Guðlaug Kristjánsdóttir fæddist á Skaftárdal á Síðu 4. febrúar 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu á Seyðisfirði 25. janúar 2016. Foreldrar hennar voru Kristján Pálsson og Þorbjörg Jónsdóttir. Systkini Guðlaugar eru Páll, lést ungur, Björg Jónína, Hildur, Böðvar, Oddsteinn, Jón og Oddný Sigríður.

Sumarið 1960 giftist Guðlaug Sigurði Breiðfjörð Þorsteinssyni, f. 31. mars 1927, d. 2. mars 1974. Foreldrar hans voru Kristín Þorleifsdóttir og Þorsteinn Jakobsson Elíasson. Börn Guðlaugar og Sigurðar eru: 1) Kristján Þór, maki Sigrún Jónsdóttir. 2) Kristín Guðveig, maki Cecil Haraldsson. 3) Anna Breiðfjörð, maki Erlendur Bogason. 4) Þorsteinn, maki Kristjana Bjarnadóttir. 5) Þorbjörg. Barnabörnin eru átta og barnabarnabörnin eru fjögur.

Útför Guðlaugar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 4. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 11.

Hún mamma kvaddi þennan heim mánudaginn 25. janúar á hjúkrunardeild HSA á Seyðisfirði, þar sem hún bjó frá árinu 2009. Mamma var bæði andlega og líkamlega hress þrátt fyrir háan aldur og fyrri áföll. Hún las mikið og við systurnar höfðum ekki við að bera í hana bækurnar af bókasöfnum. Síðast þegar ég skilaði bókum fyrir hana sagði bókasafnsvörðurinn við mig að hún þyrfti að fara að panta fleiri bækur á safnið þar sem mamma væri búin að lesa nær allar þær bækur sem hún ætti þar.

Mamma var dugnaðarforkur og alger prjónamaskína, langt fram á elliárin. Heppnir lopapeysueigendur um allan heim og sérstaklega Norður-Ameríku áttu og eiga jafnvel ennþá peysur eftir hana. Eitt sinn komu tveir menn frá Bandaríkjunum til landsins í heimsókn til okkar hjóna rétt fyrir jól og vildu endilega kaupa svona tíu peysur til að eiga og gefa. Mamma fékk Sigurbjörgu vinkonu sína með sér í verkið sem þær skiluðu á mettíma rétt áður en þeir þurftu að yfirgefa landið. Þegar þeir komu heim til hennar að ná í peysurnar horfðu þeir aðdáunaraugum á þennan prjónaguð.

Mamma reykti pípu og mörgum þótti það skrítið að kona reykti pípu. Einu sinni fór ég með hana og annan heimilismann á hjúkrunardeildinni á Seyðisfirði út í garð að sumri til. Mamma kveikti sér að sjálfsögðu í pípunni en þá hló maðurinn innilega þar sem hann hafði aldrei séð konu reykja pípu. Þetta voru svo sem ekki ókunnug viðbrögð því við fjölskyldan erum alvön því að útskýra þetta með „mömmu og pípuna“ fyrir fólki.

Ég kom oft austur og dró þá mömmu eins oft og ég gat á rúntinn. Mamma elskaði að fá sér pylsu og því var farið í sjoppuna á Seyðisfirði og keypt pylsa og hún borðuð af bestu lyst. Mamma fylgdist vel með og hafði til dæmis mikinn áhuga á bæði fótbolta og handbolta en einnig lét hún sig þjóðmálin miklu varða alveg fram á síðasta dag. Það má nú segja að hún hafi ekki alltaf verið ánægð með stjórn þessa lands okkar.

Elsku mamma, þú fékkst nú ekki alveg auðveldasta barnahópinn og sast ein uppi með okkur fimm, ekkja rétt rúmlega fimmtug. Ég held að það hafi ræst ágætlega úr hópnum og við vonandi bætt þér upp bernskubrekin á okkar fullorðinsárum. Bestu þakkir fyrir samveruna í þessu lífi, elsku mamma, og njóttu þess nú að dansa loksins aftur við hann pabba þar sem þið eruð núna.

Ykkar dóttir,

Anna.