Selfoss Býsna djúpt er borað og jarðvegurinn og vatnið þannig kannað.
Selfoss Býsna djúpt er borað og jarðvegurinn og vatnið þannig kannað. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Á Selfossi eru þessa dagana boraðar tilraunaholur vegna heitavatnsöflunar og með skáborun í einu tilvikinu er hitastigull í bergi undir Ölfusá mældur.

Á Selfossi eru þessa dagana boraðar tilraunaholur vegna heitavatnsöflunar og með skáborun í einu tilvikinu er hitastigull í bergi undir Ölfusá mældur. Bormenn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða eru með tæki sín við götuna Miðtún, sem er á vesturbakka árinnar. Blasir virkjunarsvæðið við vegfarendum á vinstri hönd skammt frá Ölfusárbrú þegar ekið er inn í Selfossbæ úr vestri. Nú er verið að bora þriðju holuna af væntanlega fjórum en þær eru 60 til 200 metra djúpar.

„Þegar borverki lýkur verða holurnar hita-, stefnu- og hallamældar og í framhaldinu niðurstöður mælinga teknar saman. Því er of snemmt að segja til um hvort svæðið henti til vinnslu,“ sagði Jón Tryggvi Guðmundsson, forstöðumaður framkvæmda- og veitusviðs sveitarfélagsins Árborgar, í samtali við Morgunblaðið. Til þessa hefur heitt vatn frá jarðhitasvæðunum við Laugardæli og Stóra-Ármót í Flóa dugað fyrir Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyri og byggðir þar í hring.

Innviði þarf að styrkja

Með íbúafjölgun í Árborg eykst þörfin fyrir heitt vatn og ráðstafanir í því skyni þykja nauðsyn. „Íbúar í Árborg eru nú rúmlega 8.200 og hefur fjölgað um að meðaltali 2% undanfarin ár. Það kallar á styrkari innviði,“ segir Jón Tryggvi.

Hann reiknar með að fleiri svæði við Selfoss verði könnuð á næstunni með jarðhitaöflun í huga. Ákvörðun um virkjun og vatnsöflun verði svo tekin þegar niðurstöður mælinga og útreikningar á afkastagetu og öðru slíku liggja fyrir.

sbs@mbl.is