Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Tillaga Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um hagræðingu hjá Reykjavíkurborg upp á tæplega 1,8 milljarða á þessu ári var samþykkt á fundi borgarstjórnar í fyrradag af meirihluta borgarstjórnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Hagræðingartillögurnar eru sumar nokkuð á skjön við samstarfssáttmálann sem var gerður við myndun núverandi meirihluta borgarstjórnar í júní 2014. Að meirihlutanum standa Samfylkingin, Björt framtíð, Píratar og Vinstri-græn (VG).
Í samstarfssáttmálanum er kafli um bætt kjör barnafjölskyldna. Þar segir m.a að „árið 2016 verða settar 200 mkr. [milljónir króna] til viðbótar til lækkunar á námsgjöldum í leikskólum“. Nú hefur verið samþykkt að fresta fyrirhugaðri lækkun leikskólagjalda upp á 120 milljónir á þessu ári. Þá má minna á að VG hafði það á stefnuskrá fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 að leikskóli, grunnskóli og frístundaheimili yrðu gjaldfrjáls árið 2018. Lækka átti gjaldskrár um 25% á hverju ári þar til gjaldfrelsi næðist.
Í kafla samstarfssáttmálans um íþrótta- og tómstundamál segir m.a.: „Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verði efldur.“ Nú hefur verið samþykkt að draga úr útgjöldum til hans á þessu ári um 9,5 milljónir. Þá var talað um að leggja áherslu á lýðheilsu og almenningsíþróttir fyrir öll æviskeið og að frístundatilboð væru á viðráðanlegu verði. Auk þess átti að styðja við faglegt starf innan íþróttahreyfingarinnar.
Nú hefur verið samþykkt að hagræða á íþrótta- og tómstundasviði um 128 milljónir á árinu. Í greinargerð með hagræðingartillögunni segir m.a. um íþrótta- og tómstundasvið: „Styrkir sviðsins lækka um 54 mkr, þar vegur þyngst lækkun á byggingar- og viðhaldsstyrkjum til félaga. Þá lækka styrkir vegna afreksmiðstöðvar, landsliðsæfinga, skákfélaga, 16+ verkefna, styrkja ráðsins og hjólagarðs í Skálafelli.“ Einnig á að hætta greiðslu umsýslugjalda vegna skráningar félaga og fyrirtækja inn í frístundakortskerfið og sparast við það fjórar milljónir.
Í kafla samstarfssáttmálans um menningarmál er fjallað um að þróa áfram og efla borgarhátíðir, leggja áherslu á listir fyrir og með börnum og auka stuðning við grasrótarstarf í menningarlífinu.
Í greinargerð um hagræðingu á menningar- og ferðamálasviði upp á 73 milljónir segir m.a.: „Dregið verði úr hátíðum, viðburðum og sýningum hjá menningarstofnunum eða þeim frestað að hluta.“
Dæmalaus rekstrarvandi
Meirihluti borgarstjórnar samþykkti í fyrradag útboð framkvæmda við endurnýjun á Grensásvegi sunnan Miklubrautar, ásamt gerð nýrra hjólastíga, gegn atkvæðum minnihlutans. Búið var að bjóða verkið út en útboðið var dregið til baka því samþykki borgarstjórnar skorti.Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram bókun sem hófst á þessum orðum: „Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir meiri rekstrarvanda en dæmi eru um í langri sögu borgarinnar.“ Síðan var rakin samþykkt meirihlutans á viðaukanum við fjárhagsáætlunina með hagræðingaraðgerðunum og á það bent að samt skyldi haldið áfram með þrengingu Grensásvegar sem áætlað væri að kostaði 170 milljónir króna.