Faðir minn hélt mikið upp á Jón S. Bergmann, gaf mér Ferskeytlur hans og sagði að betri gæti hagyrðingur ekki orðið, því að þá væri hann orðinn skáld – sem auðvitað þýddi að faðir minn tók hann í skáldatölu! Þessar ferskeytlur kunni eða þekkti a.m.k. þorri landsmanna til skamms tíma:
Eru skáldum arnfleygum
æðri leiðir kunnar.
En ég vel mér veginn um
veldi ferskeytlunnar.
Þegar skyggði á þjóðarhag
þrældómsmyrkrið svarta
ferskeytlunnar létta lag
lagði yl í hjarta.
Meðan einhver yrkir brag
Íslendingar skrifa,
þetta gamla þjóðarlag
það skal alltaf lifa.
Jón S. Bergmann fæddist á Króksstöðum í Miðfirði 30. ágúst 1874. Þar reistu afkomendur hans honum minnisvarða sem Erlingur Jónsson gerði þegar 140 ár voru liðin frá fæðingu Jóns. Á afmælishátíð í félagsheimilinu Hvammstanga flutti Valdimar Tómasson skáld erindi um ævi og verk Jóns, frumflutt voru lög eftir tónskáldin Atla Heimi Sveinsson og Gunnar Þórðarson sem einsöngvararnir Óskar Pétursson og Sigrún Hjálmtýsdóttir fluttu ásamt Barbörukórnum en kvæðamaðurinn Pétur Húni Björnsson kvað vísur eftir Jón. Dagskráin var tekin upp á disk, sem systkinin Steinunn og Óttar Yngvarsbörn hafa gefið út og er sómi að.
Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa stöku eftir Jón, sem hann kvað, þegar hann sá og heyrði Guðmund skáld á Sandi fyrsta sinni:
Skutu geislum guðabáls
Gvöndar brúnaleiftur;
féll í stuðla málmur máls
myndum andans greyptur.
Um gullið orti hann:
Andann lægt og manndóm myrt
mauranægtir geta:
Allt er rægt og einskis virt
sem ekki er hægt að éta.
Ort undir prédikun:
Það er eins og andleg pest
eyrun gegnum skríði
þegar ég á pokaprest
prédikandi hlýði.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is