Sigurður J. Svavarsson fæddist 5. febrúar 1933. Hann lést 8. janúar 2016.

Útför hans fór fram 19. janúar 2016.

Þegar leiðir okkar Sigurðar lágu fyrst saman vorum við báðir á barnsaldri. Foreldrar okkar áttu þá heima á Laugavegi 72. Deildu foreldrar mínir og móðir Sigurðar, Magdalena, eða Malla eins og hún var alltaf nefnd af ættingjum og vinum, efri hæð hússins með foreldrum mínum.

Við Sigurður lékum okkur saman sem börn auk þess sem leiðir okkar hafa legið saman í starfi hjá Rafmagnsveitunni sálugu í tugi ára. Sigurður var mikill félagsmálamaður og var virkur í félagsstarfi Rafmagnsveitunnar frá upphafi. En einn er sá félagsskapur sem hann hefur helgað lengstan tíma en það er Knattspyrnufélagið Fram sem hann starfaði mikið fyrir og átti hug hans allan. Sigurður hafði starfað hjá RR í hálfa öld þegar hann hætti störfum 2003. En þar hefur hann gegnt ýmsum störfum, m.a. unnið við jarðlínutengingar í fjölda ára og í spennistöðvardeild þar sem við Sigurður áttum gott samstarf saman. En lengst af starfaði hann við tímamælingar sem fóru eftir kaupaukakerfinu. Það kerfi var lagt til grundvallar við gerð kostnaðaráætlana vegna framkvæmda. Hann var fyrsti starfsmaðurinn sem byrjaði að starfa við það þegar Rafveitan tók það upp.

Sigurður hóf störf í dreifistöðvardeild 1960 en Árni Magnússon var þá verkstjóri okkar þar. Vinnan í dreifistöðvunum gat verið margvísleg, t.d. spennistöðvarhúsin sem voru flutt inn eftir seinni heimsstyrjöldina voru úr járni og því ryðsækin og erfið í viðhaldi. Seinna voru hönnuð tilbúin hús sem hýstu rafbúnaðinn. Það breytti miklu þegar við fengum verksmiðjusmíðaðan rafbúnað frá Rafha og seinna Ólafi Tryggvasyni þegar hann kom inn í samkeppnina.

Sigurður byrjaði snemma að vinna í félagsmálum starfsmanna og var einn af stofnendum félags starfsmanna við Barónsstíg og var ritari í nokkur ár frá 1958-1962 í stjórn og formaður um árabil. Eins og áður hefur komið fram var Sigurður mjög virkur í félagsstarfi Fram og spilaði með því á yngri árum. Einnig lék hann nokkra leiki í Meistaraflokki. Þá var hann 10 ár í stjórn Knattspyrnudeildarinnar. Einnig var hann ritari aðalstjórnar og eitt sinn var hann framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar í 9 mánuði og fékk þá frí frá störfum sínum hjá RR. Gaman er einnig að geta þess að Sigurður var gerður að heiðursfélaga Fram á 100 ára afmæli félagsins. Sigurður var einnig ásamt samstarfsfélaga sínum, Halldóri B. Jónssyni, sæmdur gullmerki Knattspyrnusambands KSÍ. Starfskraftar Sigurðar nýttust vel bæði hjá RR og hjá Fram sem hefur átt hug hans allan þegar starfstíma og fjölskyldunni sleppir.

Víst er að vinnustaður okkar Rafveitumanna hefði orðið fátækari ef Sigurður hefði ekki hresst upp á grámyglulegan hversdagsleikann með glaðværð sinni og skapað góðan anda á vinnustaðnum.

Sigurði þakka ég áratuga kynni og sendi Katrínu Lovísu, Ingibjörgu, Einari, Gróu og allri fjölskyldunni hlýjar samúðarkveðjur. Megi minning um góðan dreng lifa um ókomna tíð.

Guðmundur K. Egilsson.