Jónína Ásgeirsdóttir Kaaber fæddist í Reykjavík 24. mars 1921. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 15. janúar 2016.

Foreldrar hennar voru Ásgeir Jónasson skipstjóri f. 1884, d. 1946 og Guðrún S. Gísladóttir húsmóðir f. 1888, d. 1985.

Systur Jónínu voru: Helga Hólmfríður f. 1922, d. 1988 og Petra Guðbjörg f. 1924, d. 1986.

Eiginmaður Jónínu var Knud Albert Kaaber f. 1922, d. 1989.

Börn Jónínu og Knuds eru:

1) Guðrún Elín, f. 1944. Dætur hennar eru Guðný og Sigrún.

2) Ásgeir f. 1946. Börn hans eru Gunnar Þór, Ingibjörg og Elín.

3) Eva f. 1948. Börn hennar eru Gerður, Inga og Haukur.

4) Kári f. 1950. Synir hans eru Björgvin og Birgir.

5) Birgir f. 1954. Börn hans eru Helga, Ragnar og Sverrir.

Jónína ólst upp á Skólavörðustíg 28 og lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1939. Hún vann við skrifstofustörf þangað til hún giftist Knud 18. ágúst 1945. Þau bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, síðast í Hæðargarði 7. Jónína lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þar sem hún dvaldi síðustu vikur ævi sinnar.

Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 28. janúar 2016, og hefst athöfnin kl. 13.

Ninna átti rætur í miðbæ Reykjavíkur og Þingvallasveit. Ég kynntist Guðrúnu móður hennar á Skólavörðustíg 28, þar sem hún og Ásgeir skipstjóri byggðu yfir fjölskylduna og hún bjó alla tíð. Guðrún lifði hátt í hundrað ár og var óskaplega hress og skemmtileg kona fram eftir öllu. Það var mætingarskylda í sunnudagskaffi hjá henni og Ninna tók við og hélt þessum góða sið alla tíð. Þetta var vel til fundið og treysti fjölskylduböndin. Og alltaf var jafn gaman að hitta þessar eiturhressu konur með börnin og barnabörnin í kringum sig.

Ég var ungur að árum þegar ég fór að venja komur mínar á heimili Ninnu. Hún var gift Knud Kaaber, sérstökum manni, listrænum öðlingi og börn þeirra urðu fimm. Elsti sonurinn, Ásgeir, varð einn fyrsti leikfélagi minn, árinu eldri en ég. Pabbi og Kúddi voru skákfélagar og við áttum heima hvor sínum megin við Laugaveginn, rétt ofan við Hlemm. Ein af fyrstu minningum mínum er þegar ég var sex ára og Ásgeir sjö, og okkur tókst að tendra eld í kjallaranum þeirra megin. Þetta leiddi til fyrstu afskipta lögreglunnar af undirrituðum.

Fjölskyldurnar fóru saman í berjamó og mér er sagt að til sé mynd af okkur Evu úr slíkri ferð, fjögurra og fimm ára gömlum. Við urðum svo hjón tuttugu árum síðar. Kannski var það sú ferð sem Ninna sagði mér frá, en hún var góð frásagnakona. Pabbi hafði tekið taflmenn með í mjólkurbrúsa.

Mamma var hins vegar í einfeldni sinni að benda Ninnu stolt á, hversu hugsunarsamur Haukur sinn væri, að taka með mjólkurbrúsa handa börnunum. Þegar degi fór að halla í Heiðmörk fór Ninna að telja saman börnin, hvort nokkurt væri týnt. Þá heyrist í Hauki pabba, það vantar eitt, það vantar eitt. Ninnu var brugðið, þar til í ljós kom að það var peð sem vantaði í skáksettið, ekki barn.

Kúddi spilaði á píanó, einkum klassískt, en bæði voru jassunnendur. Bræðurnir Jónas og Jón Múli Árnasynir voru heimilisvinir og heyrt hef ég að Einu sinni á ágústkvöldi hafi fyrst verið spilað fyrir Kúdda og það held ég að stemningin sú úr Þingvallasveit hafi átt við Ninnu.

