Lyftingasamband Íslands og Kraftlyftingasamband Íslands standa saman að þátttöku síns fólks í Reykjavíkurleikunum en keppt verður í frjálsíþróttahúsi Laugardalshallarinnar á laugardaginn í báðum greinum.
Lyftingamótið hefst klukkan 10 og stendur til kl. 13 en þar keppa tíu karlar og tíu konur í snörun og jafnhendingu.
Klukkan 14 hefst svo kraftlyftingamótið sem er á mótaskrá Alþjóða kraftlyftingasambandsins, og þar með hægt að setja heimsmet. Fjölmargir erlendir keppendur mæta til leiks, þar af fjórir Bandaríkjamenn og þrír Finnar. Í þeim hópi eru tveir ríkjandi heimsmeistarar í sínum þyngdarflokkum, Kimberley Walford frá Bandaríkjunum í 72 kg flokki kvenna og og Bonica Lough frá Bandaríkjunum í +84 kg flokki kvenna. Þá er Timo Hokkanen frá Finnlandi ríkjandi heimsmethafi í bekkpressu.
Keppt er í klassískum kraftlyftingum, án búnaðar, í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu.