Bragi G. Bjarnason fæddist í Reykjavík 26. september 1935. Hann lést á heimili sínu 20. janúar 2016.
Bragi var sonur hjónanna Bjarna Bjarnasonar sjómanns, f. 1901, d. 1972, og Mögnu Ólafsdóttur, f. 1898, d. 1987. Bragi var fjórði í röð sex systkina en hin eru Anna Ólafía, f. 1927, d. 2013, Bjarni Valgeir, f. 1931, Baldur Þorsteinn, f. 1933, d. 2014, Bára Helga, f. 1937, og Alda Björg, f. 1942.
Bragi, sem oft var kallaður Lillibó, ólst upp í miðbæ Reykjavíkur. Fjölskyldan bjó fyrstu ár Braga á Vatnsstíg en lengst af á Laugavegi 11 og gekk hann í Miðbæjarskólann.
Árið 1960 gekk Bragi að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Birnu Ingadóttur f. 4.12. 1937, dóttur hjónanna Gyðu Guðmundsdóttur, f. 1918, d. 1999 og Inga Guðmundssonar, f. 1916, d. 1971, og eru börn þeirra fimm talsins: 1) Inga Gyða, f. 22.10. 1957, hennar maki er Konráð Hinriksson, f. 17.2. 1956, og eiga þau börnin Hinrik (f. 1977), Davíð Braga (f. 1981) og Ríkeyju (f. 1993) og barnabörnin Mikael Mána, Sindra Snæ og Friðjón Inga; 2) Anna Magna, f. 14.7. 1960, hennar maki er Guðmundur Sigtryggsson, f. 23.2. 1960 og eiga þau börnin Daða Frey (f. 1986), Daníel Inga (f. 1993) og Hörpu Rós (f. 1999) og barnabarnið Köru Lilju; 3) Auður Björk, f. 15.6. 1963. Hennar börn eru Birna (f. 1983), faðir Ásgeir Heimir Guðmundsson, og Bjarni (f. 1989) og Björk (f. 1998) – faðir Jón Ragnar Jónsson. Barnabörn hennar eru Bragi Leó, Bjarni Dagur og Fannar Óli; 4) Bragi Guðmundur, f. 8.10. 1966, maki Soffía Haraldsdóttir, f. 11.10. 1967, og eiga þau drengina Ágúst Inga (f. 2000) og Arnar Braga (f. 2002). Fyrir á Soffía Einar Alexander Eymundsson (f. 1987); 5) Björn Ólafur, f. 30.6. 1968, maki er Guðný B. Þórðardóttir, f. 18.2. 1969 og börn þeirra eru Bryndís (f. 1990, d. 1990), Andri Þór (f. 1991), Eydís Anna (f. 1994) og Eva Karen (f. 1998).
Þau Bragi og Birna bjuggu fyrstu árin að Kópavogsbraut 18 í Kópavogi en fluttu 1971 að Völvufelli 46 í Reykjavík. Byggðu þau sér svo hús að Máshólum 5 í Reykjavík þangað sem þau fluttu árið 1982 og bjuggu alla tíð síðan.
Bragi nam vélsmíðar og starfaði við það nær alla tíð, fyrst hjá Vélsmiðjunni Héðni og síðan Flugfélagi Íslands. Árið 1971 stofnaði hann í félagi við æskuvin sinn, Theodór Óskarsson, Vélsmiðjuna Kvarða og starfræktu þeir smiðjuna saman í hartnær þrjá áratugi. Síðustu starfsár sín starfaði Bragi sem húsvörður að Hvassaleiti 56-58 þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Bragi var alla tíð mjög virkur í íþróttum og félagslífi. Hann æfði fótbolta með Knattspyrnufélaginu Val upp alla yngri flokka félagsins og keppti síðan með meistaraflokki Vals í nokkur ár. Hann keppti oft í skák og brids fyrir hönd vinnuveitenda sinna á fyrirtækjamótum. Bragi gekk í Kiwanisklúbbinn Elliða árið 1993 og var virkur í því starfi allt til æviloka.
Útför Braga fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 28. janúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.
