Nú fjölgar þeim fyrirtækjum sem færst hafa í náðarfaðm hins opinbera. Fyrst voru það bankarnir og nú hafa stöðugleikaframlögin orðið til þess að fyrirtæki af öðrum toga færast frá slitabúum gömlu bankanna og til ríkissjóðs.

Nú fjölgar þeim fyrirtækjum sem færst hafa í náðarfaðm hins opinbera. Fyrst voru það bankarnir og nú hafa stöðugleikaframlögin orðið til þess að fyrirtæki af öðrum toga færast frá slitabúum gömlu bankanna og til ríkissjóðs. Nú síðast var tilkynnt að ríkið ætti orðið drjúgan hlut í tryggingafélaginu Sjóvá en nokkrum dögum fyrr gerðist ríkissjóður rúmlega 6% eigandi í fasteignafélaginu Reitum. Það félag á meðal annars verslunarmiðstöðvarnar Kringluna, Spöngina og Holtagarða.

Þessi þróun er áhugaverð í ljósi þess að ýmsir málsmetandi hafa nefnt það sem einstakt tækifæri að Landsbankinn, sem nú er í eigu ríkisins, verði gerður að sérstökum „samfélagsbanka“. Myndi hann ekki hafa arðsemi að leiðarljósi heldur tryggja sem lægst verð á bankaþjónustu í landinu. Svo gætu bankar sem hefðu arðsemissjónarmið að leiðarljósi í rekstri sínum reynt að keppa við þann harðsnúna keppinaut sem ekkert vildi græða.

Og það er ekki nóg með að hinir málsmetandi hafi stigið fram með hugmyndina heldur hafa ýmsir orðið til að gapa upp í þessa hugmynd og telja hana mikið snjallræði til að lækka vaxtastig í landinu. Þeir hinir sömu hljóta nú að líta til tryggingamarkaðarins. Nú væri rétt að sæta lagi og breyta Sjóvá í samfélagstryggingafélag sem lækka myndi tryggingakostnað í landinu. Reitir gætu svo orðið samfélagsfasteignafélag og þá myndu leigukjör á atvinnuhúsnæði lækka til muna.

Til að kóróna svo hina miklu samfélagstilraun, sem Sovétið og fleiri hafa reyndar áður runnið á rassinn með, væri helst vonandi að eitthvert sjávarútvegsfyrirtækið lenti í höndum ríkisins því þá væri hægt að lækka fiskverðið í landinu. Ekki væri heldur verra ef við gætum saman eignast samfélagssímafélag. Þá gæti þjóðin hringt frítt sín á milli og gróðafyrirtækin leitað viðskiptavina í öðrum löndum en því þar sem samfélagsfyrirtækin starfa í skjóli ríkiseignarhalds.