Dómsmál á Íslandi fara að meginstefnu til fram á tveimur dómstigum. Dómsmál byrja fyrir héraðsdómi en þeir eru átta talsins og skiptast eftir landsvæðum.

Dómsmál á Íslandi fara að meginstefnu til fram á tveimur dómstigum. Dómsmál byrja fyrir héraðsdómi en þeir eru átta talsins og skiptast eftir landsvæðum. Að fenginni niðurstöðu héraðsdóms er unnt að skjóta henni til Hæstaréttar sem tekur til alls landsins. Skilyrði fyrir málskoti eru ekki ströng og lúta einkum að hagsmunum málsins. Í flestum öðrum ríkjum Evrópu er dómstólaskipan þannig að dómstigin eru þrjú en ekki tvö eins og hér á landi. Um langa hríð hefur verið uppi hávær umræða um að breyta skipun dómsvaldsins hér á landi með því að setja á fót dómstig á milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Rökin fyrir því eru margvísleg og hefur m.a. verið nefnt í því sambandi að gefa þurfi færi á að munnleg sönnunarfærsla fari fram á fleiri en einu dómstigi. Ennfremur að fækka þurfi verulega málum fyrir Hæstarétti þannig að hann geti sinnt hlutverki sínu betur við að kveða upp dóma í málum sem hafa þýðingarmikil fordæmisáhrif.

Innanríkisráðherra hefur nú birt á heimasíðu ráðuneytisins drög að frumvörpum til að leiða í lög nýja skipan með tilkomu millidómstigs. Enginn vafi er á að um þarfa breytingu er að ræða. Nægir í því sambandi að vísa til áðurnefndra raka. Þá má nefna að flest ef ekki öll fagfélög þeirra, sem koma hvað mest að dómstólarekstri, hafa mælt eindregið með og raunar kallað eftir breytingum í þessa veru. Er hér um að ræða Dómarafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Saksóknarafélag Íslands og Lögfræðingafélag Íslands. Hér verður gefið stutt yfirlit um hvað kemur til með að breytast ef frumvörpsdrögin hljóta brautargengi á Alþingi og er í þeirri umfjöllun miðað við einkamál.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum munu öll mál hefjast fyrir héraðsdómi eins og verið hefur. Á því dómstigi yrði því sem endranær lagður nauðsynlegur grundvöllur að hverju máli, sem síðan er unnt að leita endurskoðunar á. Slík endurskoðun getur farið fram með þremur leiðum.

Í fyrsta lagi verður unnt að skjóta dómum héraðsdóms til Landsréttar sem er áfrýjunardómstóll og nær yfir allt landið. Málskoti úr héraði til Landsréttar verða settar sambærilegar skorður og nú eru við áfrýjun til Hæstaréttar, þ.e. að hagsmunir máls nái tiltekinni fjárhæð, sem er ein milljón króna samkvæmt fyrirliggjandi drögum. Ef af verður mun því Landsréttur að meginstefnu til taka við því hlutverki sem Hæstiréttur hefur haft hingað til, að endurskoða dóma héraðsdóms við málskot. Málsmeðferð fyrir Landsrétti verður þó ólík því sem verið hefur í Hæstarétti því m.a. er gert ráð fyrir því að munnleg sönnunarfærsla geti farið fram fyrir Landsrétti, þó fyrirsjáanlega verði það ekki í öllum tilvikum. Fleiri breytingar eru lagðar til á þeirri málsmeðferð sem ekki er rúm til að víkja að nánar hér.

Í öðru lagi felst í frumvarpinu sú breyting að mál geti farið á þrjú dómstig sem ekki hefur verið möguleiki hér á landi undangengin 96 ár. Þannig verði aðilum dómsmáls gert kleift að skjóta dómum Landsréttar til Hæstaréttar að fengnu leyfi Hæstaréttar. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis eru þó ströng eða að „úrslit máls hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis“ eins og það er orðað í frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir. Ennfremur getur áfrýjun verið tæk ef ætla má að málsmeðferð annarra dómstóla hafi verið „stórlega ábótavant“ eða ætla megi að dómur Landsréttar sé „bersýnilega rangur að formi eða efni“. Málsmeðferð á þremur dómstigum hefur fyrirsjáanlega í för með sér að málsmeðferðartími eykst frá því sem nú er þegar mál geta að hámarki farið á tvö dómstig. Til að mæta þessu er gert ráð fyrir því í nefndum frumvarpsdrögum að frestir verði styttir, t.d. verði áfrýjunarfrestur fjórar vikur í stað þriggja mánaða eins og nú er í einkamálum.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að í stað þess að málum sé skotið úr héraði til Landsréttar, eins og almenna reglan yrði, og fari eftir atvikum þaðan til Hæstaréttar, fari mál beint frá héraðsdómi til Hæstaréttar. Skilyrði fyrir þeirri málsmeðferð yrðu þó enn strangari en málskot frá Landsrétti til Hæstaréttar því gert er ráð fyrir því að sýna þurfi fram á að þörf sé á skjótri niðurstöðu Hæstaréttar og að niðurstaða geti verið fordæmisgefandi, haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna eða verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Fyrirfram verður að búast við því að þessari leið verði beitt í mjög fáum málum.

Í hönd fer nú vinna við að fá fram athugasemdir við þau frumvarpsdrög sem liggja fyrir og í kjölfarið að leggja frumvörpin fyrir Alþingi. Best færi á því að sú umræða verði vönduð, málefnaleg og snörp og að þær þýðingarmiklu réttarbætur sem felast í frumvarpinu hljóti afgreiðslu að henni lokinni.