Ninna var tengdamóðir mín og það gat ekkert verið fyrrverandi í því sambandi. Hún tók seinni konu minni, Björk, óskaplega vel frá fyrstu tíð og það var gagnkvæmt. Hún var amma allra barnanna minna, ekki bara þeirra þriggja, Gerðar, Ingu og Hauks sem ég eignaðist með Evu. Hún var alla tíð og ekki síður amma yngri barnanna, Guðfinns og Kristínar, fylgdist með uppvexti þeirra, mætti á ótal tónleika þar sem þau léku og sungu og lét sig ekki vanta í fjölskylduveislur okkar. Þar var hún enda allra eftirlæti.

Þegar Ninna er kvödd, situr eftir þakklæti fyrir öll árin, fyrir vináttu í minn garð, fyrir sögurnar og húmorinn, fyrir kaffiboðin, sunnudagsbizið hjá ammí einsog það heitir á kaabersku. Og síðast en ekki síst, þakklæti fyrir hafa verið góð amma barnanna minna.

Sveinn Rúnar Hauksson

Einhverju sinni var Helgu, langömmu minni, gert að sitja dagstund með ungum manni. Vísast hefur heimilisfólkið á Skólavörðustíg brugðið sér í bíó til að horfa á Bogart og Bacall nema sjálfur Cary Grant hafi liðið sem pardusdýr yfir tjaldið. Þegar heim var komið var Helga spurð hvernig farið hefði á með henni og gestinum. Ekki stóð á svari: „Það má mikið vera ef þetta verður skemmtilegt gamalmenni.“

Ég hafði jafnan mikla ánægju af samneyti við Ninnu. Hún var einstaklega viðræðugóð, fyndin og orðheppin og gat verið beinskeytt ekki síður en Helga amma hennar en nú þegar ég kveð kæra móðursystur mína sækir á huga hversu vel hún leysti það verkefni að eldast.

Lifandi áhugi á sögu, bókmenntum og margvíslegum fræðum öðrum hefur tæpast spillt fyrir. Fordómaleysi hefur vart komið að sök fremur en leitandi hugur.

En hún var líka lánsöm. Mökkur afkomenda færði henni gleði og fyllingu auk þess sem það góða fólk sýndi henni kærleika og umhyggju alla tíð. Sá stuðningur öðlaðist margfalt vægi hin síðustu ár og gerði Ninnu kleift að búa heima nánast til hinsta dags.

Ég þykist viss um að mætti hún nú mæla teldi hún þetta þakkarefni. Og um leið myndi hún tiltaka þá gæfu að hafa sloppið við ættjarðarsöngva, harmonikkuspil og aðrar helstu birtingarmyndir íslenskrar elli. Raunar hafði hún þá sýn til ellinnar að hún væri heldur kómískt fyrirbrigði en þótt kímnigáfan væri þroskuð fékk hún ekki séð að grín fylgdi því stofnanalífi sem gömlu fólki er búið.

Ninna var laus við þá lamandi hugsun að allt hefði verið betra hér áður fyrr. Hún var að sönnu vel lesin, einkum í bókmenntum og ættfræði, og hreint makalaust fróð um sögu Reykjavíkur en aldrei heyrði ég hana lasta nútíma eða harma breytingar. Sumt vakti þó furðu. Ég minnist þess að einhverju sinni hafði hún hlýtt á þátt í útvarpi þar sem stjórnandi tók mann tali á horni Smáragötu og Njarðargötu og upplýsti að þeir væru staddir „í Þingholtunum“. Ranghermi sem þetta taldi Ninna ganga glæpi næst. Þulir og fræðafólk annað leitaði enda oft til hennar eftir upplýsingum um sögu höfuðstaðarins, gengna íbúa, horfin hús, örnefni. Í þeim efnum var hún sem alfræðirit, réttnefndur gagnagrunnur – stálminnug og skýr í hugsun þótt háöldruð væri.

Í huga Ninnu var okkar fagra veröld sköpunarverk þótt fátt yrði af viti sagt um þann framandi „aðila“ sem himnasmiðurinn telst næstum því ábyggilega nú um stundir. Hæðanna dýrð og huliðstjald heiðlofta var heillandi skáldskapur og ráðlegt að hafa fyrirvara við áreiðanleika þeirra upplýsinga.