Í dag kveðjum við föður okkar og vin, Braga G. Bjarnason, í hinsta sinn. Við höfum verið svo lánsamir að fá leiðsögn þessa ljúfa manns í gegnum lífið, leiðsögn fulla af ást, umhyggju, trausti og vinskap. Hann var ávallt til staðar fyrir okkur bræðurna, hvort sem var til að fagna með okkur á gleðistundum eða til að ljá huggunarorð á erfiðum tímum. Með glaðværð sinni og bjartsýni ruddi hann öllum óveðursskýjum úr vegi og lyfti tilverunni á hærra plan.
Pabbi var kletturinn í okkar stóru fjölskyldu, alltaf fyrstur að veita aðstoð ef mann vantaði hjálp og með dugnaði sínum dreif hann verkin áfram. „Við klárum þetta“ var oftast viðkvæðið hjá honum, frestunarárátta og hálfköruð verk áttu ekki uppá pallborðið hjá okkar manni. Þetta var einmitt hugarfar hans þegar sjúkdóms varð vart hjá honum um mitt sumar í fyrra. En baráttan við þetta illvíga mein varð ekki kláruð, þrátt fyrir snarpa en hetjulega baráttu.
Á þessum tímamótum hellist yfir okkur aragrúi minninga um pabba og okkar samskipti í gegnum tíðina. Við þær svipmyndir kviknar sú von í hjörtum okkar að við getum verið börnum okkar sama haldreipi í lífinu og pabbi var okkur, hlýja hans og glaðværð er besti föðurarfur sem hægt er að óska sér.
Minning um ljúfan mann og yndislegan föður mun lifa um ókomna tíð.
Bragi G. Bragason
og Björn Ó. Bragason.
Það sem er efst í huga okkar er þakklæti. Við eru þakklátar fyrir hversu góður pabbi hann var og góður afi barnanna okkar. Hann kenndi okkur svo margt eins og hvað fjölskylda ást og kærleikur skiptir miklu máli. Það var alltaf líf og fjör í kringum hann og mikil gleði.
Pabbi sýndi áhuga á því sem við tókum okkur fyrir hendur og tók fullan þátt hvort sem það var í leik eða starfi. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir og það voru ófáar stundirnar þar sem allir komu saman í Máshólum hjá mömmu og pabba sem er félagsheimili fjölskyldunnar til að fylgjast með uppáhalds liðunum okkar spila fótbolta þ.e. Val eða Manchester United og þar voru ávallt kræsingar á borðum.
Við erum mjög þakklátar fyrir ferðina sem við fórum saman núna um jólin þegar við fórum til Flórída. Ekki grunaði okkur að þetta væru síðustu jólin okkar saman með elsku pabba okkar en við munum varðveita þá minningu um ókomna tíð. Við kveðjum þig með söknuði og sorg í hjarta.
Þínar dætur,
Inga Gyða, Anna Magna
og Auður Björk.
Það er svo stutt síðan við vorum öll saman yfir jólin í Florida og þar áttum við góðar stundir saman. Bragi spilaði þrjá golfhringi með okkur og keypti sér golfsett, hann ætlaði að vera tilbúinn í golfið næsta sumar.
Bragi var svo margt í senn, góður eiginmaður, faðir, tengdafaðir og vinur. Hann var einstaklega góður afi, tók virkan þátt í öllu sem barnabörnin tóku sér fyrir hendur, sérstaklega fylgdist hann vel með öllum íþróttaafrekum þeirra og hvatti þau áfram að gera enn betur og samgladdist með þeim þegar vel gekk. Hjá honum var ekkert kynslóðabil.
Hann var ávallt hress í bragði og var gaman að vera í kringum hann. Svo jákvæður og félagslyndur. Hann var mjög góður skákmaður, reyndar ósigrandi í fjölskyldunni. Aldrei tókst mér að sigra hann þrátt fyrir margar tilraunir gegnum árin. Íþróttir voru hans helsta áhugamál. Valsari alla tíð og hélt með Manchester United. Hann missti ekki af mörgum leikjum hjá þessum liðum. Í Máshólum hittast allir í fjölskyldunni, að horfa á leik eða kíkja í kaffi. Bragi og Birna hafa alltaf verið miðpunkturinn sem tengir fólkið saman og fáir hafa gert það betur en þau.
