Hugtakið óflekkað mannorð hefur því fyrst og fremst þýðingu þegar skorið er úr um hvort maður teljist hæfur til að bjóða sig fram til Alþingis.

Nýlega voru fluttar af því fréttir að einstaklingi sem hefur lokið afplánun refsidóms fyrir manndráp hefði verið veitt uppreist æru og hefði nú óflekkað mannorð. Sækist hann nú eftir því að fá lögmannsréttindi á nýjan leik, eftir að hafa verið sviptur þeim samhliða því að vera gert að sæta fangelsi í 16 ár. Um þetta hefur skapast nokkur umræða. Af því tilefni er hér gerð tilraun til að skýra hvað felst í uppreist æru og óflekkuðu mannorði, sem eru lagaleg hugtök.

Í 34. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að kjörgengur til alþingiskosninga sé hver sá ríkisborgari sem hefur kosningarétt og óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir. Í stjórnarskránni er ekki að finna nánari skýringu á huglæga skilyrðinu um óflekkað mannorð. Hins vegar er viðurkennt að löggjafinn hafi svigrúm til að afmarka inntak þess nánar og er það gert í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þar segir að enginn teljist hafa óflekkað mannorð „sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar“. Forsenda þess að dómur fyrir refsivert brot hafi flekkun mannorðs í för með sér er þó að sakborningur hafi verið 18 ára er hann framdi brotið og að refsing sé a.m.k. fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið eða að öryggisgæsla sé dæmd. Þar sem ekki er í lögum að finna upptalningu á verkum sem teljast svívirðileg að almenningsáliti, auk þess sem almenningsálitið kann að breytast, verður að meta hvert tilvik fyrir sig. Tilteknir alvarlegir glæpir, framdir af ásetningi, s.s. manndráp, myndu þó væntanlega alltaf teljast svívirðilegir að almenningsáliti.

Hugtakið óflekkað mannorð hefur því fyrst og fremst þýðingu þegar skorið er úr um hvort maður teljist hæfur til að bjóða sig fram til Alþingis. Óflekkað mannorð er þó einnig gert að skilyrði fyrir því að menn teljist hæfir til að gegna ýmsum opinberum störfum eða öðlast opinbera löggildingu. Nærtækast er að nefna hér lög um lögmenn sem gera m.a. óflekkað mannorð að skilyrði fyrir því að fá réttindi til að vera lögmaður. Lög um dómstóla ganga lengra og gera að skilyrði fyrir skipun hæstaréttar- og héraðsdómara að viðkomandi hafi hvorki gerst sekur um refsivert athæfi sem má telja svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.

Leiða má af fyrrgreindri 5. gr. laga um kosningar til Alþingis að flekkað mannorð geti hreinsast í lagalegum skilningi og viðkomandi aftur notið þeirra réttinda sem tengd eru óflekkuðu mannorði. Kveðið er á um skilyrði þess í 84. og 85. gr. almennra hegningarlaga. Getur það ýmist gerst sjálfkrafa að liðnum fimm árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, eða að liðnum tveimur árum frá sama tímamarki með því að forseti, en í reynd ráðherra, veiti uppreist æru, hvort tveggja að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þ. á m. að um fyrsta refsidóm hafi verið að ræða og að dæmd refsing hafi verið styttri en eitt ár. Hafi dæmd refsing verið lengri en eitt ár þarf viðkomandi hins vegar alltaf að eiga frumkvæðið í þessu sambandi. Getur forseti, en í reynd ráðherra, þá veitt uppreist æru þegar a.m.k. fimm ár eru liðin frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, enda færi viðkomandi fram gildar sönnur fyrir því að hegðun hans hafi verið góð þann tíma, en þegar sérstaklega stendur á má veita uppreist æru að liðnum tveimur árum, þótt dæmd refsing hafi verið lengri en eitt ár.

Að baki kjörgengisskilyrðinu um óflekkað mannorð búa sjónarmið um að einstaklingar sem gegna trúnaðarstörfum í umboði þjóðarinnar séu til þess hæfir og verðugir. Svipuð sjónarmið liggja til grundvallar hæfisreglum þar sem sami eða svipaður áskilnaður er gerður. Reglurnar um uppreist æru virðast síðan grundvallast á því að ekki sé rétt að svipting þeirra réttinda sem fylgja óflekkuðu mannorði sé endanleg. Að endingu er síðan rétt að taka fram að endurheimt óflekkaðs mannorðs með uppreist æru felur ekki í sér niðurfellingu eða uppgjöf sakar eða náðun, en heimild til slíks hefur forseti skv. 29. gr. stjórnarskrárinnar.