[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Ákveðið hefur verið að telja hrefnu á landgrunninu úr flugvél næsta sumar, en ýmislegt er óljóst varðandi búferlaflutninga hrefnunnar á síðustu árum.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Ákveðið hefur verið að telja hrefnu á landgrunninu úr flugvél næsta sumar, en ýmislegt er óljóst varðandi búferlaflutninga hrefnunnar á síðustu árum. Talning á hrefnu var hluti af víðtækum hvalatalningum síðasta sumar, en veðurskilyrði voru afleit og þau verstu til flugtalninga frá því að þær hófust árið 1986. Einungis náðist að telja á 37% af þeim leitarlínum sem stefnt var að.

Því ákvað Hafrannsóknastofnun að gera talningu í júlí í sumar, en margt er á huldu um hrefnustofninn við landið. Fram yfir síðustu aldamót var hrefna áberandi í Faxaflóa, en hún hefur gefið eftir þar, nokkuð sem bæði hrefnuveiðimenn og skipuleggjendur hvalaskoðunar í Flóanum virðast sammála um.

Éta mikið af fiskmeti

Margt í lífríkinu hefur færst norður á bóginn með hækkandi hitastigi sjávar og breyttum fæðuskilyrðum. Hugsanlega á það við hrefnuna, en þó hefur ekki verið hægt að sýna fram á hvert hún flutti sig, að sögn Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings á Hafrannsóknastofnun.

Hann varði nýlega doktorsverkefni sitt í vistfræði hvala við sjávarlíffræðideild Háskólans í Tromsø. Þar fjallar Gísli meðal annars um hrun stofns sandsílis við sunnan- og vestanvert landið, breytingar á sumarútbreiðslu loðnu og fleiri þætti sem hafa áhrif á hvalina.

Þannig hafi fæða hrefnu breyst á síðustu árum úr því að vera aðallega sandsíli, áta og loðna yfir í hærra hlutfall af síld og þorskfiskum. „Stærsta breytingin hvað varðar hvali á íslenska landgrunninu síðustu áratugina, þar sem fiskveiðar eru einkum stundaðar, er mikil fækkun hrefnu, en mikil fjölgun hnúfubaks, sem er orðin ríkjandi tegund hvað lífmassa varðar,“ segir Gísli. „Þegar við byrjuðum talningar á hvölum 1987 var lífmassi hrefnu við landið tvöfaldur á við hnúfubakinn, en núna er hnúfubakurinn orðinn fjórfaldur lífmassi hrefnu.“ Er þá ekki átt við fjölda hvala því hrefnan er miklu minna dýr.

Nýjar upplýsingar liggja ekki fyrir um fæðunám hvala við landið, en 1997 var metið að hvalir ætu um sex milljónir tonna af sjávarfangi við landið árlega, sem skiptist niður í um fjórar milljónir tonna af átu og smokkfiski og tvær milljónir tonna af fiski. Hrefnan var langatkvæðamesta fiskætan en þá var talið að hún æti um eina milljón tonna af fiski auk sama magns af átu. Helstu breytingar síðustu 19 árin væru væntanlega minna át hrefnu, en þó hlutfallslega meira af fiski, og meira át hnúfubaks með stækkandi stofni.

Þá má einnig nefna að stærsta dýr jarðarinnar, steypireyður, sem heldur sig mest fjarri ströndum, kemur upp að landinu í nokkrar vikur á ári. Fyrir aldamót var hún algengust við Snæfellsnes, en síðari ár einkum í Skjálfanda. Endanlegar niðurstöður hvalatalningarinnar síðasta sumar munu liggja fyrir síðar í vetur.

Nýtur góðs af loðnugöngum

Fram kom í fréttum í upphafi loðnuvertíðar í síðustu viku að talsvert hafi verið af hval á miðunum. Gísli segir það ekki koma á óvart, fréttir af hvölum hafi fylgt fréttum af loðnuveiðum mörg síðustu ár og hnúfubakurinn njóti góðs af loðnugöngum. Ekki sé í gangi talning á hvölunum um þessar mundir og hafi ekki verið í loðnuleiðangri í janúar. Talningar að vetrarlagi séu miklum erfiðleikum háðar vegna stutts birtutíma og óhagstæðs veðurfars.

Hins vegar hafi mikið líf sést í loðnuleiðangri út af Vestfjörðum og yfir í grænlenska lögsögu í haust. Þá var metið að samtals um 12 þúsund langreyðar og hnúfubakar gætu hafa verið á svæðinu. Gísli telur ekki líklegt að svo mikill samþjöppun hvala á norðurslóðum sé á loðnuslóð fyrir norðan land núna, því hluti þeirra dýra sem sáust í september/október sé ugglaust farinn suður á bóginn.

Hann segir að það hafi lengi verið viðtekin trú manna að hnúfubakurinn héldi suður á bóginn á æxlunarstöðvar á haustin, en kæmi síðan aftur að vori líkt og farfuglar. Nýlegar rannsóknir sýni hins vegar að hnúfubakurinn sker sig frá öðrum skíðishvölum með mun seinna haustfar, um eða eftir áramót, auk þess sem hluti stofnsins virðist halda sig við landið allan veturinn.

Breytingar á fjölda
og útbreiðslu
» Stórar hvalatalningar í N-Atlantshafi í samstarfi við nágrannaríki fóru fyrst fram 1987 og voru endurteknar árin 1989, 1995, 2001, 2007 og 2015.
» Þær hafa sýnt talsverðar breytingar á fjölda og útbreiðslu hvala við landið síðastliðin 20 ár.
» Á grunnslóð hefur hrefnu fækkað mikið frá 2001, en mikil fjölgun hefur orðið í stofni hnúfubaka við landið undanfarna áratugi.