Það er margs að minnast eftir löng kynni. Fyrir mér var Bragi fyrst og fremst góður félagi og vinur. Hann var réttsýnn og ákveðinn maður. Traustur og atorkumikill, vildi klára verkefnin sem fyrir lágu hverju sinni strax og fyrstur til að aðstoða aðra.
Ég bið Guð að geyma þig elsku Bragi minn og styrkja fjölskylduna í gegnum söknuðinn við fráfall þitt.
Ég kveð þig með söknuði.
Dýpsta sæla og sorgin þunga,
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.
(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)
Guðmundur Sigtryggsson.
Ég er þakklát fyrir svo margar fallegar minningar og gott veganesti frá ógleymanlegum félaga. Braga verður sárt saknað.
Soffía Haraldsdóttir.
Ég á margar góðar minningar sem munu fylgja mér alla ævi. Þú varst ekki bara afi fyrir mér, heldur góður vinur og fyrirmynd. Það var alltaf gaman að spjalla við þig og þá sérstaklega um íþróttir, enda deilum við sama áhugamáli. Við brölluðum margt saman og varst þú duglegur að biðja mig um að hjálpa þér við alls konar hluti alveg frá því að ég var lítill polli og varstu vanur að kalla mig „vinnumanninn þinn“, sem mér fannst gaman að heyra.
Ég veit ekki hve margar fótboltaleiki við höfum horft á í sófanum í Máshólum eða á Valsvellinum þar sem við vorum að styðja okkar lið. Ein dýrmætasta minningin er þegar við fórum saman til Manchester á leik og var sú ferð ógleymanleg, þar skemmtum við okkur vel og var gaman að sjá hversu vel þú naust þín þarna úti enda alvöru United-stuðningsmaður.
Eitt af því sem ég á eftir að sakna mest er að fara með þér í kirkjugarðana á aðfangadag og hjálpa þér að kveikja á kertum enda man ég ekki eftir jólunum öðruvísi. Þú varst vanur að segja við mig að þegar þú yrðir dáinn ætti ég að heimsækja þig í kirkjugarðinn og þá sérstaklega á jólunum. Ég mun alltaf minnast þín sem frábærs afa og fjölskyldumanns.
Megi minning þín lifa, elsku afi minn.
Daníel Ingi Guðmundsson.
Þú hafðir óbilandi trú á okkur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, hvort sem að það var í námi, golfi eða öðru. Það var þér mikilvægt að við systkinin myndum mennta okkur og þú varst ávallt viðstaddur þegar við lukum áföngum sem tengdust námi. Þú varst alltaf fyrstur til að standa upp og fagna þegar árangri var náð. Þú varst ekki bara stuðningsmaður okkar í námi heldur voru íþróttir stór partur af lífi þínu. Það verður mjög tómlegt að hafa þig ekki með á golfvellinum í sumar, þar sem þú varst ætíð mættur til að styðja við bakið á okkur. Þó að þú sért farinn vitum við að þú verður ávallt með okkur í öllu sem við gerum og þú verður ávallt okkar mesti stuðningsmaður.
Það var mikið áfall fyrir alla síðastliðið sumar þegar þú greindist með krabbamein en þar sem þú varst ávallt bjartsýnn kom ekkert annað til greina en að tækla þetta verkefni. Fram undan var síðan stórafmælið þitt, þar sem þú náðir áttatíu ára aldri. Þá var blásið til hátíðarhalda í Máshólum og spöruðuð þið amma ekki danssporin. Þetta var mikill gleðidagur í lífi fjölskyldunnar. Í framhaldinu tók við erfið geislameðferð sem þú vildir ólmur ljúka sem fyrst af, þar sem stefnan var tekin á Bandaríkin með stórum hluta fjölskyldunnar. Þann 10.desember lögðum við af stað í þessa ævintýraferð sem þú og amma hlökkuðuð mikið til. Þessi ferð var ógleymanleg. Þér tókst að spila golf, dansa nokkur spor við ömmu í Old Town og njóta tilverunnar í faðmi fjölskyldunnar. Þessi ferð mun ávallt vera kær í minningu okkar. Við heimkomu varstu orðinn þróttlítill en fréttirnar á gamlársdag komu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það var þá sem við fréttum að þú ættir ekki mikinn tíma eftir þar sem meinið var búið að breiða úr sér. Við tóku mjög erfiðir tímar en þú barðist eins og hetja. Að lokum náði krabbinn yfirhöndinni og kvaddir þú þennan heim á þínu fallega heimili umvafinn öllu fólkinu þínu. Hvíldu í friði elsku afi, þín verður sárt saknað. Við hugsum vel um ömmu.
