Sala á laxi frá Fjarðalaxi á Frakklandsmarkaði hefur farið vel af stað. Franski matvælaframleiðandinn Labeyrie setti laxinn á markað fyrir síðustu jól og myndar hluta af hágæðavörulínu fyrirtækisins, „Grand Origines“. Er laxinn sendur ferskur frá Íslandi en reyktur í Frakklandi og verðlagður hærra en sambærilegur lax frá t.d. Skotlandi og Noregi.
Fjarðalax er ungt fyrirtæki, stofnað 2009. Fóru fyrstu laxaseiðin í sjóinn 2010 og fyrsta laxinum var slátrað ári síðar. Ómar Grétarsson er sölu- og markaðsstjóri Fjarðalax og segir hann að strax í upphafi hafi verið mörkuð sú stefna að framleiða lax í hæsta gæðaflokki sem gæti fullnægt ströngum kröfum bandarísku matvöruverslanakeðjunnar Whole Foods Market. „Setur Whole Foods það meðal annars sem skilyrði að ekki séu notuð nein lyf við eldið eða efni til aflúsunar, og ekki má koma upp nein sýking í fiskinum,“ útskýrir Ómar.
Einn fjörður í einu
Nær Fjarðalax að fullnægja þessum kröfum með því að láta eldið fara fram í þremur fjörðum og leyfa hverjum firði að hvílast í 6-8 mánuði eftir slátrun. Eldi er á sunanverðum Vestfjörðum; í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. „Við kláruðum Tálknafjörðinn í haust og er hann núna hvíldur á meðan slátrað er upp úr Arnarfirði. Þegar við svo klárum Arnarfjörðinn næsta haust byrjum við í Patreksfirði, og þannig koll af kolli. Leyfir þetta svæðinu að hreinsa sig vel og hefur skilað okkur því að eldið hefur verið alveg laust við sjúkdóma og sníkjudýr.“Að rækta lax með þessu móti er skiljanlega kostnaðarsamara en að reyna að ná fram sem mestu fiskmagni með lyfjum og öðrum efnum. „Framleiðslan er dýrari en t.d. norskt magneldi en á móti kemur að við fáum hærra verð fyrir laxinn. Það sem meira er um vert þá sveiflast norski laxinn mikið í verði og jafnvel svo að nemur tugum prósenta á hverju ári. Fyrir það takmarkaða magn sem við framleiðum fáum við ekki aðeins hærra verð heldur líka jafnara. Er mun öruggara að byggja starfsemi af þessum toga upp á gæðum og hærra verði en á magni, auk þess sem við eigum ekkert erindi í samkeppni við dæmigerðan norskan lax.“
Ætti allur íslenskur lax að vera svona?
Raunar segir Ómar rétt að athuga vandlega hvort æskilegast væri að allt eldi á Íslandi yrði með þessum áherslum, ekki síst vegna þess að það gæti truflað ímyndarvinnu framleiðenda ef lax í mjög ólíkum gæðaflokki er framleiddur í landinu. „Það er erfitt að útskýra fyrir kaupanda í Kaliforníu að það sé munur á laxinum í Arnarfirði og laxi sem er alinn annars staðar á landinu.“Jafnvel þótt nálgun Fjarðalax þýði að minna má rækta af laxi í hverjum firði segir Ómar að enn séu margir staðir umhverfis landið þar sem má bæta við eldi. „Borið saman við t.d. Færeyjar sem núna framleiða hátt í 80.000 tonn á íslenskt laxeldi enn þónokkuð langt í land með að ná einhverjum þolmörkum með rúmlega 5.200 tonn af slátruðum laxi í fyrra.“
Norsku firðirnir sprungnir
Hins vegar er það að gerast á sama tíma að stórir framleiðendur á borð við Noreg eru að verða búnir að nýta alla möguleika til stækkunar. „Reiknað er með að næsta ár verði það fyrsta í marga áratugi sem ekki verður framleiðsluaukning í norska laxeldinu. Ekki er svigrúm svo nokkru nemi til frekara eldis í fjörðunum og jafnvel hafa hugmyndir kviknað um að það þurfi að smíða nokkurs konar laxeldis-borpalla úti á sjó ef greinin á að stækka,“ segir Ómar. „Í hinu stóra laxeldislandinu, Chile, er komið ákveðið mynstur á framleiðsluna sem einkennist af því að þeir sprengja sig með reglulegu millibili, þurfa þá að glíma við erfiða sjúkdóma en koma svo til baka.“Eftirspurnin eftir laxi virðist bara ætla að aukast og benda framvirkir samningar til þess að verðið haldist nokkuð hátt næstu tvö til þrjú árin. Segir Ómar sennilegustu skýringuna á háu verði þá að framleiðsluaukningin nær ekki að halda í við aukninguna í eftirspurn.
Fjarðalax mun væntanlega auka framleiðslugetuna smám saman og mögulega dreifa úr sér til annarra fjarða. Segir Ómar að gott væri að finna aðra þrjá eða fjóra samliggjandi firði þar sem rótera mætti eldinu eins og nú er gert. Leyfi fyrir auknu fiskmagni á núverandi eldisstöðvum er í umsóknarferli. Var framleiðslan um 3.000 tonn árið 2015 en ætti að fara nálægt 5.000 tonnum á þessu ári.
Frakkland, ferðamenn og Kína
Segir Ómar vel hægt að selja meira til Whole Foods Market og þá fari innanlandsmarkaðurinn ört stækkandi, sem skrifast m.a. á fjölgun ferðamanna. Verður líka áhugavert að reyna á möguleikana í Frakklandi. „Frakkland er stærsti einstaki markaðurinn í öllum heiminum fyrir reyktan lax og þar hjálpar það okkur að íslenskar sjávarafurðir almennt hafa mjög gott orðspor hjá frönskum neytendum. Gæði, ferskleiki og hreinleiki fisksins lengst norður í Atlantshafi virðist vera það sem landið er þekkt fyrir.“Einnig gætu reynst tækifæri á kínverska markaðinum, ekki síst núna þegar gerður hefur verið fríverslunarsamningur. Segir Ómar að samningurinn hafi tekið til þeirra fisktegunda sem þegar voru seldar frá Íslandi til Kína en það kalli á ákveðið ferli að bæta nýjum tegundum eins og laxi við. „Kerfið er þunglamalegt hvað þetta varðar en aukinheldur er um svo risavaxið markaðssvæði að ræða að við værum góðir nánast með bara eitt götuhorn í Sjanghaí.“