Eignasafn Seðlabanka Íslands stefnir nú að því að selja eignir Hildu í hlutum.
Eignasafn Seðlabanka Íslands stefnir nú að því að selja eignir Hildu í hlutum. — Morgunblaðið/Ernir
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Eignasafn Seðlabanka Íslands hefur hafnað öllum framkomnum tilboðum í Hildu og stefnt er að því að selja félagið í hlutum.

Stjórn Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) hefur ákveðið að hafna öllum framkomnum tilboðum í Hildu en það er dótturfélag ESÍ sem heldur utan um milljarða eignasafn sem komst í eigu Seðlabankans í kjölfar bankahrunsins. ESÍ auglýsti félagið til sölu þann 20. ágúst síðastliðinn og þar kom fram að hlutafé þess væri að nafnvirði 1 milljarður króna og að það yrði selt í einu lagi.

Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri ESÍ og stjórnarformaður Hildu, staðfestir þetta í samtali við ViðskiptaMoggann.

„Það var mat stjórnar ESÍ að ganga ekki að þeim tilboðum sem bárust þar sem þau reyndust ekki ásættanleg þegar þau voru borin saman við þær væntingar sem við höfðum til þess að fá fyrir félagið.“

Haukur segir að ESÍ muni gefa sér þann tíma sem þarf til að fá ásættanlegt verð fyrir þær eignir sem felast í Hildu.

„Það er markmiðið og nú munum við skoða aðra möguleika í stöðunni. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta leiði til þess að eignirnar sem í félaginu eru verði boðnar fjárfestum til sölu en engar ákvarðanir hafa verið teknar í þá veru,“ segir Haukur.

Fjögur tilboð bárust

Eins og Morgunblaðið greindi frá í byrjun desember buðu fjórir fjárfestahópar í eignasafnið en það voru fjármálafyrirtækin ALM verðbréf, Arctica Finance, Kvika og Virðing sem gerðu það í nafni hópanna. Það var Arion banki sem hélt utan um söluferlið fyrir hönd ESÍ. Í sömu frétt blaðsins í desember sagði frá því að þótt aðeins fjórir hópar hefðu gert formlegt tilboð í félagið hefði á annan tug aðila sýnt því áhuga þegar það var auglýst til sölu. Þeir aðilar sem höfðu áhuga á því að leggja fram tilboð í félagið þurftu að sýna fram á að þeir hinir sömu byggju yfir 750 milljónum í lausafjármunum sem nýta mætti til kaupanna.

Miklar eignir

Hilda var stofnuð árið 2009 til þess að halda utan um fasteignir, lóðir og lánasöfn sem félagið hefur eignast á undanförnum árum með fullnustuaðgerðum og uppgjörssamningum. Meðal þess sem fært var til félagsins voru eignir Dróma, eignasafns Spron og Frjálsa fjárfestingabankans, að undanskildum einstaklingslánum sem flutt voru til Arion banka. Bókfært virði eigna félagsins um mitt síðasta ár nam um 15 milljörðum króna. Þar á meðal voru fjölmargar fasteignir, útlán og skuldabréf.