Rúnar Stanley Sighvatsson
Rúnar Stanley Sighvatsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rúnar Stanley Sighvatsson, Ketil Má Björnsson, Þröst Erlingsson, Eyjólf Orra Sverrisson, Sigurð Þorgils Guðmundsson og Ómar Þór Edvaldsson: "Ríkið vill að við semjum um lægri laun en ríkið greiðir öðrum flugvirkjum í sinni þjónustu. Þannig á að brjóta okkur niður."

Þann 11. janúar sl. fóru sex flugvirkjar, sem starfa í lofthæfi- og skrásetningardeild Samgöngustofu, í verkfall. Eflaust mætti halda, að ástæða verkfallsins hljóti að vera krafa um hærri laun, sem ekki hafi verið fallist á. Svo er þó ekki. Engin krafa er gerð um launhækkun. Eflaust yrðu flestir vinnuveitendur glaðir ef starfsmenn þeirra færu ekki fram á neina launahækkun við gerð kjarasamninga. Ekki ríkisvaldið. Því er skollið á verkfall, sem hefur staðið núna í meira en tvær vikur og sér ekki fyrir endann á.

Strangt regluverk

Áður en við útskýrum um hvað deilan snýst þá ætlum við að upplýsa þig, lesandi góður, um þau störf sem við sinnum og hvers vegna. Allt sem snýr að flugi er bundið mjög ströngum reglum og hefur verið svo í fleiri áratugi. Bundið alþjóðlegum reglum sem þjóðir, þ.ám. Íslendingar, skuldbinda sig til að fara eftir. Ísland kaus einnig að gerast aðili að Flugöryggisstofnun Evrópu og er í dag eitt af 32 aðildarríkjum þeirrar stofnunar. Ísland valdi þar með að fylgja þeim reglum um öryggi í flugi, sem Evrópusambandið setur. Í staðinn fá öll íslensk fyrirtæki, sem hafa fengið tilskilin leyfi, hvort sem er flugfélög, flugvélaverkstæði eða skólar sem kenna flugtengt nám, að starfa frjálst hvar sem er innan landamæra þessara 32ja Evrópuríkja. Þau íslensku fyrirtæki sem verða sér úti um tilskilin leyfi á Íslandi fá þannig frjálsan og óheftan aðgang að 508 milljóna manna markaði. Það eru ekki bara fyrirtæki sem fá aðgang að þessum markaði, heldur einnig einstaklingar eins og flugvirkjar, sem hafa fengið skírteini gefin út á Íslandi. Þeirra flugvirkjaskírteini eru gild hvar sem er. Þvílíkt atvinnufrelsi og þvílík tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki!

Tækifærin nýtt

Nú þegar nýta fyrirtæki og einstaklingar sér þetta frelsi. Gott dæmi er íslenskt viðhaldsfyrirtæki, sem hefur sett upp starfsstöð í Helsinki og gert samning um að sinna viðhaldi fyrir norska, danska og írska flugrekstraraðila, sem fljúga til og frá Helsinki. Allt byggt á leyfi gefnu út á Íslandi og án aðkomu finnskra yfirvalda. Einnig geta öll íslensk flugfélög valsað um Evrópu í frjálsri samkeppni við þarlend flugfélög. Þetta er frelsi sem byggist á sameiginlegu regluverki og sameiginlegu eftirlitskerfi. Á þeim grundvelli er byggt upp traust milli landa. Traust sem Flugmálastjórn Íslands hafði byggt upp fyrir Ísland.

Okkar starf

Stærsti hluti af starfi þessara sex flugvirkja, sem nú eru komnir í verkfall, er að tryggja flugöryggi og þetta íslenska athafnafrelsi. Á okkar eftirlitsstarfi byggist traustið, sem önnur ríki hafa á íslenskum flugöryggismálum. Þessir sex aðilar hafa eftirlit með því, að íslensk flugfélög sinni viðhaldi flugvéla með þeim stranga hætti sem öryggiskerfið krefst. Það er m.a. gert með því að við þurfum að ljá samþykki okkar fyrir öllum viðhaldsáætlunum fyrir íslensk loftför og samþykkja alla samninga um framkvæmd viðhalds. Okkar hlutverk er að samþykkja gæðakerfi, ábyrgðaraðila og helstu stjórnendur fyrirtækjanna. Við þurfum að samþykkja handbækur sem lýsa hvernig viðhaldsstarfsemin á að fara fram og breytingar á þeim handbókum verður að bera undir okkur. Við veitum leyfi til viðhaldsverkefna, sem gilda alls staðar í Evrópu, staðfestum lofthæfi loftfara og framkvæmum reglubundnar úttektir til að fylgjast með að verkefnin séu unnin eins og fyrirmæli hafa verið gefin um. Þetta eru aðeins fáein dæmi um hvaða störfum við eigum að gegna, þessir sex, sem engan kjarasamning höfum haft í 27 ár og er nú mætt með hótunum ef við föllumst ekki á launalækkun á sama tíma og ríkið semur um launahækkanir við alla aðra hópa.