Líkt og hún átti kyn til leiddist henni heldur tilgerð, væmni, hégómi, tildur og prjál. Hún mat heiðarleika og staðfestu umfram flestan þann ytri búnað sem hafður er til marks um mannkosti og velgengni. Praktíska geðvernd iðkaði Ninna hin seinni ár með því að leiða hjá sér íslensk dægurmál og tók því sem að höndum bar af yfirvegun, í prýðilegri harmóníu við liðið og nýtt.

Hafi hún hjartans þakkir fyrir allt.

Ásgeir Sverrisson.

Jónína móðursystir mín var ein þriggja systra sem ólust upp á Skólavörðustíg en einnig í Hrauntúni í Þingvallasveit á sumrum þaðan sem föðurfjölskyldan var. Hún var, eins og við öll, barn síns tíma , tók þátt í að stofna lýðveldið, innblásin af tímans hljómi. Ninna frænka eins við kölluðum hana yfirleitt var nýrómantíker í sér, bók- og ljóðelsk. Hún giftist Knud Kaaber og varð þeim 5 barna auðið en hann lést 1989.

Ninna var að sumu leyti lík Þingvallahrauni. Ef ekki var gætt vel að var hægt að hrufla sig. Það voru yfirborðssár. Henni svipað einnig til Þingvalla þannig að allar árstíðir hafa þar sína fegurð. Að öðru ólöstuðu var hennar árstíð haustið, hin þroskaða árstíð með litadýrð, kyrrð og visku hins liðna í nesti sínu. Við fráfall móður okkar gerðist hún staðgönguamma barna okkar bræðra og rækti það hlutverk af alúð til dauðadags. Henni var skyldurækni sjálfsögð og handan umræðu, en réttindi voru að sama skapi ekki rædd. Spakir menn hafa gegnum aldir sagt að lifa skuli hinu dyggðuga lífi, og síðan deilt um hvað það væri, Ninna frænka þurfti ekki að ræða það, góður hugur veit hvað gera skal. Hún var umkringd fjölmörgum kynslóðum afkomenda og annarra sem til hennar leituðu alla ævi.

Hún upp skar eins og hún sáði. Þar fannst öllum þeir vera á réttum stað í heiminum á réttri stund hjá henni . Ninna var þannig lífspekingur sem lifði allar sínar dyggðir fyrirhafnarlítið að því er virtist, með skilning á brothættri mannlegri tilveru. Það er fátítt

Við lútum höfði í virðingu,með söknuði og þakklæti.

Þórður Sverrisson

og fjölskylda.

Hún askaði sjaldan. Sígarettan vandlega skorðuð af í hvilftinni milli löngutangar og vísifingurs, ört gránandi í funanum. Hún handlangaði kveikjarann til pabba – eða Nenna eins og hún kallaði hann – og kinkaði kolli meðan hann færði líf í eina stutta Camel og viðraði nýbakaða hugrenningu um inntak mannlegrar tilveru eða rifjaði upp minningu um mömmu sína – systur Ninnu og ömmu mína – sem lést skömmu áður en ég fæddist.

Leðursófi, öskubakki á stærð við vínylplötu, nóg af kóki fyrir strákinn.

Hár Ninnu grátt og liðað, húðin dökk, augun hlý og tindrandi, hláturinn flauelsmjúkur og alúðlegur.

Ég var þögull og innrænn krakki og fílaði fátt betur en að sötra kraumandi ferskt kók með pabba og Ninnu í Smáíbúðahverfinu og fylgjast með þeim svæla sígaretturnar saman – pæla í því hvernig hátterni reyksins var annað og þokkafyllra innandyra – og heyra þau fara um víðan völl; spjalla um gömlu Reykjavík, horfna karaktera úr bæjarlífinu, djass, kveðskap Einars Ben. Svo ráfaði ég fram í eldhús til að virða fyrir mér innrammaða mynd af Zinedine Zidane. Ninnu fannst leikstjórnandinn franski svo sætur að hún hafði hann uppi á ísskápnum.

