Víkverji getur ekki sagt að hann sé mikið fyrir þorrablót. Honum hefur aldrei verið boðið á þorrablót né hefur hann sóst eftir því að borða þorramat þegar kallið kemur.
Víkverji getur ekki sagt að hann sé mikið fyrir þorrablót. Honum hefur aldrei verið boðið á þorrablót né hefur hann sóst eftir því að borða þorramat þegar kallið kemur. Þið getið kallað Víkverja veimiltítu en það er eitthvað við tilhugsunina um að borða súran (eða úldinn) mat sem honum hugnast ekki. Þá er hugmyndin um hrútspunga ekkert sérstaklega lystug fyrir þann sem aldrei hefur smakkað þá.
Víkverji getur ekki gert upp við sig, hvort þetta sé vegna þess að hann sé ekki alinn upp við slíkan mat, eða hvort þetta sé einfaldlega heilbrigð skynsemi. Boðið var til dæmis upp á dýrindis þorramat í mötuneytinu um daginn og var látið vel af honum. Víkverji hins vegar komst ekki í matsalinn, þar sem ilmurinn af lostætinu kýldi hann svo illa í nasirnar að hann hrökklaðist til baka.
Svo er líka vert að gæta að uppruna þessa siðar, en fyrr á tíð átu Íslendingar súrmetið einfaldlega af því að þeir neyddust til þess. Á 21. öldinni er hins vegar engin ástæða til þess að láta sér til munns mat sem í raun er á ystu mörkum þess að geta talist ætur, nema þá helst einhver nostalgía.
Víkverji hefur gjarnan líkt þessu við mann sem býr í ræsinu og leggur sér rusl til munns. Einn dag vinnur hann fyrsta vinninginn í lottóinu og flyst úr ræsinu í höll. Þegar þangað er komið finnst honum hins vegar mikilvægt að minnast upprunans og heldur því árlega veislu þar sem ekkert nema rusl er á boðstólum. Þætti eflaust mörgum nostalgían vera komin fulllangt í því tilfelli.