[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM Kristján Jónsson kris@mbl.is Lokadagur milliriðlanna á EM í handbolta í Póllandi var stórmerkilegur fyrir margra hluta sakir. Niðurstaðan varð sú að Noregur og Spánn sigruðu í riðlunum. Með þeim komust áfram Króatía og Þýskaland.

EM

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Lokadagur milliriðlanna á EM í handbolta í Póllandi var stórmerkilegur fyrir margra hluta sakir. Niðurstaðan varð sú að Noregur og Spánn sigruðu í riðlunum. Með þeim komust áfram Króatía og Þýskaland. Noregur og Þýskaland mætast í undanúrslitum en einnig Spánn og Króatía.

Ríkjandi Evrópumeistarar Frakka, sem auk þess eru heims- og ólympíumeistarar, spila ekki um verðlaun á mótinu. Gerðist það síðast á HM á Spáni árið 2013. Guðmundur Þ. Guðmundsson þarf einnig að sætta sig við sömu niðurstöðu og Frakkar því Danmörk situr eftir.

Íslensku þjálfararnir Dagur og Guðmundur mættust í gær í milliriðli 2. Hvorugt liðið í sínu besta formi í rauninni. Meiðsli hafa herjað á þýska leikmannahópinn og Danir fengu tuttugu tíma á milli leikja, eftir dýrt jafntefli við Svía daginn áður. Þýskaland hafði betur 25:23 eftir jafnan og spennandi leik þar sem Danir höfðu tveggja marka forskot þegar innan við tíu mínútur voru eftir. Með sigrinum smelltu Þjóðverjar sér einu stigi upp fyrir Dani. Luku þeir leik í milliriðlinum með átta stig eins og Spánverjar sem unnu Rússa með sömu markatölu 25:23. Til að auka aðeins á flækjustigið var leið Spánverja ekki greið í gegnum Rússana því Rússland barðist við Svíþjóð um sæti í forkeppni Ólympíuleikana. Leikurinn hafði því einnig mikið vægi fyrir þá.

Spútnikliðið stóð undir nafni

Spútniklið keppeninnar hélt áfram að koma á óvart í gær. Gerðu Norðmenn sér lítið fyrir og unnu Frakka 29:24 sem varð til þess að Frakkland kemst ekki í undanúrslit. Magnaður árangur Norðmanna sem töpuðu fyrir Íslandi í fyrsta leik mótsins. Er þetta í fyrsta skipti sem karlalið þeirra leikur um verðlaun á stórmóti í handbolta. Kvennalið Noregs er hins vegar það besta í heimi eins og Íslendingar þekkja vel þar sem Þórir Hergeirsson heldur þar um þræðina. Noregur hefur unnið þrjár stórþjóðir í handboltanum í mótinu, Frakkland, Króatíu og Pólland. Sigurinn á Frökkum kom þó á vissan hátt á óvart því Norðmenn misstigu sig gegn Makedóníu og gerði jafntefli í næstasíðasta leik sínum í milliriðlinum.

Með sigrinum á Frökkum tryggðu Norðmenn sér efsta sætið í Milliriðli I. Þá stóð eftir sú spurning hvaða lið myndi fylgja þeim. Gestgjöfunum Pólverjum nægði stig á móti Króatíu í gærkvöldi til að komast einnig áfram. Lið Króata hefur verið óútreiknanlegt í mótinu og tók sig til og rótburstaði Pólland 37:23. Órúlegar tölur sem gerðu það að verkum að Króatía, Frakkland og Pólland voru öll jöfn með 6 stig en Noregur fékk 9 stig. Innbyrðisviðureignir skera úr um hvaða lið kemst áfram. En í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða voru þau öll jöfn með einn sigur.

Staðan var því orðin nokkuð flókin og markatala í innbyrðisviðureignunum skar þess vegna úr um hvaða lið fylgdi Norðmönnum. Eftir útreikninga færustu stærðfræðinga í Póllandi varð niðurstaðan sú að Króatía fer áfram með 6 mörk í plús. Frakkar eru með 2 mörk í plús og Pólverjar með átta mörk í mínus. Króatar töpuðu sem sagt með átta marka mun fyrir Frökkum en óvæntur stórsigur þeirra á gestgjöfunum í kvöld kemur þeim yfir hjallann. Pólland vann svo Frakkland með sex marka mun í riðlakeppninni.

Sæti í forkeppni til Svía

Þá er einn vinkill á gærdeginum enn eftir og sá er hvaða tvær þjóðir náðu í sætin tvö sem eftir voru í forkeppni Ólympíuleikanna í vor. Var það yfirlýst markmið íslenska liðsins að ná öðru þeirra. Norðmenn tryggðu sér annað þessara sæta og voru raunar búnir að því fyrir nokkrum leikjum. Hitt sætið fellur einnig Norðurlandaþjóð í skaut en það eru Svíar. Þeir náðu í stig á móti Dönum á þriðjudag og í gær unnu þeir Ungverja 22:14. Þrjár Norðurlandaþjóðir eiga þá enn möguleika á því að komast á Ólympíuleikana í karlaflokki: Noregur, Svíþjóð og Danmörk en þau mál skýrast með vorinu.

Norðmenn geta ennþá tryggt sér sæti á leikunum með góðum árangri í Póllandi því Evrópumeistararnir fara á leikana og sleppa við forkeppnina. Norðmenn eiga nú 25% möguleika á sigri í keppninni þótt líklega enginn hafi spáð því fyrir mótið.