Mikið er ég sammála Kára Stefánssyni þegar hann segir að bæta þurfi heilbrigðisþjónustuna þar sem stjórnvöld hafi vannært íslenskt heilbrigðiskerfi síðasta aldarfjórðung.

Mikið er ég sammála Kára Stefánssyni þegar hann segir að bæta þurfi heilbrigðisþjónustuna þar sem stjórnvöld hafi vannært íslenskt heilbrigðiskerfi síðasta aldarfjórðung. Ég er líka sammála honum þegar hann segir það ósmekklegt að taka þurfi upp greiðslukortið á slysadeildinni til að fá þjónustu. En ég er ekki endilega sammála honum um að markmiðið eigi að vera að setja allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismálin í stað þeirra 8,7% sem verið hefur. Með því að skella fram þessari tilteknu hlutfallstölu finnst mér vera byrjað á vitlausum enda.

Það er öllum löngu ljóst að það hriktir í stoðum heilbrigðiskerfisins. Undirstöðurnar hafa verið að molna hratt undanfarin ár. Tækjabúnaður er orðinn úreltur, húsnæði of lítið og ekki lengur í takt við tímann og of fáir heilbrigðisstarfsmenn í mikilvægum hlutverkum. Allt beinist þetta í sömu átt, hnignun.

Þeir sem þekkja vel til tölfræði vita að það er hægt að toga og teygja tölulegar staðreyndir fram og til baka allt eftir hentugleika þess sem setur upplýsingarnar fram.

Ég hallast að því að skynsamlegra sé að í stað þess að setja fram ákveðið hlutfall landsframleiðslunnar þá verði að byrja á því að marka skýra stefnu um það hvernig heilbrigðiskerfi við viljum hafa og finna út hvað slíkt kerfi kostar. Það ætti ekki að þurfa að taka langan tíma að reikna það út með alla þá sérfræðinga í stefnumótun og fjármálum sem til eru í landinu. Veit til dæmis einhver hvort það er nauðsynlegt að setja viðbótarfjármagn inn í heilbrigðiskerfið eða er kannski það fjármagn sem nú þegar er úthlutað ekki notað rétt?

Ef það liggur fyrir að nauðsynlegt sé að bæta þurfi fjármagni við þá þarf að ákveða hvernig fjármagna eigi þá viðbót. Líklega eru fæstir landsmenn tilbúnir í hækkun skatta. Það hljómar ekkert sérstaklega vel að taka ný lán nú þegar keppst er við að greiða niður lán ríkisins til að draga úr gríðarlega háum vaxtakostnaði. Er þá ekki bara eitt ráð eftir og það er að færa útgjöld á milli málaflokka? Þá kemur að því að ákveða frá hverjum á að taka peningana og sitt sýnist hverjum í því. Eigum við að taka þá af menntastofnunum? Menningunni? Sendiráðunum? Vegagerð? Landbúnaðarstyrkjum? Listinn er langur og svörin sjálfsagt háð því hvaða draumsýn hver og einn hefur um fyrirmyndarsamfélag. Pólitíkin gengur út á að forgangsraða í takt við þá heimsmynd sem hver stjórnmálamaður aðhyllist. En er nokkur á Alþingi sem er í vandræðum með að velja á milli þess að lækna landsmenn og þess að bora göng?

Nú þegar Kári hefur gengið fram fyrir skjöldu með undirskriftir tugi þúsunda Íslendinga verður ríkisvaldið að hlusta. Þeir sem nú fara með lyklavöldin að hinum verðmæta ríkissjóði verða að bregðast við. Það þýðir ekki að snúa útúr eða þegja þunnu hljóði! margret@mbl.is

Margrét Kr. Sigurðardóttir

Höf.: Margrét Kr. Sigurðardóttir