Þær systur amma og Ninna dýrkuðu Einar, og ég smitaðist fljótt af þessum dásamlega vanmætti gagnvart eignarfallsrími, stórhug og hófleysi skáldsins í kjölfar þess að Ninna þuldi reiprennandi fyrir mig Móðir mín. Svo fyllti hún á kókglasið mitt. Seinna arfleiddi hún mig ungan að öllum bókunum hans, fyrstu útgáfum – blaðsíðurnar ölgular og skrælnaðar, bundnar í leður – og sáði þar kraftmiklu fræi í grófa mold hugsana minna.

Það er verkefni næmari skálda og hugsuða en mín að velta fyrir sér hvort borgir hafi sál, en í mínum augum leiftraði saga og ára Reykjavíkur hvergi tærar en í orðum og látæði Ninnu. Hún geymdi borgina í hjarta sínu. Hver einasti áheyrandi fékk ekki varist tafarlausri ölvun þegar hún tók til máls og lýsti litlum atvikum úr bæjarlífinu á borð við að tipla niður Skólavörðustíginn í húminu í miðri viku um miðjan sjötta áratuginn, hönd í hönd við sjarmörinn Kúdda Kaaber, eiginmann sinn. Jón Múli hafði hringt. „Jónína, getiði ekki kíkt snöggt yfir? Verð að sýna ykkur hugmynd að lagi sem ég var að berja saman“ – það mátti ekki bíða! Í fölgulri náttlampabirtu með gítarinn í kjöltunni plokkaði hann fyrir þau hina kunnuglegu laglínu sem Jónas bróðir hans samdi síðar texta við og kallaði Einu sinni á ágústkvöldi.

Við sem elskuðum Ninnu huggum okkur við það að hún átti langa og góða ævi, brunaði kvik, skörp og ljónfjörug upp og niður stigann heima hjá sér næstum fram á síðasta dag. Í eitt af síðustu skiptunum sem ég hitti hana gaf hún mér svarthvíta passamynd af ungri ömmu minni. Ég geymi hana á skrifborðinu mínu. En þótt myndin sé af einni manneskju sé ég samt á henni tvær konur.

Systur sem ég sakna. Ömmu mína sem ég hef heyrt svo mikið um en fékk aldrei að hitta og konuna sem gaf mér ekki bara myndina heldur auðgaði líf allra kringum sig með hjartahlýju sinni, brosmildi og vitsmunum. Guð blessi minningu hennar.

Halldór Armand.

Það eru vandfundnir eins miklir Reykvíkingar og hún Ammí. Þegar fólk spurði hvaðan hún væri sagðist hún vera frá Skólavörðustíg og vera svo stolt af því. Henni fannst það ekki síður merkilegt en að vera frá Hornstöndum, Akureyri eða að austan. Hún bjó ekki bara í borginni sinni öll sín 94 ár, heldur einnig foreldrar hennar sem fengu Guðjón Samúelsson til að teikna fyrir sig fjölskylduhús að Skólavörðustíg 28, á þeim tíma þegar skipulagið gerði ráð fyrir háborg á Holtinu.

Ninna þekkti sögu Reykjavíkur og er konan á bak við tjöldin sem sagnfræðingar leituðu til, þegar leita þurfti eftir vitneskju um hvaða fólk var á gömlum myndum og hver bjó hvar. Ninna var ekki bara með það á hreinu, heldur mundi hún líka eftir viðurnefnunum sem voru mörg og ólík. Man ég eftir þeim sem var kallaður hjörurass af því að hann þótti hinsegin og þeim með nefið.

