Jóhann Tómas Sigurðsson hjá CrankWheel segir núna tímabært að hleypa fjárfestum inn í fyrirtækið til að greiða fyrir markaðssetningu erlendis.
Jóhann Tómas Sigurðsson hjá CrankWheel segir núna tímabært að hleypa fjárfestum inn í fyrirtækið til að greiða fyrir markaðssetningu erlendis. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Forritið CrankWheel hefur alla burði til að vera öflugt sölu- og þjónustutæki. Hefur það fram yfir aðrar lausnir að vera þjálla í notkun og notendavænna.

„Okkar fyrirmyndarnotandi væri t.d. sölumaður sem þarf að kynna nýjan hugbúnað yfir símann fyrir væntanlegum viðskiptavini. Með CrankWheel getur sölumaðurinn á einfaldan og fljótlegan hátt sýnt þeim sem er hinum megin á línunni það sem sölumaðurinn er með á sínum tölvuskjá. CrankWheel bætir myndrænni kynningu inn í mitt símtalið án þess að það þarfnist sérstaks undirbúnings, svo fremi að viðmælandinn sé með snjallsíma eða tölvu við höndina.“

Þannig lýsir Jóhann Tómas Sigurðsson, eða Jói einsog hann er kallaður, hugbúnaðinum CrankWheel (www.crankwheel.com). CrankWheel stofnaði Jói og smíðaði í félagi við gamlan æskuvin, Þorgils „Gilsa“ Má Sigvaldason.

„Við Gilsi þekktumst í grunnskóla en leiðir okkar lágu aftur saman fyrir tveimur árum. Ég hafði þá ákveðið að segja starfi mínu lausu hjá útibúi Google í Kanada til þess að geta tekið aftur þátt í sprotaumhverfinu,“ útskýrir Jói. „Gilsi er sölumaður af gamla skólanum og hefur sennilega ekið milljón kílómetra bara til að hitta viðskiptavini sína og sýna þeim hvað hann hafði að bjóða. Upp úr vangaveltum okkar um hvað vantaði í hans geira kviknaði hugmyndin að CrankWheel. Gantast Gilsi með að með þessum hugbúnaði hefði hann kannski bara þurft að aka 100.000 kílómetra.“

Streymt með einum smelli

Til að streyma því sem notandinn vill sýna af eigin tölvuskjá þarf ekki annað en að senda viðmælandanum stutta slóð, eða SMS-skeyti. Fer streymið þá af stað um leið og viðtakandinn ýtir á hlekkinn. „Viðmælandinn getur líka opnað vafraglugga og slegið inn einfalda slóð á borð við syna.is/icelandair eða syna.is/siminn og er þá kominn inn á móttökusíðu fyrir viðkomandi fyrirtæki. Þar smellir hann á mynd af þeim sem hann er að ræða við símleiðis og er kominn beint inn á kynninguna.“

CrankWheel er ekki fyrsta forritið sem gerir kleift að deila með öðrum því sem fyrir augu ber á skjánum. Sérstaða CrankWheel liggur ekki síst í því hvað lausnin er þjál og notendavæn. „Viðmælandinn þarf ekki fyrst að sækja forrit eða stofna notendaaðgang og ekki þarf að þylja upp langa talnarunu yfir símann til að koma tengingunni á. Þá styður CrankWheel nær alla vafra sem eru í notkun í dag og virkar bæði í farsímum, spjaldtölvum og venjulegum far- og borðtölvum. Má þess vegna treysta því að forritið muni virka eins og til er ætlast.“

Sá sem sýnir skjáinn sinn getur stýrt því af nákvæmni hvað áhorfandinn sér. Það getur t.d. verið allur skjárinn, tiltekinn forritsgluggi eða ákveðinn flipi í vafra. „Hann hefur lítinn glugga á sínum eigin skjá sem sýnir það sem viðskiptavinurinn sér og halda því báðir takti í gegnum kynninguna, jafnvel ef viðtakandinn er t.d. að skoða efnið yfir hæga farsímatengingu.“

