— Morgunblaðið/Júlíus
Forsvarsmenn Íslandsbanka hafa ekki borið harm sinn í hljóði yfir falli og endurreisn Byrs.

Forsvarsmenn Íslandsbanka hafa ekki borið harm sinn í hljóði yfir falli og endurreisn Byrs. Bankinn hefur haldið fram þeirri kröfu að slitastjórn gamla Byrs og ríkissjóður endurgreiði bankanum allt að 7 milljarða króna vegna kaupa bankans á hinum viðreista sjóði. Bankinn telur að margar þær eignir sem fylgdu með í kaupunum og raunar mörkuðu verðið á þeim hafi reynst mun verðminni en talið var á þeim tíma þegar gengið var frá viðskiptunum.

En ekki er allt gull sem glóir og sannarlega geta verðmætin leynst þar sem síst er von um að finna þau. Þannig fylgdi ýmislegt með í kaupunum á Byr á sínum tíma. Meðal þess sem flaut inn í bankann í þeim viðskiptum var 22% hlutur í kortafyrirtækinu Borgun. Ekki er nákvæmlega vitað hvert matsvirðið á þeim hlut var í kaupum bankans á Byr og þar sem Borgun er ekki skráð á markað er ekki fullvíst með raunvirði félagsins.

Hi ns vegar er það þekkt staðreynd og mikið rædd að Landsbankinn seldi 31,2% hlut í Borgun á árinu 2014. Söluverðið var 2,2 milljarðar. Sé verðmiðinn yfirfærður á hlutafjáreign Íslandsbanka í Byr má gera ráð fyrir að hann sé að minnsta kosti 1,6 milljarða virði. Miðað við alla þá umræðu sem spunnist hefur um það í opinberri umræðu hversu mikil mjólkurkýr Borgun á að vera, má gera ráð fyrir að verðmiðinn sé jafnvel enn hærri. Þá fékk Íslandsbanki einnig tæpar 508 milljónir í arð út á hlut sinn fyrir árið 2014.

Ekki er ljóst hvort ógleði forsvarsmanna Íslandsbanka vegna kaupanna á Byr sé enn að plaga, því margt bendir til að Borgun sé að borga sig. Bankinn á 63,5% í Borgun og það verður fróðlegt að sjá hvað koma mun í hans hlut þegar VISA-ævintýrið í Evrópu verður allt saman gert upp og greitt að fullu.