Sigurður Rúnar Steingrímsson, fyrrverandi sjómaður og verkstjóri, fæddist 28. apríl 1932. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 16. janúar 2016.

Foreldrar hans voru Steingrímur Sveinsson, f. 28. júní 1906, d. 30. maí 1996, og Bjarnheiður Sigurðardóttir, f. 14. apríl 1912, d. 14. febrúar 1948. Sigurður Rúnar var elstur af þremur systkinum. Næstur kom Sveinn Hilmar, f. 1935, kvæntur Þórdísi Jóhannesdóttur og þá Guðrún, fædd 1940, d. 16. janúar 1982, fyrri maður hennar var Erlendur Erlendsson, seinni maður Ólafur Þ. Jónsson.

Rúnar, eins og hann var alltaf kallaður, ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík fram að fermingu en var síðan sendur, vegna veikinda móður, í fóstur til Jóhanns móðurbróður síns og Nönnu eiginkonu hans í Vogahverfið.

Ungur kynntist Rúnar Sigrúnu Hönnu Pálsdóttur og giftust þau árið 1952 og eignuðust fjögur börn. Sigrún Hanna fæddist 22. júní 1934, hún lést 10. júní 1986. Börn þeirra: 1) Bjarnheiður Jenný, f. 20. apríl 1952, d. 25. október 1952. 2) Sigurður Grétar, f. 1957, fyrri kona Ólína Ingibjörg Jónsdóttir, þau skildu. Börn þeirra eru Sigrún Helga, f. 1982, Ingibjörg Jóna, f. 1984, og Jón Óli, f. 1986. Seinni kona Sigurðar Grétars er Sigríður S. Gunnlaugsdóttir. 3) Anna María, f. 1963, var gift Kristjáni Kristmannssyni, þau skildu. Synir Önnu Maríu eru Sigurður Rúnar, f. 1983, og Sindri, f. 1993. 4) Margrét Lilja, f. 1967, gift Svavari Þorsteinssyni. Börn þeirra eru Þorsteinn Hrannar, f. 1995, og Jóna Rún, f. 1999.

Þau bjuggu fyrstu árin í Reykjavík þar sem Rúnar vann við hin ýmsu störf m.a. við múrverk og sjómennsku. Rúnar útskrifaðist úr Sjómannaskólanum 1966 og fluttu þau búferlum það sama ár til Grindavíkur þar sem hann stundaði sjómennsku allt þar til 1978 þegar hann hætti á sjó vegna veikinda. Eftir það starfaði hann á Hafnarvoginni í Grindavík eða á vigtinni eins og það var kallað.

Árið 1986 lést fyrri eiginkona Rúnars og árið eftir flutti hann til Reykjavíkur og hóf sambúð með Þorgerði Pálsdóttur sem hann giftist árið 1987. Þorgerður er fædd 27. júní 1931. Börn hennar eru: 1) Páll Hinrik, f. 1955, fyrri eiginkona Páls er Jóhanna Kristjánsdóttir, dóttir hennar er Þórunn, f. 1974. Seinni eiginkona Páls er Ragnheiður Sigurðardóttir, þau skildu. 2) Reynir Þór, f. 1973, kvæntur Gretu Björgu Egilsdóttur , þeirra börn eru Viktoría Sól, f. 2000, Egill Andri, f. 2003, og Helena Sif, f. 2007. 3) Egill Örn, f. 1976, var giftur Heather Aldrich, þau skildu. Dóttir þeirra Anja Eyrún, f. 2003. Egill Örn er í sambúð með Brigittu Matthíasdóttur, dóttir hennar er Guðrún Liv Arden, f. 2000.

Rúnar starfaði sem verkstjóri hjá Reykjavíkurborg eftir að hann fluttist frá Grindavík, til ársins 2002 að hann lauk sinni starfsævi. Hann var mikill náttúruunnandi og áhugamaður um skógrækt. Rúnar hafði mikinn áhuga á bridge og keppti hann í því með sinni sveit í mörg ár með góðum árangri.