Ninna mundi vel eftir því þegar Landspítalinn var byggður, enda var það ekki fyrr en 1930 eins og hún orðaði það. Í fyrra er við fórum í bæjarferð rifjaði hún upp Skólavörðuholtið fyrir tíma Landspítalans. Kannski munu langömmubörnin hennar og barnabörnin mín sem fædd eru á síðustu árum segja seinna frá Reykjavík þegar ekki var búið að byggja nýja Landspítalann og á meðan flugvöllurinn var í miðri miðborginni. Það mun þykja jafn skrýtið og okkur finnst skrýtið að hugsa til Reykjavíkur fyrir tíma vatns- og skólplagna. Það var ljóslifandi fyrir Ninnu þó ekki hafi hún sjálf munað þá tíma. Þegar taugaveikifaraldur braust út í Reykjavík árið 1906, vegna þess að bakteríur komust í nokkra brunna, þar á meðal í brunninn við Vatnsstíg, átti fjölskylda hennar þátt í því að koma sjúkum til hjálpar. Frænka hennar tók í fóstur tvo munaðarlausa drengi eftir faraldurinn og gat Ninna lýst öllu í því sambandi enda var þetta mikið rætt í fjölskyldunni að henni fannst hún þekkja þetta allt og gat bent á húsin þar sem veikindin gerðu vart við sig. Að keyra með Ninnu um Skólavörðuholtið, gamla miðbæinn og Skuggahverfið var ævintýri frá gamla tímanum og vildi ég óska þess nú að fróðleikur hennar hefði verið tekinn upp.

Við Ninna áttum afskaplega góð samskipti síðustu áratugi. Hún studdi mig til að fara í pólitík, en ekki gat hún hugsað sér að kjósa neitt til vinstri. Í síðustu borgarstjórnarkosningum þegar hún var komin vel á tíræðisaldurinn taldi ég mig eiga möguleika þar sem hún hafði hneykslast á því að ekkert væri nema karlar hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég nýtti mér tækifærið og spurði hvort ekki væri nú komið að því að kjósa mig, svona upp á vinskapinn og sameiginlegu börnin okkar og barnabörnin. „Björk mín.

Ég get það ekki. Hann pabbi minn myndi snúa sér við í gröfinni ef ég myndi kjósa eitthvað annað en Sjálfstæðisflokkinn.“ Já, Ásgeir pabbi Ninnu vann fyrir Engeyinga og böndin þaðan voru óslítanleg. Já, svona eru sumir fæddir og uppaldir sem Reykvíkingar og sjálfstæðismenn – en Ninna var ekkert verri fyrir það – við þurfum svo mikið á því að halda að vera allskonar.

Björk Vilhelmsdóttir.

Jónína og Knud Kaaber voru elstu vinir mínir og Birgis á Íslandi. Þau voru æskuvinir Birgis og tóku á móti mér með opnum örmum og miklum höfðingsskap. Þau voru með eindæmum hjálpsöm, hugulsöm og skemmtileg.

Eftir að Knud féll frá var Ninna áfram trygg vinkona mín og félagi. Hún átti stóra og indæla fjölskyldu og það voru forréttindi að fá að kynnast þeim öllum.

Þegar ég flutti fyrst til Íslands árið 1969 tóku þau Knud og Ninna á móti mér. Ninna hjálpaði mér að aðlagast íslensku lífi. Hún kenndi mér að verða íslensk húsmóðir, sem var talsvert öðruvísi en að vera dönsk eða frönsk, sem ég þangað til hafði reynslu af. Mér fannst það skemmtilegt og spennandi. Hún kenndi mér einnig um íslenskt þjóðlíf, bæði samtímans og liðinna tíma. Fyrsta bókin sem hún lánaði mér hét „Sendibréf frá íslenzkum konum“. Það var stórkostleg bók sem lýsti kvennalífi og þönkum á nítjándu öld. Hún vakti áhuga hjá mér á sögu og bókmenntum landsins.

Ninna var alltaf sjálfsagður þátttakandi í öllum fjölskylduviðburðum og boðum. Hún var hluti af fjölskyldunni. Núna þegar Ninna er ekki lengur hjá okkur hugsa ég til hennar með söknuði, ást og þakklæti.

Gunilla Möller og synir.

Ég gleymi því ekki hvað þið afi glöddust fyrir mína hönd þegar ég fékk pláss á skóladagheimili. Nú þyrfti ég ekki lengur að þvælast um með ömmu alla daga eftir skóla. En ég varð svo leið að ég fór að gráta. Afa varð svo mikið um að hann spratt upp og náði í 500-kall til að gleðja mig. 500-kallinn notaði ég svo seinna til að kaupa gula rós handa ykkur því ég hafði bitið það í mig að það væru uppáhaldsrósirnar ykkar.