Þín barnabörn,
Andri Þór, Eydís Anna
og Eva Karen.
Það er svo skrýtið að þú sért farinn frá okkur. Svo skrýtið að hugsa til þess að þú munir ekki taka á móti okkur í Máshólum með allri gleðinni og bröndurunum þínum.
Hugurinn er búinn að vera að fara yfir allar þær stundir sem við áttum saman, þær eru margar og einkennast af gleði, skemmtun og hlýju. Alltaf voru dyrnar opnar í Máshólum eða félagsheimilinu eins og það er nú oft kallað, þar sem allir komu saman. Það sem okkur þykir vænt um að hafa alltaf getað komið í kaffi, spjallað í eldhúsinu um daginn og veginn og nú svo auðvitað hitt alla fjölskylduna þegar allir voru saman komnir í félagsheimilinu.
Það sem einkenndi þig var jákvæðnin, lífsgleðin og þú varst alltaf til í að hafa gaman og skemmta þér. Þú fylgdist vel með því hvað allir voru að gera og alltaf varstu svo stoltur af öllu því sem fjölskyldumeðlimirnir tóku sér fyrir hendur sama hvað það var. Þú hefur kennt okkur það að fjölskyldan er það allra mikilvægasta og okkur ber að hlúa vel að okkar nánustu. Þú varst alltaf svo ánægður þegar allir komu saman og höfðu gaman. Þú varst alltaf til að taka þátt í öllu, hvort sem það voru leikir með barnabörnunum eða spilakvöld sem voru nokkuð mörg. Minnisstæðast fyrir mig (Bjarna) var þegar við fórum að fljúga saman og þú varst að sjálfsögðu ekkert smeykur og talaðir um hvað það var gaman, við hlógum saman yfir Snæfellsnesinu og þú hafðir fulla trú á mér sem flugstjóra framtíðarinnar.
Þú hvattir okkur áfram til náms og vinnu og hafðir þína drauma og væntingar um menntaskóla, en þrátt fyrir þínar skoðanir á menntaskólum þá varstu engu að síður stoltur af okkur öllum.
Þú varst góður maður og vildir öllum vel og varst alltaf til í að hjálpa. Þú vildir að allir gerðu sitt allra besta og hafðir alltaf svo mikla trú á okkur í einu og öllu. Það er svo ótal margt sem við höfum lært af þér, sem við munum taka okkur til fyrirmyndar og fylgja í lífinu. Það eru svo margar minningar sem við munum halda á lofti, hugsa um og hlæja að.
Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman, að Fannar Óli hafi getað kynnst þér þó svo að það hafi verið stuttur tími, en þið voruð miklir vinir og hann var svo hrifinn af langafa. Við munum sakna þín mikið en minnast allra þeirra góðu stunda sem við áttum saman. Það er allavega enginn vafi á því að þú munt halda uppi fjörinu á nýjum stað og njóta þín vel.
Hvíldu í friði, elsku afi, þín verður saknað.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Bjarni, Ólöf Ásta
og Fannar Óli.
Það er svo margt sem ég gæti skrifað um þig – þú varst besti afi í heimi, hugulsamur, svo mikill húmoristi, hressileikinn uppmálaður og vildir allt fyrir alla gera. Þú varst mér allt í senn: faðir minn, afi minn og uppalandinn sem kenndi mér svo mikið.
Ég var svo heppin að fá að alast að miklu leyti upp hjá þér og ömmu í Máshólum – mínu æskuheimili.
