[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í greinargerð með frumvarpi laganna sem og í meðförum þingsins kom m.a. fram það sjónarmið að í orðalagi ákvæðisins felst að löggjöf um skatta myndi teljast afturvirk ef hún er sett eftir það tímamark sem skattskyldan eða skatthæðin á að taka mið af.

Við innleiðingu virðisaukaskatts hjá stórum hluta rekstraraðila í ferðaþjónustu hafa allmargir hnotið um ákvæði í lögum um virðisaukaskatt er varð að lögum rétt fyrir jól. Þetta lagaákvæði, 25. gr. laga nr. 125/2015, kveður á um að afhending á vöru eða þjónustu sem fer fram eftir 31. desember 2015 skuli teljast til virðisaukaskattsskyldrar veltu án tillits til þess hvort samningur um söluna komst á eða greiðsla fór fram að hluta eða fullu fyrir 1. janúar 2016. Þetta þýðir í reynd að aðili sem selur t.d. skoðunarferð með hópbifreið um hálendi Íslands í júlí 2016 eigi að skila virðisaukaskatti (útskatti) af söluverði ferðarinnar miðað við þá dagsetningu þegar ferðin er farin þrátt fyrir að ferðin hafi verið seld og jafnvel greidd fyrir áramót. Bent hefur verið á að þetta lagaákvæði feli í sér afturvirka skattlagningu sem sé ekki heimil. Við sölu ferðanna á árinu 2015 var ekki fyrirsjáanlegt að þessar tekjur væru skattskyldar til virðisaukaskatts og einnig hefðu aðilar ekki ráðrúm til að bæta þessum virðisaukaskatti ofan á. Ef skatturinn er afreiknaður sé álagning margra farin og jafnvel rúmlega það.

Það hefur heyrst frá skattyfirvöldum að þetta sé ekki ný aðferð þegar breyting verður á skattskyldu rekstraraðila til virðisaukaskatts, þetta hafi verið gert svona áður eða þegar breyting var gerð með lögum nr. 111/1992 þegar útleiga hótel- og gistiherbergja var gerð virðisaukaskattsskyld frá 1. janúar 1993. Þá var að finna í bráðabirgðaákvæði lagareglu sem er nærri því samhljóða þeirri sem rataði í lög í lok síðasta árs. Þá fylgdi reyndar önnur málsgrein til viðbótar sem hljóðaði svo: „ Hafi samningur, sem 1. mgr. þessa ákvæðis tekur til, verið gerður skal kaupandi greiða viðbót við samningsgreiðsluna sem svarar virðisaukaskatti samkvæmt lögum þessum, enda sé um að ræða sölu á vöru og þjónustu sem ekki var skattskyld fyrir gildistöku laga þessara, þó ekki ef sannað er að virðisaukaskattur hafi verið talinn með í kaupverðinu við ákvörðun þess “. Í lögum nr. 125/2015 er ekki að finna sambærilegt ákvæði.

Það er meginregla í virðisaukaskatti að skylt er að gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Ef greitt er inn á vöru eða þjónustu fyrirfram telst afhending eiga sér stað á þeim tíma og skylt er að greiða útskatt af innborguninni. Svo virðist sem að þessi regla sé ekki talin eiga við um þau viðskipti sem hafa átt sér stað fyrir síðustu áramót þótt skila eigi útskatti af sölu ferða sem átti sér stað á sama tíma.

Þótt vísað sé til laganna frá 1992 sem áttu við um viðskipti með vöru og þjónustu sem urðu skattskyld frá 1. janúar 1993 þá hefur eitt gerst í millitíðinni fram til dagsins í dag sem telja má að hljóti að hafa veruleg áhrif þegar svona lagasetning er annars vegar en það er setning laga nr. 97/1995, öðru nafni „Stjórnskipunarlög um breytingu á Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944“. Þá voru miklar breytingar gerðar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og skiptir hér hvað mestu máli ný 2. mgr. 77. gr. sem hljóðar svo: „ Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu .“ Í greinargerð með frumvarpi laganna sem og í meðförum þingsins kom m.a. fram það sjónarmið að í orðalagi ákvæðisins felst að löggjöf um skatta myndi teljast afturvirk ef hún er sett eftir það tímamark sem skattskyldan eða skatthæðin á að taka mið af. Með vísan til framangreindrar breytingar er erfitt að fullyrða að lög sem eru samþykkt á Alþingi 19. desember 2015 og birt 28. desember sama ár og kveða á um að skila þurfi útskatti af viðskiptum sem eiga sér stað fyrir þau tímamörk teljist ekki afturvirk.