Útför Sigurðar Rúnars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 28. janúar 2016, klukkan 15.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Það er erfitt að setjast niður til þess að skrifa minningarorð um hann pabba og mig langar að segja svo ótalmargt um þennan besta vin minn. Það er huggun í söknuðinum að hann kvaddi sáttur, friðsæll og ánægður með að vel væri hugsað um hana Gerðu sína. Þótt pabbi hefði ekki viljað miklar lofræður get ég ekki látið vera að dást að æðruleysi hans í þeim verkefnum sem lífið bauð honum. Minningarnar hrannast upp og ég man hvað mér fannst ljúft þegar ég var lítil stelpa og hann söng mig í svefn og klappaði róandi á bakið. Ég man líka Reykjavíkurferðirnar og heimsóknir til Steingríms afa á Hossó, eða í Reyplast, oft var líka komið við á Hressó og pabbi bauð upp á Hressótertuna og heitt súkkulaði. Ég man líka ferðalögin austur á Klaustur og svo ótalmargt fleira.

Pabbi var ráðagóður og reyndist mér og drengjunum mínum vel eins og svo mörgum öðrum. Hann fylgdist vel með öllu, bæði vinum og fjölskyldumeðlimum, íþróttum, dægur- og þjóðmálum. Hann gladdist þegar vel gekk og var kletturinn þegar á þurfti að halda. Pabbi var mikill náttúruunnandi og hafði unun af því að fara upp í Skóg í sumarbústaðinn þar sem hann ræktaði tré og kartöflur. Alltaf var notalegt og gaman að koma til hans og Gerðu.

Pabbi var þúsundþjalasmiður og mér fannst hann geta allt. Ég mun aldrei gleyma laxabrauðtertunum hans. Áttræður kom hann með eina slíka þegar litli Leó Bjartur okkar var skírður.

Ótal minningar frá síðustu árum skjóta upp kollinum: Vestmannaeyjaferðin okkar, Þingvellir að hausti, ísbíltúrar, tónleikar ofl. Nú síðast í desember jólatónleikar þar sem dótturdóttir hans söng með kórnum sínum

Þessar stundir með honum síðustu árin eru mér afar dýrmætar og er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa átt hann að og fyrir að hafa getað verið til staðar þegar hann þurfti á að halda.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Anna María.

Elsku afi minn. Það var erfitt að frétta að þú værir dáinn og þá fann ég virkilega hvað ég sakna þín sárt og hugsa mikið til þín. Ég hef frá því að ég var lítill, getað leitað til þín og alltaf varstu tilbúinn að hjálpa og aðstoða. Þú hefur alltaf staðið við bakið á mér í gegnum súrt og sætt. Ég minnist t.a.m. allra góðu stundanna uppi í sumarbústað þar sem þú kenndir mér að smíða, veiða og réðst mig svo í vinnu við að háþrýstiþvo pallinn. Ég man hvað það var alltaf skemmtilegur og góður andi í kringum þig, elsku afi. En nú ertu dáinn og ég finn hversu erfitt er að kveðja fyrirmyndina sína og vona innilega að þér líði vel á nýjum stað. Ég mun aldrei gleyma þér, elsku afi minn, og hlakka til að segja Leó sögur af þér. Takk fyrir alla hjálpina og góðu stundirnar í gegnum lífið. Megir þú hvíla í friði. Þinn,

Sindri.

Í dag kveðjum við tengdaföður minn, Sigurð Rúnar Steingrímsson. Leiðir okkar lágu fyrst saman árið 1984 og ég var ekki frá því að honum hefði ekki litist á strákpjakkinn sem var að gera sér dælt við dóttur hans. Við urðum þó fljótt miklir mátar og skapaðist mikil vinátta milli okkar. Oft sátum við saman og ræddum stjórnmál eða málefni líðandi stundar. Greinilegt var að Rúnar var maður með sterkar skoðanir og mikla réttlætiskennd.

Áhugamál hans voru margvísleg. Fótbolti og bridge áttu stóran part af lífi hans. Einnig hafði hann mikinn áhuga á trjárækt og naut þess að rækta upp landið við sumarbústað þeirra hjóna. Alltaf var jafn ánægjulegt að heimsækja þau í bústaðinn og njóta þess að virða fyrir sér það sem hann hafði áorkað þar og sýndi okkur með greinilegu stolti.