Er CrankWheel í boði sem fríforrit fyrir einstaklinga og í mánaðaráskrift fyrir fyrirtæki. „Með borguðu útgáfunum fylgir sá möguleiki að hvert fyrirtæki eða stofnun hafi sitt „móttökuherbergi“, geti sett nafn sitt og vörumerki á allt það sem sýnt er. Verðskráin miðast við mínútufjölda frekar en fjölda notenda og viljum við ekki hneppa viðskiptavini í stóra og langa áskriftarsamninga heldur leyfa CrankWheel að vaxa með fyrirtækinu.“

Farið vel af stað á Íslandi

Smíði og prófanir hafa gengið hratt fyrir sig og fór CrankWheel í loftið í nóvember á síðasta ári. Viðskiptavinirnir eru orðnir sextán talsins, þar af fimmtán á Íslandi og tilgreinir Jói fyrirtæki á borð við Icelandair, Símann, Eimskip og Mótus. Er framundan að koma CrankWheel á framfæri á erlendum mörkuðum og segir Jói að af þeim sökum sé tímabært að hleypa fjárfestum að borðinu. Segir Jói að markaðsstarfið muni m.a. felast í því að koma CrankWheel á framfæri sem fyrirtæki sem vill hjálpa fólki að fá meira út úr símtölum, s.s. með birtingu greina í völdum miðlum og með hnitmiðuðum auglýsingum í vefmiðlum. „Fríútgáfan mun nýtast okkur til að koma auga á staka starfsmenn og hópa starfsmanna innan fyrirtækja sem við getum í framhaldinu bent á kosti þess að kaupa áskriftarútgáfu. Þá er fyrirsjáanlegt að við komum okkur upp teymi af sölufólki sem verður í því að hringja í væntanlega viðskiptavini og þá um leið nota CrankWheel til að kynna CrankWheel.“

Fór frá Google til að gerast frumkvöðull

Bakgrunnur Jóhanns Tómasar er áhugaverður. Hann er rétt rúmlega fertugur og hefur komið víða við á 20 ára ferli í tæknigeiranum. Var m.a. viðriðinn OZ á sínum tíma og starfaði hjá Google um 10 ára skeið, lengst af á skrifstofu leitarvélarrisans í Montreal. „Vildi svo skemmtilega til að við vorum þrír Íslendingar sem höfðum ratað til Montreal og fengum það verkefni í hendurnar að koma á Google-bækistöð. Þetta var mjög lærdómsríkur tími og viðfangsefnin áhugaverð en síðustu þrjú árin fann ég það sterklega að ég hafði lært allt það sem þetta starf hafði að bjóða mér og kominn tími til að fara aftur út í frumkvöðlageirann,“ segir Jói. „Ég vissi það innst inni allan tímann hjá Google að ég myndi einhvern tímann hætta og fara að gera eitthvað á eigin vegum. Ég hugsa að ég hafi viljað sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti gert þetta – gæti sjálfur byggt upp fyrirtæki frá grunni.“

En af hverju að koma til Íslands? Hví ekki að stofna CrankWheel í Montreal eða einhvers staðar í hringiðu tækniheimsins í Bandaríkjunum? „Eftir hrunið togaði sterkt í mig að flytja aftur til Íslands og taka þátt í að endurreisa atvinnulífið. Síðan er ég í þeirri stöðu að börnin mín eru hérna og síðustu þrjú árin hjá Google starfaði ég frá Íslandi,“ útskýrir Jói. „En ég fann líka aldrei sömu tenginguna við þjóðfélagið úti í Kanada og ég geri hérna heima, og þar úti held ég að ég hefði haft minni drifkraft til að taka þátt í uppbyggingu sprotasamfélagsins. Á Íslandi hefur orðið til frábært samfélag sprotafyrirtækja og frumkvöðla sem er mjög gefandi að vera hluti af.“