Það var gaman að þvælast með þér á hverjum degi, fá afa og stundum fleiri úr fjölskyldunni heim í hádeginu í brauð og súpu, heimsækja Fríðu og Petu, ganga hitaveitustokkinn saman og gleðjast saman á vorin þegar við sáum fyrstu fíflana. Þegar ég byrjaði á skóladagheimilinu fór ég að heimsækja ykkur á kvöldin. Fékk að hlaupa yfir götuna þegar ég var búin að læra heima. Það var svo gott að fá að vera litla Lu-ið ykkar, sitja hjá ykkur og spjalla, spauga og hlæja, eða horfa á sjónvarpið. Þegar ég svo kvaddi minntirðu mig alltaf á að passa mig á bílunum, fuglunum og dónunum, fylgdist svo með mér úr glugganum hlaupa yfir götuna og vinkaðir mér áður en ég fór inn.

Þegar ég varð eldri og við fluttum í Grafarvoginn kom ég svo oft til þín að ég fékk lykil að íbúðinni þinni svo ég gæti komist inn ef þú værir ekki heima. Ég heimsótti þig oft og fékk stundum að gista. Þegar ég flutti út skrifuðumst við á og ég sendi þér fyrsta vorfífilinn frá Róm.

Þegar ég eignaðist börn og var föst heima á kvöldin hringdumst við á og töluðum tímunum saman um allt milli himins og jarðar. Þú sagðir mér frá uppvaxtarárunum þínum, Skólavörðustígnum og fólkinu sem bjó þar, móanum þar sem þú lékst þér en nú stendur Hallgrímskirkja, stóra speglinum í herbergi ykkar systra sem vinkonur ykkar fengu að spegla sig í áður en þær fóru út á lífið, afa, fjölskyldunni, vinunum, Halldóri Laxness, öllu því einkennilega sem kom fyrir þig; allt þetta ræddum við og svo miklu, miklu fleira. Dætur mínar urðu, eins og ég, miklar vinkonur þínar og Eva Björk fékk stundum að fara ein til þín í heimsókn, eins og ég hafði gert á hennar aldri.

Alltaf varstu til staðar skilyrðislaust, þú hafðir alltaf tíma og alltaf varstu glöð að heyra í mér og sjá okkur. Þú varst frábær amma og besta vinkona sem hugsast getur. Það er sárt að missa þig og ég mun alltaf sakna þín.

Þitt H-Lu,

Inga Sveinsdóttir.

Ammí var eitt af nöfnunum sem ég notaði á Ninnu ömmu mína. Hún og afi áttu mikið í uppeldi mínu. Í æsku var ég með annan fótinn á heimili þeirra og fyrstu tvö árin var ég í dagvistun hjá Ammí. Hún sagði mér oft frá því þegar ég sagði fyrsta orðið þar sem hún gekk með mig í vagni á Skólavörðuholtinu. Þá benti ég á Hallgrímskirkjuturn og sagði „klukka“. Hún hafði einstakt lag á að segja frá og lýsti því þannig þegar ég var fimm ára með fótinn í gifsi að hún hefði gengið um með mig á mjöðminni eins og síamstvíbura. Það var líka svakalega gaman að heyra hana segja frá ungdæmi sínu. Hún var eins og heilt sagnfræðirit og mundi allt eins og það hefði gerst í gær.

Ammí hefur alltaf verið einn af mínum traustu klettum í tilverunni og alltaf var jafn gott að koma til hennar og tala við hana í símann. Ég fékk að heyra það ef of margir dagar liðu frá því að hún heyrði í mér. Ammí var miklu meira en amma mín. Hún var líka mamma og traustasta vinkona sem ég gat leitað til með það sem á hjartanu hvíldi.

Ammí hélt við þeirri venju langömmu á Skólavörðustígnum að halda kaffiboð á hverjum sunnudegi. Það er því henni að þakka hvað við fjölskyldan erum náin og mun ég ævinlega vera þakklát fyrir þá gjöf. Já, Ammí skilur eftir sig stórt skarð í tilverunni og hennar er sárt saknað. Mér finnst viðeigandi að kveðja hana með broti úr einu af uppáhaldsljóðum mínum, eftir vin þeirra ömmu og afa, Jónas Árnason:

Hver gengur þarna eftir Austurstræti

og ilmar eins og vorsins blóm,

með djarfan svip og ögn af yfirlæti,

á ótrúlega rauðum skóm?

