Vilfríður Hrefna Hrafnsdóttir fæddist 11. nóvember 1987. Hún lést 17. janúar 2016.

Vilfríður var jarðsungin 26. janúar 2016.

Það er merkilegt hvað lífið getur verið ósanngjarnt. Rétt 28 ára gömul að kveðja lífið svona óvænt. Ég kynntist Vilfríði snemma árs árið 2005 og varð strax hrifinn af henni og ekki leið á löngu þar til við vorum byrjuð að vera saman. Öll hennar fjölskylda tók mér opnum örmum og allir í hennar fjölskyldu svo æðislegir. Eftir rúmra tveggja ára samband kom svo létt sjokk þegar við komust að því að hún væri ólétt. Ég varð smá hræddur en samt spenntur við að fá litla gullmolann okkar hana Þórdísi Ósk. Dagurinn sem hún fæddist var virkilega furðulegur. Eftir að ég hafði verið um klukkustund á fæðingardeildinni var farið inn með þig í bráðakeisara og þremur mínútum seinna var litla daman komin í hendurnar mínar. Tilfinning sem ég get ekki lýst, ég var svo hamingjusamur. Á sama tíma þurfti að flytja þig inn á gjörgæsludeild og á hamingjusamasta degi í lífi mínu var ég á sama tíma áhyggjufullur og hræddur um líf þitt. Sem betur fer endaði allt vel í þetta sinn. Því miður gekk okkar samband ekki upp og var ég mjög lengi að jafna mig eftir sambandsslit og ekki fyrr en seinna meir að ég áttaði mig á hversu ástfanginn ég hafði verið. Við tók svo afbrýðisemi og það var ekki fyrr en þú kynntist Hjalta að ég sá hversu ánægð þú varst og sá hversu góður maður hann er að ég gat virkilega tekið í sátt annan mann sem var tilbúinn að elska dóttur mína sem sína eigin. Það hefur ansi margt gerst síðan, þú bættir við börnum og samband milli okkar var alltaf gott. Ég var nýbúinn að skutla Þórdísi heim til ykkar á sunnudegi eins og venjulega þegar maður fær þetta hræðilega símtal um miðja nótt um sviplegt andlát. Ég vissi ekki hvað ég átti að hugsa og fór út að keyra í um klukkustund meðan ég hugsaði. Ég kveið mest fyrir því hvernig ætti að segja dóttur okkar frá þessu.

Eina sem ég get gert er að líta fram á veginn og horfa til baka á allar góðar stundir í lífinu og hversu dýrmætt það er. Það eru margir sem eiga eftir að sakna þín og ég og allir í kringum mig og þig og þína fjölskyldu munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að börnin geti haft það sem allra best. Þú átt svo marga góða að. Þín verður ávallt saknað og minning þín mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð. Ég sendi samúðarkveðjur til ykkar allra.

Magnús Valur Böðvarsson.

Elsku hjartans dísin mín.

Það var stór stund í mínu lífi fyrir 28 árum þegar ég var viðstödd fæðingu þína. Mér fannst valkyrja vera komin í heiminn, svo stór og sterkleg varstu. Ekki síður var ég stolt og glöð þegar ég hélt þér undir skírn, Vilfríður Hrefna skyldir þú heita, í höfuðið á mér og ömmu Hrefnu.

Að fá að vera samferða þér og kynnast þér, engillinn minn, auðgaði sálu mína. Það var svo gaman að fylgjast með hvað þú varst dugleg að komast áfram í lífsins ólgusjó. Þú varst góð fyrirmynd því þú hafðir styrk og gafst aldrei upp. Þú varst svo góð móðir og framtíðin framundan virtist bæði björt og falleg hjá ykkur Hjalta og englunum ykkar þremur Þórdísi Ósk, Hauki Óla og Baldri Frey. En á augnabliki breytist allt og án nokkurs fyrirvara ertu kölluð í burtu. Hvers vegna? Það er máttvana spurning til Guðs sem ekki svarar. En kærleikurinn er í fyrirrúmi núna og fallegt að sjá hvernig fjölskylda þín og vinir haldast í hendur. Það er ekki sjálfgefið að sjá svo samheldin hóp sem fjölskyldur ykkar eru. Eins og Gunna Dóra systir þín sagði við mig: „Ef allir væru svona góðir við hver annan á hverjum degi, eins og fólk er gott og yndislegt að bjóða fram aðstoð sína núna, þá væri þetta svo góður heimur að búa í.“

Það er mér, sem trúi á framhaldslíf, huggun að vita að þú dvelur nú í ástríkum faðmi Hrefnu Þórdísar dóttur þinnar og Hrafnhildar systur þinnar. Blómið mitt, ég þakka þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman og þá sérstaklega í ferðum okkar erlendis.

Kæru vinir, höldum áfram að haldast í hendur, það eflir styrkinn sem við þurfum svo á að halda.

Megi Guð og góðar vættir umvefja ykkur alla tíð.

Vilfríður Þórðardóttir

og fjölskylda.