Jóhann Ingimarsson, jafnan kallaður Nói, fæddist 23. júlí 1926. Hann lést 10. janúar 2016.
Útförin fór fram 18. janúar 2016.
Elsku afi Nói.
Það má með sanni segja að ég hafi verið búin að undirbúa mig ágætlega fyrir þann dag sem þú myndir kveðja. Síðustu sex jól hafa verið samkvæmt móður minni „þín síðustu jól“. Hver hefði búist við að þú ættir níu líf?
Ég er þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem ég á um þig og þessi níu líf þín. Þú varst svo góður afi og það var alltaf gaman að heimsækja þig. Það var svo gaman sem krakki að koma til þín og ömmu í Austurbyggðina. Amma sá til þess að maður væri saddur og sæll og þú sást til þess að manni leiddist ekki. Ég man alltaf eftir búðinni sem þú smíðaðir handa mér. Amma gaf mér allar tómu krem- og ilmvatnsumbúðirnar og þú smíðaðir búð og svo var leikið. Þú leyfðir mér líka að klippa á þér táneglurnar og þrífa tennurnar þínar.
Ég man enn eftir glottinu á andlitinu á þér; þér þótti sko ekki leiðinlegt að gera óhefðbundna hluti og varst með húmorinn í lagi.
Það er skrýtið að hugsa til þess að jólin 2015 hafi verið þau síðustu með þér. Í síðasta skiptið sem ég heimsótti þig var sko nóg að gera hjá þér. Þú varst að plana að smíða stól og varst með alls kyns verkefni á þinni könnu. Geri aðrir betur.
Ég mun sakna þín, elsku afi, og þú munt ávallt búa í minningum mínum.
Aníta Eldjárn.