Mörgum þykir heitið Samfylking stórt orð yfir fámennið sem það tekur nú orðið til.

Mörgum þykir heitið Samfylking stórt orð yfir fámennið sem það tekur nú orðið til. Styrmir Gunnarsson hefur heyrt að einhverjir á þeim bæ séu að rumska:

Það er að komast hreyfing á grasrótina í Samfylkingunni vegna stöðu flokksins í skoðanakönnunum og þarf engum að koma á óvart.

Líklegt má telja miðað við viðbrögð Árna Páls að til úrslita dragi fyrr en síðar. Lykilatriði málsins er ekki hvaða einstaklingar gefa hugsanlega kost á sér til formennsku heldur þetta:

Mun einhver af hugsanlegum formannsefnum setja fram trúverðugar hugmyndir um endurnýjun á stefnumálum Samfylkingarinnar, sem gætu leitt til þess að flokkurinn nái sér á strik? Það er kjarni málsins og eftir því verður tekið hvort svo verði.“

En Styrmir nefnir ekki fordæmi sem nota mætti í krísunni og er það sótt í einkareksturinn. Þegar einingar verða gjaldþrota er skiptastjóri kallaður til. Að Samfylkingunni, sem nú hefur um 9% fylgi, stóðu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Kvennalisti og Þjóðvaki.

Þrír fyrst nefndu flokkarnir höfðu hver um sig meira fylgi en Samfylkingin nú. Eftir skiptameðferð á Samfylkingu fengi hver stofnaðili 2,3% fylgi í sinn hlut.

Það væri mjög dapurleg ávöxtun fylgis fyrir stóru flokkana þrjá, en Þjóðvaki, sem var að hverfa þegar hann flaut með, má vel við una.