Frákast Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Hauka í baráttu við Guðlaugu Björt Júlíusdóttur, leikmann Keflavíkur, í leik liðanna í gærkvöldi.
Frákast Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Hauka í baráttu við Guðlaugu Björt Júlíusdóttur, leikmann Keflavíkur, í leik liðanna í gærkvöldi. — Morgunblaðið / Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Benedikt Grétarsson bgretarsson@gmail.com Haukar og Snæfell virðast vera með yfirburðarlið í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik þennan veturinn. Haukar tóku á móti Keflavík á Ásvöllum í gær og unnu öruggan 16 stiga sigur, 76:54.

Á Ásvöllum

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@gmail.com

Haukar og Snæfell virðast vera með yfirburðarlið í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik þennan veturinn.

Haukar tóku á móti Keflavík á Ásvöllum í gær og unnu öruggan 16 stiga sigur, 76:54.

Þar með eru Hafnfirðingar jafnir Íslandsmeisturum Snæfells á toppi deildarinnar með 26 stig en Keflavík situr áfram í þriðja sæti.

Helena í sérflokki

Besta körfuknattleikskona landsins, Helena Sverrisdóttir skoraði fyrstu sjö stig Hauka í leiknum og gaf tóninn. Helena virðist nánast geta gert hvað sem hún vill inni á vellinum og eftir 11 stig í fyrsta leikhluta, fór hún að einbeita sér meira að því að spila uppi liðsfélaga sína. Þessi frábæri leikmaður endaði með 19 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar.

Staðan í hálfleik var 47:28 fyrir heimakonur og þar munaði mikið um hversu margir leikmenn Hauka skiluðu framlagi til liðsins. Að loknum fyrri hálfleik höfðu varamenn Hauka skorað samtals 17 stig en varamenn Keflavíkur ekki eitt einasta stig.

Til að bæta gráu ofan á svart, var erlendur leikmaður Keflavíkur, Melissa Zornig gjörsamlega heillum horfin og endaði fyrri hálfleik stigalaus.

Þrátt fyrir ágætan sprett Keflavíkur í upphafi seinni hálfleiks var í raun aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Haukar héldu Keflvíkingum í þægilegri fjarlægð og það var ekki síst vegna góðrar frammistöðu Chelsie Alexa Schweers, sem gekk nýlega til liðs við Hauka.

WNBA-stjarna á leið til Keflavíkur

Keflavík lék á köflum ágætlega en mátti illa við því að helsti stigaskorari liðsins, Melissa Zornig væri að leika undir pari.

Keflvíkingar fengu reyndar gleðifréttir skömmu fyrir leik en þá var staðfest að Monica Wright muni leika með liðinu til vors.

Wright þessi hefur gert garðinn frægan í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum og hefur tvisvar sinnum orðið meistari með liði Minnesota Lynx en Wright er nú samningsbundin Seattle Storm.

Fyrir hjá Keflavík er Melissa Zornig en reglum samkvæmt má aðeins einn erlendur leikmaður vera inni á vellinum í einu.

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, segir þó að Zornig sé ekki á leiðinni frá Keflavík.

„Nei, við ætlum ekki að senda Melissu heim. Við vitum að Wright kemur í slöku leikformi og það á eftir að taka hana einhvern tíma að komast inn í hlutina, bæði innan vallar sem utan. Það verður hlé á deildinni innan skamms og mér finnst líklegt að hún verði ekki með okkur fyrr en eftir pásuna,“ sagði Sverrir.

Öruggir útisigrar

Tveir aðrir leikir fóru fram í deildinni í gærkvöldi. Stjarnan fékk Grindavík í heimsókn og þá tók Hamar á móti Val í Hveragerði.

Báðir þessir leikir unnust á útivelli og um nokkuð örugga sigra var að ræða.

Grindavík bar sigurorð af Stjörnunni í Ásgarði, en lokatölur í þeim leik urðu 81:62 Grindavík í vil en Grindavík er komið í bikarúrslitaleikinn eftir rúmar tvær vikur. Grindavík er með 16 stig í 3. - 5. sæti en Stjarnan er í 6. og næstneðsta sæti með 6 stig.

Valur fór svo með afar öruggan sigur af hólmi gegn Hamar í Hveragerði, en lokatölur þar urðu 83:47 Val í vil.

Karisma Chapman var stigahæst í liði Vals með 21 stig á meðan Íris Ásgeirsdóttir var atkvæðamest í liði Hamars með 16 stig.

Haukar – Keflavík 89:69

Schenker-höllin Ásvöllum, Dominos-deild kvenna, miðvikudag 27. janúar 2016.

Gangur leiksins : 5:0, 11:6, 14:10, 23:15 , 33:20, 37:20, 45:22, 47:28 , 52:37, 58:42, 62:44, 67:50 , 73:54, 78:64, 83:69, 89:69.

Haukar : Chelsie Alexa Schweers 27/7 fráköst, Helena Sverrisdóttir 19/14 fráköst/9 stoðsendingar/7 stolnir/4 varin skot, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 12, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 9/5 fráköst/3 varin skot, María Lind Sigurðardóttir 8, Pálína María Gunnlaugsdóttir 5, Dýrfinna Arnardóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 3, Hanna Þráinsdóttir 2.

Fráköst : 25 í vörn, 10 í sókn.

Keflavík : Sandra Lind Þrastardóttir 18/7 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9/3 varin skot, Melissa Zornig 8, Irena Sól Jónsdóttir 5, Marín Laufey Davíðsdóttir 5/4 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir 5, Thelma Dís Ágústsdóttir 5/7 fráköst.

Fráköst : 25 í vörn, 6 í sókn.

Stjarnan – Grindavík 62:81

Ásgarður, Dominos-deild kvenna, miðvikudag 27. janúar 2016.

Stjarnan: Adrienne Godbold 22, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 13, Margrét Kara Sturludóttir 7, Heiðrún Kristmundsdóttir 4, Hafrún Hálfdánardóttir 4, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 4, Helena Mikaelsdóttir 3, Kristín Fjóla Reynisdóttir 3, Erla Dís Þórsdóttir 2.

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 28, Björg Guðrún Einarsdóttir 14, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 13, Íris Sverrisdóttir 8, Ingunn Embla Kristínardóttir 6, Ingibjörg Jakobsdóttir 5, Petrúnella Skúladóttir 4, Hrund Skúladóttir 3.

Hamar – Valur 47:83

Hveragerði, Dominos-deild kvenna, miðvikudag 27. janúar 2016.

Gangur leiksins : 2:4, 7:9, 10:18, 14:26 , 26:31, 27:39, 27:43, 32:49 , 34:54, 41:56, 44:61, 46:66 , 47:70, 47:72, 47:74, 47:83 .

Hamar : Íris Ásgeirsdóttir 16/5 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 9/9 fráköst, Alexandra Ford 9/8 stoðsendingar, Heiða Björg Valdimarsdóttir 5/4 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 3, Karen Munda Jónsdóttir 3, Margrét Hrund Arnarsdóttir 2.

Fráköst : 22 í vörn, 5 í sókn.

Valur : Karisma Chapman 21/17 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 18, Guðbjörg Sverrisdóttir 13/6 fráköst/6 stoðsendingar, Bergþóra Holton Tómasdóttir 10, Dagbjört Samúelsdóttir 5, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 5/4 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 4/4 fráköst, Margrét Ósk Einarsdóttir 4/4 fráköst, Helga Þórsdóttir 2, Jónína Þórdís Karlsdóttir 1.

Fráköst : 34 í vörn, 10 í sókn.