Valgerður Þ. Jónsdóttir
vjon@mbl.is
Enn á ný tekur Þorkell Þorkelsson ljósmyndari stefnuna á Suðaustur-Asíu í samstarfi við Ferðaskrifstofuna Óríental. Og enn á ný með hóp ljósmyndara og/eða kvikmyndatökumanna, jafnt atvinnumanna sem áhugamanna. „Þriðja ferðin í þessari „seríu“ með svipuðu fyrirkomulagi og sömu markmiðum,“ útskýrir hann og skírskotar til tveggja fyrri ljósmyndaleiðangra, annars vegar um Kambódíu og Víetnam í hittifyrra og hins vegar Indónesíu og eyjarnar Balí og Lombok í fyrra.
„Við fljúgum 20. mars til Laos í gegnum Taíland og vindum okkur strax í nokkurra daga siglingu á Mekong, sem er eitt stærsta fljót heims og lífæð Suðaustur-Asíu, og endum í Luang Prabang í Laos. Við fáum því gott tækifæri til að mynda andstæðurnar; fábrotið og frumstætt líf sveitafólksins og svo mannlífið og menninguna í stórborginni áður en við pökkum græjunum saman og höldum heim 2. apríl.“
Virðing við menn og umhverfi
Þorkell býst við að sex til sjö manns sláist með honum í för og segir nokkra þegar hafa skráð sig til leiks. „Ferðalagið snýst fyrst og fremst um að kynnast landi og þjóð frá öðrum sjónarhóli en í hefðbundnum túristaferðum – komast að kjarna samfélagsins ef svo má segja. Og auðvitað að ná góðum ljósmyndum, grípa tækifærið þegar það gefst,“ segir Þorkell og nefnir brúðkaup á Balí sem tækifæri sem rak á fjörur hópsins í síðustu ferð.
„Á ferðalagi þar sem aðstæður eru víða frumstæðar eru gerðar miklar kröfur til þátttakenda. Ekki endilega að þeir séu færir ljósmyndarar heldur að þeir taki þátt af heilum hug, séu sveigjanlegir og víli ekki fyrir sér að vakna eldsnemma á morgnana eða jafnvel um miðjar nætur ef myndefnið býður ekki upp á annað. Leiðarstefið er að vinna af virðingu við menn og umhverfi.“
Vanur maður
Þorkell kveðst alltaf vera reiðubúinn að miðla af reynslu sinni, gefa góð ráð og þvíumlíkt, en ekki sé um eiginlega kennslu að ræða af sinni hálfu. „Margir í hópunum hafa mikla reynslu í ljósmyndun og eru mjög dýnamískir. Þeir leggja í ferðalagið sér til gamans og á eigin forsendum. Við lærum hver af öðrum; ég læri af þeim rétt eins og þeir læra af mér. Hver ferð er dýrmæt menntun fyrir hvern og einn,“ segir Þorkell, sem vegna reynslu sinnar er þó tvímælalaust í fararbroddi hópsins. Enda hefur hann í hartnær aldarfjórðung ferðast um fjarlæg lönd og ljósmyndað fólk og fyrirbæri við alls konar aðstæður, góðar sem slæmar. Hann hefur farið á eigin vegum og fyrir alþjóðlegar stofnanir á borð við Rauða krossinn um Mið-Austurlönd, Asíu, Afríku, Rússland og fleiri staði sem margir hverjir eru utan alfaraleiðar.„Hugmyndin að ljósmyndaleiðöngrunum kviknaði fyrir fimm eða sex árum í spjalli okkar Viktors Sveinssonar, eiganda Ferðaskrifstofunnar Óríental. Hann hafði þá um nokkurt skeið skipulagt ferðir til Asíu, en hafði mikinn áhuga á að sýna viðskiptavinum sínum þennan heimshluta í öðru ljósi. Við veltum hugmyndinni síðan á milli okkar áður en við sameinuðum krafta okkar og létum til skarar skríða vorið 2014.“
Viskubrunnur Viktors
Þótt Þorkell sé prýðilega kunnugur þar syðra finnst honum gott að geta leitað í viskubrunn Viktors, sem þekkir Suðaustur-Asíu eins og lófann á sér og sömuleiðis þekki hann vel til heimamanna, hugsunarháttar þeirra og siða.„Ferðalagið er í stórum dráttum skipulagt fyrirfram, en ég áskil mér þó rétt til að breyta áætlun fyrirvaralaust ef ég finn áhugaverða staði og mannlíf. Það er mikilvægt að fara vel að innfæddum og ljósmynda þá og umhverfi þeirra í sátt og samlyndi,“ segir Þorkell. Að sama skapi segir hann mikilvægt að hópurinn sé samstiga og sveigjanlegur. „Fýla og hvers kyns leiðindi eru harðlega bönnuð. Ég lít framhjá því þótt fjúki í menn einstöku sinnum og sömuleiðis ef menn fara í stutta fýlu, þeir hafa hálftíma til að hrista hana af sér,“ segir Þorkell og bætir við að þessar einföldu reglur hafi fram til þessa gefið góða raun.