Bókin Að gera hlutina eins og allir aðrir og fylgja hefðunum –þannig haga flestir lífi sínu og starfi. Enda fylgir því ákveðið öryggi og fyrirsjáanleiki að synda með straumnum.

Bókin Að gera hlutina eins og allir aðrir og fylgja hefðunum –þannig haga flestir lífi sínu og starfi. Enda fylgir því ákveðið öryggi og fyrirsjáanleiki að synda með straumnum. En þeir sem skara fram úr, móta heiminn, og raka til sín seðlunum eru þeir sem bæði þora og kunna að vera frumlegir.

Adam Grant hefur gefið út bók um frumlega fólkið, en áður hefur Grant sent frá sér metsölubókina Give and Take, sem meðal annars lenti á langlista Financial Times yfir bestu bækur ársins 2013.

Nýja bókin heitir Originals: How Non-Conformists Move the World .

Hér kafar Grant ofan í það hvernig frumlegt fólk starfar og hugsar, og hvernig við getum öll lagt rækt við okkar innri frumlega snilling.

Grant hefur rannsakað efnið vel og kryddar bókina með sögum úr ýmsum áttum. Eitt af því sem kemur hvað mest á óvart er sú uppgötvun að frumlega fólkið er ekki endilega eins og staðalmyndin lætur okkur halda; ungt og óstöðvandi fólk sem dælir út góðum hugmyndum í löngum bunum. Þvert á móti eru margir þeir sem koma fram með bestu frumlegu hugmyndirnar fólk sem hefur farið sér hægt, og þreifar fyrir sér á markvissan hátt, prufar í smáum skrefum hvar mörkin liggja og hvar má brjóta reglurnar, þar til að stóra stundin rennur upp og tímamótahugmynd fæðist.

Höfundurinn skoðar líka hvernig foreldrar geta ræktað eða bælt frumleikann í börnunum sínum. Oft eru yngri börnin frakkari og djarfari en þau eldri, en með því að beita réttum uppeldisaðferðum segir Grant hægt að búa til, strax í fyrstu tilraun, krakka sem hefur rétta innrætið til að þora að hugsa út fyrir rammann. ai@mbl.is