Sigríður.
Á þessum árstíma er lögð áhersla á að vinna á biðlistum. Auk þess er aukinn þungi vegna veikinda, einkum hjá eldra fólki. „Það eru mikil almenn veikindi. Oft er um að ræða eldra fólk með langvinna sjúkdóma. Sá hópur er alltaf að stækka,“ sagði Sigríður. „Að jafnaði erum við með 15-20 sjúklinga í lok dags sem bíða á bráðamóttöku eftir plássi á bráðalegudeild. Svo erum við með annað eins og rúmlega það af sjúklingum sem eru umfram skilgreind legurými á bráðalegudeildunum.“ Því eru allt að 40-50 fleiri sjúklingar á spítalanum en pláss er fyrir í raun. Sigríður sagði að rúmanýtingin hefði verið um og yfir 100% og spítalinn því ofsetinn. Um 680 rúm eru opin þessa dagana en sjúklingarnir um 720.
Vantar úrræði og starfsfólk
Hjúkrunardeild er rekin á Vífilsstöðum þar sem er pláss fyrir rúmlega 40 manns. Annar eins hópur liggur á endurhæfingardeildum og bráðalegudeildum og hefur lokið meðferð á spítalanum. Þó er ekki hægt að útskrifa hann vegna skorts á úrræðum. Sigríður sagði að ef hægt væri að útskrifa þennan hóp myndi skapast pláss fyrir þá sjúklinga sem í raun er ofaukið á spítalanum.Hún sagði mjög brýnt að leita leiða til að fjölga legurýmum en tryggja þyrfti bæði fjármagn og mönnun. „Skortur á hjúkrunarfræðingum er erfiður. Hann á eftir að aukast því mun fleiri hjúkrunarfræðingar eru að fara á eftirlaun en útskrifast úr námi. Þetta gerist um leið og öldruðum og langveikum fjölgar,“ sagði Sigríður. Bæði hefur verið skoðað og reynt að flytja inn hjúkrunarfræðinga en ekki gefist mjög vel. Það tekur mikinn tíma og mikla þjálfun. Æskilegra væri að geta leitað eftir íslenskum hjúkrunarfræðingum. Sigríður sagði eitthvað um að þeir starfi erlendis en einnig sé töluvert um að hjúkrunarfræðingar gegni öðrum störfum hér á landi.
Hugsanlega slakari vörn
Inflúensan er lítið farin að láta á sér kræla. Sóttvarnalæknir greindi frá því 22. janúar sl. að virkni inflúensunnar hefði enn verið lítil í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Það væri í samræmi við stöðuna á meginlandi Evrópu.Sóttvarnalæknir sagði að gera mætti ráð fyrir því að bóluefnið sem notað hefði verið gæfi ágæta vernd gegn inflúensu A. „Þrígilda bóluefnið sem er í dreifingu hér á landi, inniheldur hins vegar ekki inflúensu B (Victoria) veirustofninn, þann stofn inflúensu B sem hefur oftast greinst í Evrópu nú í vetur og því er hugsanlegt að bóluefnið veiti slakari vörn gegn sýkingum af völdum inflúensu B.“