Ég man ennþá eftir mér sem lítilli áhyggjulausri skottu valhoppandi um Máshólana á sunnudagshádegi, amma að útbúa sunnudagssteikina, útvarpið stillt á rás tvö og við að gera okkur klár að sækja langömmu í Hólmgarðinn.
Þú varst ávallt tilbúinn að hlusta, varst mér mikill stuðningur þegar á bjátaði, fagnaðir með manni þegar við átti og varst alltaf með bjartsýnina að leiðarljósi. Þú reyndir að sýna neiðkvæðnipúkanum í mér björtu hliðarnar á lífinu með þínum einstaklega einföldu lausnum og góðu ráðum.
Ég er þakklát fyrir að drengirnir mínir hafi fengið að kynnast þér. Að þú hafir fengið að kynnast þeim.
Einnig fyrir alla hjálpina sem þú veittir mér og okkur. Þeir munu minnast þín sem hlýs, yndislegs og góðs afa sem fór með þá í gönguferðir, spilaði við þá fótbolta, sótti þá á æfingar og skutlaði þeim í skólann svo fátt eitt sé nefnt.
Missir okkar er mikill.
Elsku bestu afi. Takk fyrir samveruna, skilninginn, gleðina, jákvæðnina og umhyggjuna. Ég sé þig síðar í sumarlandinu.
Birna.
Bragi, eða Lillibó eins og hann var alltaf kallaður af okkur systkinum sínum og frændsystkinum, var lífsglaður og hress gaur, alltaf hrókur alls fagnaðar, hvort sem var í fjölskylduboðum með stórfjölskyldunni, partýum eða að horfa á leik sinna manna, Vals eða Man. United. Hann hafði mikinn áhuga á boltanum, var Valsari og United-maður fyrir allan peninginn og rúmlega það, enda mikil gleði um helgar þegar fjölskyldan kom saman að horfa á Man. Utd yfir vetrartímann og farið á völlinn yfir sumartímann til að horfa á Val spila.
Þegar að Lillibó átti svo stórafmæli í september síðastliðnum, þá var afmælissöngurinn „Valsmenn léttir í lund“ sem hann söng svo hressilega ásamt fjölskyldu sinni – eldrauður Valsari og svo sannarlega tryggur og trúr sínu félagi sem hann ólst upp við þó hann væri fluttur langt yfir lækinn.
Við urðum að láta texta við lag Valsarann fylgja með þar sem hann lýsir Lillabó svo vel.
Valsmenn, léttir í lund
leikum á sérhverri stund.
Kætin kringum oss er, hvergi er fjörugra en hér.
Lífið er okkur svo kunnugt og kært
kringum oss gleðin hún hlær
látum nú hljóma í söngvanna sal
já, sveinar og meyjar í Val.
Já, Valsmenn við sýnum og sönnum
söguna gömlu þá,
að við séum menn með mönnum
sem markinu skulum ná.
Valsmenn léttir í lund
leikum á sérhverri stund.
Kætin kringum oss er, hvergi er fjörugra en hér.
Lífið er okkur svo kunnugt og kært
kringum oss gleðin hún hlær
látum nú hljóma í söngvanna sal
já, sveinar og meyjar,
já, sveinar og meyjar,
já, sveinar og meyjar í Val.
(Guðmundur Sigurðsson)
Þín verður sárt saknað, elsku bróðir og frændi. Við vitum að amma og afi ásamt systkinum þínum munu taka vel á móti þér.
Við sendum Birnu, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð geymi ykkur og veiti ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Kær kveðja,
Alda (Bíbí), Linda Hrönn, Bjarni Þór, Hallvarður Hans, Magna Ósk, Ægir Már, makar og börn.
En alltaf var jafn gaman og þægilegt að hitta Braga. Frá honum stafaði einstök hlýja og velvilji sem einkenndu öll hans störf.
Við hjónin áttum margar ljúfar stundir með Braga og Birnu þar sem hann smitaði alla með hlátri sínum, hressleika og einstakri lífsgleði
Bragi reyndist mér sannur vinur sem stóð fast við við bakið á mér þegar erfiðleikar steðjuðu að. Fyrir það er ég honum ákaflega þakklátur.
