Íslensku fulltrúarnir á kaupstefnunni heimsóttu stærsta fiskmarkað í Bandaríkjunum, Fulton markaðinn í Bronx. Hlynur Guðjónsson, viðskiptafulltrúi í New York, og Guðný Káradóttir, hjá Íslandsstofu, eru fyrir miðri myndinni.
Íslensku fulltrúarnir á kaupstefnunni heimsóttu stærsta fiskmarkað í Bandaríkjunum, Fulton markaðinn í Bronx. Hlynur Guðjónsson, viðskiptafulltrúi í New York, og Guðný Káradóttir, hjá Íslandsstofu, eru fyrir miðri myndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Kaupstefna með íslenskar sjávarafurðir var haldin í vikunni í New York og sýndu kaupendur afurðunum mikinn áhuga.

„Við hittum fjölda áhugasamra kaupenda að íslenskum sjávarafurðum, ekki eingöngu frá New York, heldur einnig frá öðrum fylkjum og borgum í Bandaríkjunum,“ segir Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs- og matvælasviðs Íslandsstofu, en í vikunni var haldin sjávarafurðakaupstefna í New York sem aðalræðisskrifstofa Íslands í New York, Íslandsstofa og viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins skipulögðu.

Á kaupstefnunni áttu útflytjendur frá Íslandi þess kost að hitta kaupendur víðs vegar að. Guðný segir að tíu íslensk fyrirtæki í sölu sjávarafurða og eldisafurða, auk tveggja fyrirtækja í flutningageiranum, hafi tekið þátt í kaupstefnunni. Fyrirtækin sem um ræðir eru Eðalfiskur, Icelandic Ný-fiskur, Icelandic Quality Seafood, Iceland Seafood International, Icemar, Iceland Westfjords Seafood, Menja, Northern Seafood, Skinney Þinganes og Sæmark, auk Eimskips og Icelandair Cargo.

Efla tengsl beint milli seljenda

Guðný segir að kaupendurnir hafi sýnt áhuga á alls kyns fiski. „Þeir höfðu áhuga á hefðbundnum tegundum eins og þorski, ýsu og síld, en líka á unnum afurðum líkt og reyktri þorskalifur. Það var mikill áhugi á að efla tengsl beint á milli seljenda á Íslandi og verslanakeðja sem mögulegt er með sérstöku upplýsingakerfi á netinu.“ Hún segir að þá hafi einnig verið rætt um að koma íslenskum fiski inn í dreifingarkeðju sem selur afurðir á netinu. „Fiskurinn er þá sendur beint inn á heimili á New York svæðinu.“

Að kaupstefnunni lokinni voru framreiddar veitingar úr fiskafurðum sem kaupendur fengi tækifæri til að smakka á. „Þetta voru glæsilegar veitingar sem Viktor Örn Andrésson matreiðslumaður hafði útbúið,“ segir Guðný. En þess má geta að Viktor var valinn matreiðslumaður Norðurlandanna árið 2014 en hann undirbýr sig nú fyrir Evrópukeppni Bocuse d‘Or sem fram fer í Búdapest í maí næstkomandi.

Heimsóttu stærsta fiskmarkaðinn og Whole Foods

En kaupstefnan var ekki það eina sem aðilarnir frá Íslandi stóðu að heldur heimsótti hópurinn Fulton fiskmarkaðinn í Bronx og segir Guðný hann stærsta fiskmarkað í Bandaríkjunum og þann annan stærsta í heimi.

„Á þessum stóra fiskmarkaði eru 37 fyrirtæki með aðstöðu og var bæði að finna þorsk og bleikju frá Íslandi á markaðinum daginn sem heimsóknin stóð,“ segir hún.

Hópurinn fór einnig í heimsókn til stórmarkaðskeðjunnar Whole Foods þar sem fulltrúar fyrirtækisins kynntu meðal annars innkaupastefnu þess fyrir kaup á sjávarafurðum. Guðný segir áhugavert að hafa fengið upplýsingar um hvernig umhverfismál eru mikilvægur hluti af innkaupastefnunni.

Hún segir að aukning hafi orðið á útflutningi íslenskra sjávarafurða til Bandaríkjanna milli áranna 2014 og 2015 þegar miðað er við tölur fyrstu 11 mánuði áranna. „Af heildarverðmæti þess sem flutt er út af fiskafurðum til Bandaríkjanna þá er þorskurinn 47%, og er stærstur hluti þorsksins, eða 58%, fluttur út ferskur.“

Gullkarfinn vinsæll í Þýskalandi

Til viðbótar við kaupstefnuna í New York hefur Íslandsstofa staðið í ströngu undanfarið, því fyrr í mánuðinum tóku íslensk fyrirtæki þátt í sýningunni Grüne Woche í Þýskalandi. „Okkur var boðið til samstarfs við heildarsamtök í sjávarútvegi og vorum með kynningu á sjávarafurðum á þessari sýningu sem leggur mikið upp úr umhverfisvernd í víðasta skilningi. Þar kynntum við gullkarfann, en hann er ein vinsælasta fisktegundin sem Þjóðverjar flytja inn frá Íslandi,“ segir Guðný.

Hún segir Íslandsstofu einnig vera að taka þátt í einum virtasta kokkaviðburði í heimi á Spáni. „Þar eru Michelin-kokkar að elda úr okkar frábæra saltfiski og hefur það hlotið frábærar viðtökur. Við erum líka með samkeppni á kynningarbásnum þar sem í verðlaun er ferð til Íslands. Við settum einnig upp samkeppni á Twitter þar sem í verðlaun er út að borða á flottum stað í Madrid fyrir tvo,“ segir Guðný að lokum.