Nýtt fjós Bætt verður við fjármunum í nýjum búvörusamningi til að styðja við fjárfestingar til að bæta aðstöðu og velferð húsdýra í ýmsum greinum.
Nýtt fjós Bætt verður við fjármunum í nýjum búvörusamningi til að styðja við fjárfestingar til að bæta aðstöðu og velferð húsdýra í ýmsum greinum. — Morgunblaðið/Kristinn
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ríkið hefur boðið aukinn stuðning til tiltekinna verkefna í tengslum við gerð nýs búvörusamnings ríkisins og bænda. Er þessi stuðningur um 700 milljónir að meðaltali á ári á 10 ára samningstíma.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ríkið hefur boðið aukinn stuðning til tiltekinna verkefna í tengslum við gerð nýs búvörusamnings ríkisins og bænda. Er þessi stuðningur um 700 milljónir að meðaltali á ári á 10 ára samningstíma.

Á fjárlögum þessa árs er varið um 12,8 milljörðum til stuðnings við búvöruframleiðsluna og rennur meginhlutinn til mjólkur- og kindakjötsframleiðslunnar samkvæmt gildandi búvörusamningum.

Stutt við nýja fjárfestingu

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra segir að ríkið sé tilbúið að hækka styrkina til að mæta ákveðnum sjónarmiðum og verkefnum á samningstímanum. Nefnir hann að verið sé að fara í talsverðar kerfisbreytingar og séu samninganefndirnar að útfæra núverandi greiðslur miðað við breytt fyrirkomulag. Ástæðurnar fyrir auknum stuðningi eru þrjár, að sögn ráðherra. Í fyrsta lagi að stuðla að umbreytingunni. Í öðru lagi að aðstoða bændur við að mæta þeim áskorunum sem felast í auknum innflutningi á búvörum samkvæmt nýlegum tollasamningi Íslands og ESB. Í þriðja lagi að létta undir vegna mikilla fjárfestinga sem bændur í mörgum greinum þurfa að ráðast í vegna hertra opinberra reglna um aðbúnað dýra og velferð.

Stuðningurinn verður aukinn um 700 milljónir á ári, að meðaltali á samningstímanum. Hann er þó framhlaðinn þannig að fyrstu þrjú árin er aukið um 900 milljónir á ári. Það er vegna stuðnings við fjárfestingar og markaðsátak fyrir kindakjöt. Ráðherra tekur fram að hagræðingarkrafa sé á samningnum þannig að við lok samnings verði fjárhæðirnar ef til vill svipaðar og í dag.

Sigurður segir að samningurinn muni gera landbúnaðinn öflugri og breytingar á stuðningi ríkisins muni breikka hann og gera fjölbreyttari. Það muni styrkja byggð um allt land.

Sigurgeir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, líst vel á tilboð ríkisins. Hann segir að samninganefnd bænda hafi farið fram á aukningu til ýmissa verkefna. Sum komi ekki fram í tilboði ríkisins og telur Sindri að skipting á milli liða hljóti enn að vera til umræðu. „Það er mikilvægt að fá viðurkenningu á því að umsaminn stuðningur samkvæmt búvörusamningum var skertur í hruninu.“ Telur hann að ríkisstuðningurinn væri nálægt 1200 milljónum kr. hærri í dag, ef hann hefði haldið gildi sínu óbreyttu.

Viðræður um nýjan búvörusamning hafa staðið frá því í september. Í lok nóvember kynntu samningamenn bænda þær hugmyndir sem þá voru uppi í viðræðunum á bændafundum um allt land. Þá kom fram að til stendur að leggja af kvótakerfi í mjólkur- og kindakjötsframleiðslu með afnámi greiðslumarksins á samningstímanum og taka upp gripa- og framleiðslugreiðslur í staðinn. Málið hefur síðan verið í umræðu á meðal bænda og sýnist sitt hverjum um ágæti breytinganna.

Rauð strik í samningi

Sindri segir að viðræður séu nú komnar vel af stað á nýjan leik og farið að sjást fyrir endann á þeim. Meðal annars sé verið að reyna að koma til móts við gagnrýni sem fram hefur komið. Reynt verði að tryggja jafnvægi í framleiðslunni. Segir Sindri raunar að miðað við þær upplýsingar sem nú liggi fyrir sé ekki hætta á offramleiðslu. Ef til þess komi verði varnaglar í samningnum. Hann nefnir til dæmis að sett verði rauð strik í samninginn. Ef búvöruverð lækkar niður fyrir þau verði hægt að endurskoða niðurlagningu greiðslumarkskerfisins.