Öryggi flugfarþega

Okkar starf snýst þó langt í frá bara um að tryggja viðskiptahagsmuni og atvinnufrelsi. Að sjálfsögðu þarf ekki síður að tryggja hagsmuni íslenskra og erlendra neytenda, þ.e. flugfarþeganna sjálfra. Sá er tilgangurinn með öllu þessu regluverki sem unnið er eftir. Eftirlitið með að því sé fylgt er ábyrgðin sem okkur er ætlað að axla.

Ríkinu gert skylt að semja

Í 27 ár hafa stafsmenn lofthæfis- og skrásetningardeildar reynt að fá kjarasamning við ríkið. Þegar það tókst ekki var árið 1997 gert samkomulag beint við Flugmálastjórn Íslands þess eðlis, að okkur yrðu tryggð sömu launakjör og aðrir starfandi flugvirkjar hjá ríkinu höfðu og hafa enn, því enginn fékkst til starfa við eftirlitið meðan engin trygging var fyrir sambærilegum launum og aðrir flugvirkjar ríkisins höfðu. Þetta samkomulag snerti bara launin ein, en öll önnur atriði kjarasamnings voru enn ófrágengin. Árið 2013, eftir um tuttugu og fjögur árangurslaus ár, varð okkur ljóst, að eina leiðin til að fá ríkið til að gera heildstæðan kjarasamning væri að leita réttar okkar fyrir dómstólum, þar sem við töldum að augljóslega væri verið að brjóta á rétti okkar. Félagsdómur var okkur sammála og dæmdi ríkið til að semja og staðfesti að Flugvirkjafélag Íslands hefði umboð til samninga fyrir okkar hönd. Núna, tæplega þremur árum seinna, hefur okkur ekki tekist að þoka málum lengra en svo, að við erum komnir til Ríkissáttasemjara með okkar deilu. Þrátt fyrir dómsúrskurð höfum við enn engan kjarasamning fengið.

Lækkið launin – eða...

Það sem ríkið hefur boðið okkur er samningur sem ákvarðar lækkun á launum okkar. Ríkið vill að við semjum um lægri laun en ríkið greiðir öðrum flugvirkjum í sinni þjónustu. Þannig á að brjóta okkur niður. Síðan er líklega komið að hinum. Verða þeir krafðir um lækkun líka?

Þegar við höfnuðum lækkuninni brá ríkisvaldið á það ráð á milli funda í desember að segja einhliða upp samkomulaginu sem við höfðum gert árið 1997 við Flugmálastjórn Íslands, þáverandi starfsstöð okkar, um launagreiðslur til okkar. Við erum því ekki bara kjarasamningslausir heldur hefur launasamningi okkar líka verið sagt upp. Svo, viku seinna, var okkur tilkynnt að við yrðum settir á lista yfir þá ríkisstarfstarmenn sem ekki mættu fara í verkfall. Sem sagt, við áttum að vera algjörlega samningslausir um bæði kaup og kjör og svo átti að taka verkfallsréttinn af okkur líka. Þetta kallast valdníðsla og minnir helst á stjórnunarhætti í Austur-Þýskalandi. Örþrifaráð okkar var að boða til verkfalls áður en ríkinu tækist að koma okkur á verkfallsbannlistann.

Hagsmunir í uppnámi

Með framferði sínu hefur ríkið sett hagsmuni íslenskrar flugstarfsemi í uppnám eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum. Aðgerðirnar hafa þegar haft áhrif á framtíðarviðskiptaáætlanir flugfélaga með tilheyrandi fjárhagstjóni, auk þess sem ekkert opinbert eftirlit fer fram með lofthæfi flugvéla meðan á verkfalli stendur. Ísland uppfyllir því ekki skuldbindingar sínar gagnvart íslenskum flugrekendum og farþegum á þeirra vegum, hvað þá heldur skuldbindingar gagnvart öðrum ríkjum. Á þessa atburðarás horfir innanríkisráðuneytið afskiptalaust, en það ber ábyrgð á þessum málarflokki.

Um er að ræða kjarasamning fyrir sex starfsmenn. Um hann hefur ríkið ekki fengist til þess að semja í 27 ár. Þegar Félagsdómur skipar ríkinu að setjast niður og semja er svarað með því að krefjast lækkunar á launum okkar, rifta einhliða eina samkomulaginu sem gert hefur verið um launagreiðslur til okkar og hóta okkur með verkfallsbanni ef við ekki hlýðum. Um þetta sitja svo níu manns og deila hjá Ríkissáttasemjara en ná engu landi. Níu manns að deila um samning fyrir sex og öryggi íslenskra flugrekenda og íslenskra flugfarþega í uppnámi.

Höfundar eru flugvirkjar hjá Samgöngustofu.

Höf.: Rúnar Stanley Sighvatsson, Ketil Má Björnsson, Þröst Erlingsson, Eyjólf Orra Sverrisson, Sigurð Þorgils Guðmundsson, Ómar Þór Edvaldsson