[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Marín fæddist á Hólmavík 28.1. 1976 og ólst þar upp. Hún var í grunnskóla Hólmavíkur frá sex ára aldri og þar til hún varð 16 ára: „Öll mín æska og uppeldi var á Hólmavík og foreldrar mínir voru bæði alin þar upp.

Marín fæddist á Hólmavík 28.1. 1976 og ólst þar upp. Hún var í grunnskóla Hólmavíkur frá sex ára aldri og þar til hún varð 16 ára: „Öll mín æska og uppeldi var á Hólmavík og foreldrar mínir voru bæði alin þar upp. Þar á ég því sterkar rætur og þangað hvarflar hugurinn.“

Marín fór 16 ára í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, lauk þaðan stúdentsprófi og lauk jafnframt prófum sem sjúkraliði en hafði auk þess farið sem skiptinemi til Ástralíu í eitt ár og kom þaðan, dolfallin yfir landi og þjóð í Eyjaálfu.

Marín sinnti ýmsum störfum hér heima um skeið en ákvað svo að flytja til Brisbane í Ástralíu og hóf þá nám við Queensland University of Technology. Þar lauk hún BSc-prófi í viðskiptafræði með sérhæfingu í mannauðsstjórnun og markaðs- og almannatengslum árið 2004, ásamt námi í mannauði og vinnustaðaþjálfun við Australian National Training Authority.

Að námi loknu kom Marín heim og stofnaði Practical, viðburða- og ferðaþjónustufyrirtæki: „Ég starfrækti fyrirtækið í rúm tíu ár. Þá sameinaðist það Congress Reykjavík í ársbyrjun 2015 og heitir nú CP Reykjavik en það er frísklegt og skapandi þjónustufyrirtæki sem skipuleggur viðburði, ferðir og ráðstefnur fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini. Galdurinn felst í því að skapa ógleymanlegar upplifanir.“

Marín sat í stjórn Practical 2004-2010, í stjórn FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu, 2010-2014, situr í stjórn CP Reykjavík frá 2015, í stjórn styrktarsjóðs Umhyggju, félags langveikra barna frá 2014, sat í markaðsráði SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar, 2008-2010 og í Fagráði ferðamála – Íslandsstofu 2010-2013.

Fyrirtæki Marínar fékk alþjóðlega viðurkenningu SITE, Crystal Award Winner fyrir „Framúrskarandi hvataferð – viðburð“ árið 2009, var tilnefnd til EIBTM verðlaunanna árið 2009, fékk Hvataviðurkenningu FKA 2010. Hún var valin af Útflutningsráði og FKA í verkefnið „Útflutningur og hagvöxtur ÚH“ árið 2010 og öðlaðist viðurkenninguna The MICE report, – Best DMC á Íslandi árið 2012.

Marín er útivistarmanneskja sem hefur áhuga á skíðaiðkun, ferðalögum og fjallgöngum: „Ég á Ástralíu mikið að þakka. Þar lærði ég að lifa lífinu lifandi og prófaði ýmislegt sem mig hafði aldrei dreymt um áður: stökk út í djúpu laugina, hljóp þar tvö Maraþon-hlaup og stundaði köfun, klifur og fallhlífarstökk. Núna stekk ég ekki út úr flugvél á hverjum degi en hleyp þó alltaf mikið og geng, gekk á Mt. Toubkal í Marokkó árið 2013 sem er 4167 metrar á hæð og hæsta fjall Norður-Afríku, fer ótal ferðir á Esjuna með eiginmanninum um helgar og dýrka góðar skíðaferðir.“

Fjölskylda

Eiginmaður Marínar er Andri Þór Guðmundsson, f. 24.9. 1966, forstjóri Ölgerðarinnar. Foreldrar hans: Ragnhildur Auður Vilhjálmsdóttir, f. 23.12. 1935, tækniteiknari í Kópavogi, og Guðmundur Þór Pálsson, f. 7.7. 1934, d. 22.12. 2001, arkitekt.

Fyrri maður Marínar er Davíð Kristján Halldórsson, f. 15.11. 1976, verkefnastjóri hjá KPMG.

Dætur Marínar eru Saga Margrét Davíðsdóttir, f. 2007, og Tinna Marín Andradóttir, f. 2012.

Stjúpbörn Marínar eru Úlfur Þór Andrason, f. 1994; Íris Andradóttir, f. 1996, og Giovanna Steinvör Cuda, f. 1996.

Alsystir Marínar er Sigrún Harpa, f. 15.9. 1971, sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg, búsett í Kópavogi.

Hálfssystkini Marínar, samfeðra, eru dr. Eyjólfur, f. 23.4. 1976, jarðeðlisfræðingur í Reykjavík, og Sigurbjörg, f. 23.4. 1976, húsfreyja í Reykjavík.

Foreldrar Marínar eru Magnús Hans Magnússon, f. 2.2. 1952, rafvirkjameistari í Kópavogi, og Þorbjörg Magnúsdóttir 5.10. 1951, bankastarfsmaður í Kópavogi.