Brooklyn Martin Hermannsson á fullri ferð í grannaslag með LIU Brooklyn gegn St. Francis Brooklyn. Martin segir að riðillinn sé svo jafn að mörg liðanna eigi möguleika á að komast í úrslitakeppnina í háskólakörfuboltanum.
Brooklyn Martin Hermannsson á fullri ferð í grannaslag með LIU Brooklyn gegn St. Francis Brooklyn. Martin segir að riðillinn sé svo jafn að mörg liðanna eigi möguleika á að komast í úrslitakeppnina í háskólakörfuboltanum. — Ljósmynd/karfan.is
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, virðist vera að taka út miklar framfarir í leik sínum í háskóladeildinni í Bandaríkjunum í vetur.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, virðist vera að taka út miklar framfarir í leik sínum í háskóladeildinni í Bandaríkjunum í vetur. Martin hefur tvívegis verið valinn leikmaður vikunnar í NEC-riðlinum sem lið hans LIU frá Brooklyn í New York leikur í. Ef horft er til tölfræðinnar þá lætur Martin greinilega mun meira til sín taka í leik LIU heldur en á sínu fyrsta ári í fyrra.

„Já, persónulega hefur mér gengið mjög vel. Liðið hefur verið svolítið upp og niður. Vinningshlutfallið segir ekki endilega allt um styrkleika liðsins því við áttum að vinna alla vega fimm leiki en tókst ekki. Þá er ég að tala um leiki þar sem við vorum allt að fimmtán stigum yfir í síðari hálfleik en þeir töpuðust allir. Það er klúður því við gætum auðveldlega verið efstir í riðlinum,“ sagði Martin þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans á dögunum en neitar því ekki að hann finnur mun á sér sem leikmanni á milli ára.

Átti stórleik á dögunum

„Áður en ég fór út þá höfðu margir bent mér á að það tæki eitt til tvö ár að koma sér inn í háskólaboltann. Hér er leikurinn miklu agaðari en heima, lengri sóknir og betri varnarleikur. Í raun mjög frábrugðið leikjunum heima. Þess vegna tók það mig góðan tíma að komast inn í hlutina hérna og átta mig á því hvernig best sé að spila hérna úti. Ég finn klárlega mikinn mun á mér. Með auknu trausti frá þjálfaranum fær maður meira sjálfstraust. Ég er meira með boltann í leikjum í vetur heldur en í fyrra og það skilar sér,“ útskýrði Martin en nokkuð var fjallað um frammistöðu hans í 92:85 sigurleik á móti Sacred Heart á dögunum.

Tölfræði Martins var þá býsna mögnuð en hann skoraði 22 stig, tók 8 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og náði boltanum 5 sinnum en tapaði honum aldrei. Samkvæmt netmiðlinum Karfan.is hafa einungis tveir aðrir leikmenn átt aðra eins frammistöðu í efstu deild NCAA í vetur. Annar þeirra er Ben Simmons sem talinn er líklegastur til að verða valinn fyrstur í næsta nýliðavali NBA-deildarinnar. „Mér leið mjög vel inni á vellinum í þessum leik en áttaði mig engan veginn á því að tölfræðin væri svona góð. Þegar leiknum lauk hafði ég á tilfinningunni að ég hefði getað gert betur í leiknum.“

Fær stórt hlutverk hjá LIU

Af þessari tölfræði mætti ráða að Martin væri á leið inn í NBA-deildina með sama áframhaldi. Málið er hins vegar ekki svo einfalt enda eru riðlarnir í NCAA miserfiðir. North Eastern-riðillinn sem LIU leikur í þykir ekki sérlega sterkur í samanburði við sterkustu riðlana sem eru yfirfullir af framtíðar NBA-mönnum og sterkum verðandi atvinnumönnum.

Martin er engu að síður efni í góðan atvinnumann þegar fram í sækir og næstu ár koma til með að gefa vísbendingu um hvesu langt hann getur náð. Hann hefur betri leikskilning en gengur og gerist og næmt auga fyrir sóknarleik. Kom það ágætlega í ljós á EM í Berlín þegar hann spjaraði sig vel gegn stórþjóðum þrátt fyrir ungan aldur. Auk þess vinnur hann að því að bæta varnarleikinn hjá sér sem er lykilatriði fyrir toppleikmenn.

Martin kaus að fara þá leið að velja sér háskólalið þar sem hann fékk strax að spreyta sig sem nýliði. Það hafa fleiri Íslendingar gert í háskólaboltanum en í sterkari liðum hefðu þeir kannski ekki fengið tækifæri fyrstu tvö árin.

Martin og Elvar Már Friðriksson léku saman með LIU í fyrra en Elvar söðlaði um fyrir þetta tímabil og leikur nú með Barry-skólanum. „Það var ákveðinn þægindarammi fyrir mig að vera með Elvar hérna. Heimþrá var ekki til í orðabókinni og manni leiddist aldrei utan skólans. Þetta voru forréttindi að vera með hann í næsta herbergi. Eftir að hafa komist vel inn í hlutina í fyrra þá var lítið mál að koma aftur út síðasta haust.“

Mikilvægur mánuður

Riðlarnir í efstu deild háskólaboltans spila sína úrslitakeppni og keppa um heiðurinn að vinna sinn riðil. Þá tekur við 64-liða úrslitakeppni um NCAA-meistaratitilinn sem er risastór íþróttaviðburður á alla mælikvarða og gengur undir nafninu March Madness. Þangað segir Martin LIU stefna en til þess þarf liðið þá að vinna úrslitakeppnina í sínum riðli. Í sterkustu riðlunum komast fleiri lið í March Madness en úr NEC-riðlinum. Úr ACC-riðlinum, sem Haukur Helgi Pálsson lék í einn vetur með Maryland, komast yfirleitt um 4-6 lið í March Madness svo dæmi sé tekið.