Rúnar átti við veikindi að stríða síðustu árin en það er til marks um æðruleysi hans og styrk að aldrei heyrðist hann kvarta og bjartsýnin og gleðin var aldrei langt undan.

Rúnar var hagmæltur maður og því tel ég við hæfi að ég kveðji kæran tengdaföður minn með eftirfarandi vísu eftir hann sjálfan og þakklæti fyrir samveruna. Minningarnar munu lifa áfram í huga okkar sem nutum þeirra forréttinda að fá að kynnast honum.

Þegar ljósin fara að dofna

og lífsins kraftur þverr.

Gott er þá að fá að sofna

Ó Guð í örmum þér.

(Sigurður Rúnar Steingrímsson)

Svavar Þorsteinsson.

Elsku Rúnar, við trúum því varla að þú sért farinn. Þó að þú hafir verið búinn að vera veikur þá varstu svo skýr og flottur í lokin. Þú skilur eftir þig stórt skarð, bæði hjá okkur fjölskyldunni og svo hjá mömmu. Helena Sif hefur miklar áhyggjur af því hver eigi nú að eiga handa sér suðusúkkulaði og ísblóm þegar hún kemur í heimsókn. En það eru margar góðar minningar sem sitja eftir og munum við passa að halda upp á þær. Það var góður tími þegar þú og mamma tókuð saman en jafnframt neyðarlegt þegar ég kom of seint í giftinguna á gamlársdegi árið 1987. Ég man svo alltaf eftir ferðalaginu hringinn í kringum landið á nýja Nissan Bluebird sem þótti ekkert smá flottur á þeim tíma. Það var oft fjör á Hrefnugötunni. Við bræður vorum nú ekki alltaf auðveldir, t.d. skellinöðrulæti við bílskúrinn þar sem ófáar skellinöðrurnar voru gerðar upp. Á seinni tímum breyttist þetta svo meira yfir í háværa bíla, mótorhjól og óþarflega mörg partý sem þú og mamma sýnduð ótrúlega þolinmæði með. Við Greta bjuggum svo hjá ykkur um tíma með Viktoríu Sól og Egil Andra, ekki leiddist þér nú að lauma til þeirra suðusúkkulaðibitum og öðru góðgæti þegar við foreldrarnir sáum ekki til enda varst þú alltaf í uppáhaldi hjá þeim öllum. Sumarbústaðarferðirnar voru ófáar og var hann ykkar aðalheimili á sumrin framan af. Alltaf voruð þið að dytta eitthvað að bústaðnum t.d. að fúaverja, gróðursetja og snyrta tré og svo njóta lífsins þess á milli en það gat oft verið yndislegt veður í Vatnaskógi. Nú höldum við fjölskyldan áfram að hugsa um bústaðinn og gera hann enn betri.

Þú og mamma voruð öflug í að fara í heimsókn til Palla bróður í Svíþjóð og leiddist þér nú ekki að vera í blíðunni þar, allavega á meðan það var ekki of heitt. Þú varst alltaf mikill þúsundþjalasmiður sem sást vel við uppgerðina á Dornier Do-28 flugvélinni hans Arngríms, þú og Hörður Eiríks, Haddi, kynntust þar og náðuð vel saman. Það voru oft fjörugar umræður á kaffistofunni í flugskýlinu. Það var gaman að fylgjast með hversu vel þér líkaði að vinna í hverfisstöð Reykjavíkurborgar á Miklatúni, verkefnin voru alltaf næg og áttir þú marga góða félaga þar. Ekki voru þeir nú samt alltaf sáttir þegar þú varst búinn að tæma vasana þeirra af klinki eftir að hafa unnið þá í póker. En nú er kallið komið og við vitum að þú nýtur þess að vera farinn að hlaupa á ný, jafnframt því sem við vitum að þú munt hafa vökult auga með mömmu og okkur öllum hinum. Hvíldu í friði.

Reynir Þór og Greta Björg.