Kæra Birna og fjölskylda, þó að Bragi sé fallinn frá þá lifir eftir minning um góðan dreng sem gaf okkur svo margt.
Skáldið Tómas Guðmundsson segir:
Nú veit ég, að sumarið sefur
í sál hvers einasta manns.
Eitt einasta augnablik getur
brætt ísinn frá brjósti hans,
svo fjötrar af huganum hrökkva
sem hismi sé feykt á bál,
unz sérhver sorg öðlast vængi
og sérhver gleði fær mál.
Innilegar samúðarkveðjur,
Páll V. og Ída.
Er ég nú minnist hans sem æskufélaga og samstarfsmanns læt ég nægja að stikla á stóru. Við félagarnir áttum heima neðarlega á Laugaveginum og lékum okkur í fótbolta og öðrum íþróttum en leiksvæðið var mest við Þjóðleikhúsið og Safnahúsið við Hverfisgötu.
Þar var stór hópur drengja langt fram á kvöld næstum á hverjum degi í fótbolta. Við Bragi gengum báðir í Val og kepptum mörg ár í öllum flokkum félagsins. Við unnum saman í Vélsmiðjunni Héðni og síðar hjá Flugfélagi Íslands. Árið 1971 stofnuðum við Vélsmiðjuna Kvarða, sem við rákum til ársins 2000 en þá var komið nóg af járnsmíði.
Í anda Braga ætla ég að láta staðar numið við þessi fátæklegu orð en þakka honum allar stundirnar á lífsleiðinni. Hans skarð verður ekki fyllt í mínum huga.
Ég votta Birnu og börnunum, systkinum og öllum vinum dýpstu samúð og vona að minningin um góðan dreng verði þeim huggun harmi gegn.
Theódór Óskarsson.
Ég spurði hann hvort eitthvað væri að, nei, nei sagði hann, ég ætlaði bara að segja þér að ég er sammála dómnum. Svona var Lillibó.
Eftir að leiðir okkar hættu að liggja saman á knattspyrnuvellinum nema sem áhorfendur hittumst við á morgnana í Breiðholtslaug, hann og Birna og ég og Systa. Þar var oft glatt á hjalla er við sátum í pottinum, þar fuku brandarar, við sungum Heyr mína bæn og fleiri lög. Síðustu fjögur ár höfum við verið saman í Skákklúbbi eldri borgara, Æsi, og teflt einu sinni í viku. Þar tefldum við margar fallegar skákir og ég held að við höfum skilið jafnir, enda ekki tapsárir menn. Þökk fyrir áralanga vináttu til Birnu og fjölskyldu frá okkur Systu og frá Skákklúbbi eldri borgara, Æsi,
Magnús Vignir Pétursson.
Ferðina skipulagði Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri á Elliheimilinu Grund, og fararstjórar voru Þórður Þorkelsson og Páll Guðnason, þeir urðu síðar báðir formenn félagsins, þjálfari var Frímann Helgason, sá mæti þjálfari og stjórnarmaður. Bragi eða Lillibó eins og hann var oftast kallaður var flinkur leikmaður sem með sinni jákvæðu léttu lund varð mjög vinsæll innan félagsins og hann hélt vel utan um ´54 hópinn, m.a. með vini sínum Ásgeiri Óskarssyni. Lillibó var alla tíð duglegur að mæta á leiki félagsins, alltaf reffilegur og smart.
Mér er minnisstætt þegar Lillibó, Reynir, Ormar og Hanni mættu sem lið Vals í Golfmót knattspyrnufélagana, hvað ég var stoltur af þeim, allir eins klæddir, sannarlega flottir fulltrúar síns félags. Bragi var félagi í Fulltrúaráði Vals og var duglegur að mæta á fundi þess enda lét hann ávallt málefni félagsins sig varða. Stórt skarð er höggvið í raðir okkar Valsmanna með fráfalli Braga en eftir sitja minningar um góðan dreng.
Innilegustu samúðarkveðjur eru hér sendar til fjölskyldunnar og fjölmargra vina.
Fyrir hönd Fulltrúaráðs Vals,
Halldór Einarsson.