Verkfall flugvirkja hefur gríðarleg og neikvæð áhrif á rekstur Air Atlanta.
Verkfall flugvirkja hefur gríðarleg og neikvæð áhrif á rekstur Air Atlanta. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Verkfall flugvirkja hjá Samgöngustofu hefur tafið skráningu nýrra risaþotna Air Atlanta og stefnir hundruðum starfa í hættu.

„Vegna verkfalls flugvirkja hjá Samgöngustofu er nú þegar orðin seinkun á skráningu tveggja nýlegra Boeing 747-400-flugvéla sem eru þær nýjustu í flugflota Air Atlanta. Seinkunin mun hafa gríðarleg og neikvæð áhrif á reksturinn,“ segir Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta. Áætlað var að flugvirkjar frá Samgöngustofu færu til Sharjah í Sameinuðu arabísku fustadæmunum, þar sem þeir myndu gera úttekt á þessum flugvélum, en þær hafa undanfarið verið þar í skoðun og viðhaldi. Til stóð að þessar vélar yrðu skráðar á flugrekstrarleyfi félagsins í þessari viku.

„Ef þessar flugvélar komast ekki í rekstur á þeim tíma sem áætlað var mun félagið verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni. Ennfremur mun orðspor félagsins bíða hnekki og áralöngum viðskiptasamböndum stefnt í voða með ófyrirséðum afleiðingum,“ segir Hannes.

Hjá Air Atlanta starfa tæplega 250 starfsmenn á Íslandi og þar að auki eru starfandi rúmlega 1.000 verktakar erlendis þegar mest er. Allar tekjur Air Atlanta koma erlendis frá, en árlega skilar Air Atlanta um 5 milljörðum króna í formi gjaldeyris til íslenska hagkerfisins. Hannes segir það því gríðarlega mikilvægt að sem minnst röskun verði á rekstrarumhverfi félagsins og verkfallsaðgerðir flugvirkja Samgöngustofu hafi ekki þau áhrif sem fyrirséð er á verkefni og viðskiptavini félagsins.

„Starfsmenn félagsins eiga allt sitt undir að félagið geti búið við eðlilegt og samkeppnishæft rekstrarumhverfi á Íslandi. Dragist verkfallið á langinn mun rekstrarhæfi Air Atlanta, og þar með hundruðum starfa, stefnt í hættu.“

Hannes segist því skora á deiluaðila að fórna ekki meiri hagsmunum fyrir minni með því að láta deilu sína grafa undan áralangri starfsemi og alþjóðlegu orðspori Air Atlanta.