Herbert Fyrrverandi framkvæmdastjóri.
Herbert Fyrrverandi framkvæmdastjóri.
Aðalmálið er að njóta þess að vera orðinn fullorðinn. Ég á tvö börn og átta afastráka og er í daglegu sambandi við þau og nýt þess í botn,“ segir Herbert Guðmundsson sem er 75 ára í dag.

Aðalmálið er að njóta þess að vera orðinn fullorðinn. Ég á tvö börn og átta afastráka og er í daglegu sambandi við þau og nýt þess í botn,“ segir Herbert Guðmundsson sem er 75 ára í dag. „Svo hitti ég fólk í morgunkaffi, eins og flesta virka morgna í 20 ár, við hittumst m.a. á Tíu dropum á Laugaveginum. Ég sakna þess mest í dag að hafa þurft að hætta í íþróttum. Ég var í fótbolta, golfi, á skíðum og í veiði, en fékk beinflís í mænugöngin og þurfti að hætta þessu öllu. Afleitt að geta ekki hreyft sig nóg. “

Herbert vann lengi í fjölmiðlum og útgáfumálum. Hann var ritstjóri Íslendings á Akureyri 1966–67 og Íslendings-Ísafoldar 1968–69, og ritstjóri Frjálsrar verslunar 1970–71. Herbert stofnaði fyrirtækið Nestor 1972 og hóf útgáfu tímaritsins Hús & híbýli, ásamt útgáfu ferðaþjónusturita á ýmsum tungumálum. Hann var ritstjóri Kópavogstíðinda 1978–79, blaðamaður hjá Vísi og síðan DV 1979–87, félagsmálastjóri Verslunarráðs Íslands 1988–97 og jafnframt framkvæmdastjóri Amerísk-íslenska verslunarráðsins. Herbert starfrækti jafnframt fyrirtæki sitt, Nestor, sem sinnti kynningarverkefnum, ráðstefnuhaldi, erindrekstri og ritstjórn handbóka. Hann ritstýrði Nafnabókinni okkar, árið 2000, um uppruna og merkingu gildra mannanafna, og Hundabókinni okkar, með upplýsingum um allar hundategundir hér á landi þá, 74 talsins.

Hann lauk starfsævinni í kreppunni eftir að hafa aðstoðað einstaklinga og smárekendur í fjárhagsvanda í tíu ár. Herbert var lengi virkur forystumaður í félagsmálum, í pólitík, íþróttastarfi og ferðamálum.

Börn Herberts eru Edda, kerfis- og tölvunarfræðingur hjá Reiknistofu bankanna, og Heimir Örn, hrl., sérfræðingur hjá HR.

„Ég ætla að láta afmælið líða hjá að mestu, það verður engin veisla. Ég hélt veglega veislu þegar ég varð fertugur og hún dugir út ævina. Hún stóð í þrjá daga, ég var á svo mörgum vígstöðvum á þeim tíma og þurfti að bjóða fólki í hollum.“