Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Umsvif fyrirtækisins Arctic Trucks International hafa aukist mikið síðustu misseri og hyggur félagið á mikla markaðssókn um heim allan.
Örn Thomsen, framkvæmdastjóri Arctic Trucks Norge, segir félagið sjá sóknarfæri í sérsniðnum breytingum á jeppum og þjónustu við eigendur fjórhjóladrifinna bifreiða.
„Arctic Trucks International er að flytja höfuðstöðvarnar frá Íslandi til Bretlands. Móðurfélagið er að fara út af því að við erum í aukinni útrás. Við þjónustum sænska viðskiptavini héðan frá Noregi og erum með sérleyfi (e. franchise) í Rússlandi, Póllandi, Finnlandi, Kasakstan og í 18 löndum í Afríku í gegnum fyrirtækið CFAO,“ segir Örn.
„Það er mismunandi eftir mörkuðum hvort við förum aðeins í breytingar, eða líka í þjónustuna. Breytingar, aukahlutasala og ásetning fer mikið saman. Við erum að styrkja okkur á heimsvísu með því að ráða til okkar nýja starfsmenn. Við þurftum fólk með reynslu af því að byggja upp félag í nýjum löndum. Náið samstarf okkar við Toyota opnar dyr á nýja markaði,“ segir Örn.
Byrjaði sem aukahlutadeild
Arctic Trucks á rætur í aukahlutadeild sem Toyota á Íslandi stofnaði árið 1990. Árið 1997 varð til nafnið Arctic Trucks í tilefni af fyrstu ferðinni á suðurskautið. Ári síðar var útibúið í Noregi stofnað af Erni Thomsen og Eiríki Tómasi Magnússyni og árið 2005 varð Arctic Trucks sjálfstætt félag. Árið 2007 opnaði Arctic Trucks skrifstofu í Riga, Lettlandi, og árið 2008 opnaði félagið útibú í Bretlandi. Árið 2010 opnaði það verkstæði í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.Örn segir Arctic Trucks Norge undirbúa að reisa nýjar höfuðstöðvar í Liertoppen, skammt frá Drammen, til að geta annað aukinni eftirspurn. Starfsmennirnir í Drammen hafa mest orðið 49, auk 16 starfsmanna sem leigðir voru frá Saab í Svíþjóð. Nú starfa um 28 manns hjá fyrirtækinu og segir Örn starfsmannafjöldann töluvert ráðast af pöntunum frá stórum kaupendum. Til marks um árangurinn nefnir Örn að Toyota-umboð í Noregi selji orðið jeppa beint til viðskiptavina með breytingum frá Arctic Trucks, sem njóta sömu ábyrgðar og aðrir bílar Toyota. Með því stækki sölunetið mikið. Um 390 aðilar selji nú breytingar eða aukahluti fyrir félagið í Noregi. „Gallinn við þetta fyrirkomulag er að við sjáum aðeins 15% viðskiptavina okkar. Kosturinn er að við erum með dreifingu um allan Noreg.“
Fleiri tegundir skapa tækifæri
Félagið hefur frá upphafi sérhæft sig í breytingum á Toyota-jeppabifreiðum. Með nýjum tegundum fær það nýja viðskiptavini.Þegar litið var inn á verkstæði Arctic Trucks Norge í Drammen í byrjun vikunnar voru þeir Örn, Haraldur Pétursson og Are Moen að ganga frá breyttum Toyota Hilux. Það lá á að ganga frá bílnum, enda var hann bókaður í kvikmyndatökur morguninn eftir. Árið 2014 var 104 jeppum breytt á verkstæðinu í Drammen. Árið 2015 hafði talan hækkað í 162 jeppa og í ár áætlar Örn að það breyti ekki færri en 184 jeppum. Á verkstæðisgólfinu er 2016 módelið af Hilux sem er kominn á 35 tomma jeppadekk. Hiluxinn kemur ekki í almenna dreifingu í Evrópu fyrr en á miðju þessu ári og segir Örn að ef ekki væri fyrir þessa bið myndi Arctic Trucks í Noregi geta breytt yfir 200 bílum í ár.
Með þykkt skothelt gler
Haraldur Pétursson er hönnunar- og þróunarstjóri hjá Arctic Trucks Norge.Hann hefur meðal annars fengist við að breyta jeppum í herbíla fyrir norska og litháíska herinn og í lögreglubíla fyrir norsku, finnsku og sænsku lögregluna. Þá sinnir hann sérstökum verkefnum.
Haraldur sýnir blaðamanni Land Cruiser-jeppa sem er verið að breyta í herbíl. Búið er að setja inn nokkurra sentimetra þykkt, skothelt gler og þarf að beita afli til að opna bílstjóradyrnar.
Aðrar breytingar á bílnum eru trúnaðarmál og eru myndatökur ekki heimilar.