Viðtal
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
Lífið brosir við knattspyrnumanninum Aroni Sigurðarsyni þessa dagana. Eftir gott tímabil með Fjölni í fyrra er hann nú á barmi þess að hefja atvinnumannsferil, búinn að spila fyrsta A-landsleikinn og skora glæsilegt mark í þeirri frumraun, sem var gegn Bandaríkjunum í Carson á sunnudagskvöld. Norska úrvalsdeildarfélagið Tromsö hafði fengið Aron til æfinga fyrir landsleikinn og er nú komið í viðræður við Fjölni um kaup á þessum 22 ára gamla kantmanni sem hefur vakið athygli fleiri erlendra félaga. Síðustu dagar hafa sem sagt verið draumi líkastir og Aron segir að raunar hafi hann ekki einu sinni látið sig dreyma um sæti í landsliðinu áður en hann fékk því úthlutað fyrir Bandaríkjaförina:
„Þetta var ekkert sem ég hafði verið að velta mér upp úr eða gera mér vonir um. Þegar ég fékk „kallið“ var ég því bara mjög feginn, stoltur og ánægður,“ sagði Aron við Morgunblaðið í gær.
„Ég var í kuldanum í Tromsö þegar ég fékk að vita af landsliðsvalinu. Það voru einhverjar -15 gráður þarna þannig að þegar það var hringt og sagt að ég væri á leið til LA með landsliðinu þá var það nú mjög gaman,“ sagði Aron léttur. Hann kom við á Íslandi í þrjá daga áður en hann var farinn af stað til Bandaríkjanna með nýjum liðsfélögum í landsliðinu, þar á meðal sjálfum Eiði Smára Guðjohnsen. Bandaríkjaferðin gekk eins og í sögu hjá Fjölnismanninum.
Naut þess að spila með Eiði
„Við tókum tvær æfingar þarna og svo fékk ég að vita af byrjunarliðssætinu á fundi kvöldið fyrir leik. Ég varð auðvitað mjög spenntur. Þetta var stór völlur og mjög gaman að spila þarna með þessum körlum, ekki síst Eiði sem er auðvitað algjör goðsögn. Það var mjög gaman og hann átti líka stoðsendinguna í markinu hjá mér. Ég er auðvitað ennþá að spila á Íslandi og hélt að ég væri ekkert að fara að spila landsleik á næstunni, en þetta gerðist allt mjög hratt og var bara eins og draumur,“ sagði Aron. Markið sem hann skoraði, eftir afar lipra takta, var með glæsilegu skoti í hægra markhornið. Tilburðirnir voru allir í takti við það sem Aron sýndi á tíðum síðasta sumar í Pepsi-deildinni.„Gulli [Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður] sagði við mig að ef ég hefði verið að spila á Íslandi hefðu allir vitað hvert ég myndi skjóta og að hann hefði varið þetta,“ sagði Aron léttur. „Þessir gæjar vissu hins vegar ekkert um mig og hvar þeir ættu að loka á mig. En það var mjög ljúft að sjá boltann inni og ég hefði líka viljað sjá boltann inni þegar ég átti skot rétt yfir samskeytin,“ bætti Aron við. En dreymir hann um að komast í landsliðshópinn sem fer á Evrópumótið í Frakklandi í sumar?
„Ég er ekkert að velta mér upp úr EM. Það þarf mjög margt að ganga upp hjá mér, ég þarf að koma mér út, fara að spila í stærri deild og standa mig mjög vel þar. Þetta var bara fín byrjun hjá mér og ef ég fæ einhverja fleiri sénsa þá reyni ég bara að standa mig. Heimir sagði við mig að ég hefði nýtt tækifærið vel núna og ég vona að þeir séu ánægðir með mig. En ég er ekkert að hugsa um EM,“ sagði Aron.
Væri til í að taka skrefið núna
Eins og fyrr segir eru viðræður hafnar á milli Tromsö og Fjölnis og því gæti vel farið svo að Aron leiki í Noregi á komandi leiktíð:„Ég er ennþá samningsbundinn Fjölni. Það er einhver áhugi hjá Tromsö en þetta kemur allt í ljós á næstu dögum. Markmiðið mitt er að komast út þannig að ég væri til í að reyna að taka það skref núna,“ sagði Aron, sem missir þá af því að mæta Þrótti R. í efstu deild, en það félag stendur honum mjög nærri. Sigurður Hallvarðsson, faðir Arons, var mikil goðsögn hjá Þrótti og er einn af markahæstu leikmönnum í sögu félagsins og hjá Þrótti hóf Aron að sparka í bolta.
Vildi óska að hann væri hér til að sjá þetta
„Ég var reyndar orðinn mjög spenntur fyrir því að mæta Þrótti. En við mættum þeim í Reykjavíkurmótinu um daginn og unnum 8:1, svo það var ágætt. Pabbi tók mig á æfingar með Þrótti þegar ég var 5 ára og ég æfði þar þangað til ég var 8 ára og fór í Fjölni,“ sagði Aron, sem missti föður sinn í júlí árið 2014, eftir að Sigurður hafði glímt við krabbamein í tæp 10 ár. Sigurður studdi rækilega við bakið á syni sínum í fótboltanum og á sinn þátt í því hvar Aron er staddur í dag:„Ég vildi óska þess að hann væri hérna til þess að sjá þetta allt. Hann hjálpaði mér gríðarlega mikið með minn feril og hann hefði verið stoltur og montað sig af mér eftir þennan landsleik. Þeir borðuðu oft saman karlarnir í Þrótti og þegar ég var til dæmis valinn í lið umferðarinnar í 1. deild einhvern tímann þá tók hann mig með sér til að monta sig af mér við félaga sína. Það væri örugglega það sama uppi á teningnum núna.“