Ó, það er stúlka engum öðrum lík,

það er hún Fröken Reykjavík,

sem gengur þarna eftir Austurstræti

á ótrúlega rauðum skóm.

Og því er eins og hafi vaxið

vorsins blóm á stræti.

Gerður.

Hún amma okkar átti óskaplega marga ættingja og afkomendur og þar á meðal má telja 13 barnabörn – auk tveggja á ská, 13 langömmubarna og eins

langalangömmubarns. Við sem vorum svo heppin að mega kalla Jónínu Sigrúnu ömmu okkar nutum þeirrar gæfu að vera ávallt velkomin á heimili hennar – heimili þar sem aldrei var nóg af gestum, allir máttu dvelja eins lengi og þeim þóknaðist og ávallt var nóg að borða.

Á hverjum virkum degi áratugum saman sauð amma bestu súpur Stór-

Reykjavíkursvæðisins. Hún jós súpu í skálar, hellti kóki í glös, lagði brauð á borð og bað hverja þá sem litu við í hádeginu að gjöra svo vel. Sum okkar fengu oft hádegismat hjá ömmu á menntaskólaárunum og enn önnur voru tíðir gestir á háskólaárunum. Enn önnur ráku inn nefið í hádegismatnum frá vinnunni. Öðrum þótti gott að líta inn í hádeginu í fæðingarorlofi, monta sig af nýjasta meðlimi fjölskyldunnar og njóta þess að geta farið í heimsókn á tíma þegar langflestir eru að heiman og taka ekki á móti gestum.

Amma bauð fólk velkomið á hvaða tíma sólarhringsins sem var en aðalheimsóknartíminn var á vikulegum kaffiboðum fjölskyldunnar á

sunnudögum, sem var hefð sem amma fékk í arf frá móður sinni. Við komum saman á félagsheimili fjölskyldunnar í Hæðargarði; börn, barnabörn, barnabarnabörn og makar auk annarra fylgifiska og spjölluðum saman og kynnumst hvert öðru. Það var ef til vill ekki síst í þessum kaffiboðum sem við ömmubörnin kynntumst og lærðum að meta hvert annað. Yfir vel skornum vínarbrauðum og kremkexi treystum við böndin og nú hefur verið ákveðið að bizinn, en svo kölluðust kaffiboðin, fái framhaldslíf meðal frænkna sem ætla að skiptast á að hræra í túnfisksalat og steikja pönnsur.

Amma hafði mikinn áhuga á fjölskyldu sinni og ekki minni áhuga hafði hún á bókum, en hún var mikill lestrarhestur alla ævi. Hún hafði gaman af að tala um bækur og lánaði fús ættingjum sínum bækur, þó síst Laxnessbækur nema sérstaklega stæði til. Lestrarofsinn smitaðist frá ömmu til barna hennar og þaðan til nokkurra barnabarna, auk þess sem tengdabörnin lesa sum hver mikið. Á sunnudögum var oft rætt fram og aftur um bækur og stór skenkur í stofunni fékk heitið „bókaskiptiskenkur“. Á hann voru lagðar bækur sem ýmist var verið að skila eða lána og um þær spunnust oft fjörugar umræður. Það var einkum kvenleggurinn sem lagði sig eftir áköfum lestri og þrjár konur í barnabarnahópnum gengu svo langt að stofna heilan klúbb utan um lestur sinn og það er félagsskapur sem amma kunni sannarlega að meta enda fól hann í sér tvennt það sem amma hafði hvað mestar mætur á: Ættingja hennar sjálfrar og bækur.

Amma var, svo ekki sé um villst, helsta sameiningarafl fjölskyldunnar og heimili hennar óhjákvæmilegur miðpunktur fjölskyldunnar. Líkast til er lexían um mikilvægi þess að hlúa að ættingjum sínum og sinna þeim dýrmætasta lexían sem hún kenndi okkur öllum. Það er bæði með þakklæti og hlýhug sem við minnumst hennar og þess tíma sem við fengum með henni.

Guðný Pálsdóttir, Helga Birgisdóttir og Ingibjörg Ásgeirsdóttir.