„Auðvitað vilja menn vinna alla leiki en okkur var spáð einu af þremur efstu sætunum í riðlinum en spilamennskan hefur verið undir væntingum. Við erum hægt og rólega að verða betri að mér finnst en þessi mánuður verður rosalega mikilvægur fyrir okkur ef við ætlum okkur alla leið í March Madness. Við stefnum þangað og ég sé ekki hvers vegna við ættum ekki að geta það því allir eru að vinna alla í okkar riðli. Öll lið stefna að þessu og heppnin þarf að fylgja með. Þegar komið er í þessa leiki þarf dagsformið að vera til staðar. Eins og gerist í bikarleikjum.“

Pedersen kom í heimsókn

Martin hefur stimplað sig inn í A-landsliðið síðustu tvö árin. Kom hann talsvert við sögu í síðustu undankeppni EM, einnig á Smáþjóðaleikunum og var eini háskólaleikmaðurinn sem lék með Íslandi í lokakeppninni í Berlín. Kristófer Acox hefði þó trúlega verið valinn en fékk ekki frí frá Furman-skólanum. Á dögunum var dregið í riðla fyrir lokakeppni EM 2017 og mun Ísland mæta Belgíu, Sviss og Kýpur heima og að heiman síðsumars.

Martin var spurður að því hvernig honum litist á þessa andstæðinga? „Mér líst bara vel á þetta. Ég vissi svo sem ekki mikið um Sviss og Kýpur en veit að Belgía er með hörkulið. Craig (Pedersen landsliðsþjálfari) var hérna hjá mér þegar dregið var sem gerði þetta ennþá skemmtilegra. Við ræddum þetta lengi en hann var hérna í fjóra daga. Fyrir okkur verður þetta mjög krefjandi verkefni en við getum komist áfram úr þessum riðli. Ég er virkilega spenntur. Maður fær ennþá gæsahúð þegar maður hugsar um EM í Berlín. Þegar síðasta leiknum lauk voru allir staðráðnir í því að koma Íslandi aftur á EM. Ég efast ekki um að allir verðir spenntir fyrir því að taka aftur þátt í þessu verkefni og koma liðinu aftur í Eurobasket,“ sagði Martin Hermannsson í samtali við Morgunblaðið.

• „Gríðarlega öflugt“

Þjálfarar í íslensku deildunum fylgjast vel með bandaríska háskólakörfuboltanum enda þurfa þeir á hverju ári að finna bandaríska leikmenn sem oft á tíðum eru að koma beint úr háskóla. Morgunblaðið spurði Benedikt Guðmundsson, þjálfara Þórs, um styrkleikann á NEC-riðlinum sem Martin spilar í, sem og raunar Dagur Kár Jónsson og Gunnar Ólafsson sem leika með St. Francis. Benedikt segir erfitt að bera styrkleikann saman við deildirnar í Evrópu. „Þetta eru náttúrlega leikmenn á aldrinum 18-22 ára og þess vegna erfitt að bera saman við hefðbundin atvinnumannalið. Hins vegar hafa gríðarlega margir leikmenn komið úr þessum riðli í alvörudeildir. Hafa spilað á Spáni, Ítalíu og hvar sem er. Þessi riðill er flokkaður sem miðlungssterkur í 1. deild. En ég undirstrika að þetta er efsta deild en alls eru fimm deildir í háskólaboltanum.Segja má að LIU sé miðlungslið í efstu deild og þar er Martin besti maðurinn,“ sagði Benedikt og hann er mjög hrifinn af þeirri stígandi sem er í leik Martins í vetur en Benedikt þjálfaði hann á yngri árum.

„Þetta er gríðarlega öflugt hjá honum. Hann á tvö heil tímabil eftir þegar þessu lýkur. Miðað við stökkið sem hann er búinn að taka á milli ára veit ég ekki hvar þetta endar ef hann heldur svona áfram,“ sagði Benedikt léttur en Martin skarar fram úr í vetur í sínu liði í nokkrum tölfræðiþáttum. Hann spilar flestar mínútur, hefur gefið flestar stoðsendingar og stelur boltanum oftast. Það er einmitt útsjónarsemin sem Benedikt hrífst mest af hjá Martin inni á vellinum.

„Þekkt er að íþróttamenn þurfa eitt ár í aðlögunartíma þegar þeir fara í aðra menningu og spila öðruvísi bolta en þeir eru vanir. Í háskólaboltanum eru varnirnar sterkari og fleiri miklir íþróttamenn sem eru fljótir en samt háir. Þeir spila fantagóða vörn og Martin lenti aðeins á vegg hvað þetta varðar í fyrra. En Martin er bara svo hrikalega klár og klókur leikmaður að hann finnur alltaf leið. Hann er sérstakt eintak og ég hef sagt það í mörg ár. Getum nefnt sem dæmi hvernig hann platar menn með skemmtilegum gabbhreyfingum sem hann hefur tileinkað sér, þrátt fyrir að þeir séu fljótari en hann,“ sagði Benedikt Guðmundsson við Morgunblaðið.