Ellin og æskan Michael Caine og Harvey Keitel í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Æsku.
Ellin og æskan Michael Caine og Harvey Keitel í hlutverkum sínum í kvikmyndinni Æsku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Paolo Sorrentino. Leikarar: Michael Caine, Harvey Keitel, Rachel Weisz, Paul Dano, Jane Fonda, Alex Mcqueen, Madalina Diana Ghenea, Roly Serrano og Paloma Faith. Ítalía, Bretland, Frakkland og Sviss. Enska, brot á spænsku og svissneskri þýsku. 2015, 124 mínútur.

Myndin Æska eftir leikstjórann Paolo Sorrentino er um margt forvitnileg. Hún er uppfull af fallegum tökum og glúrnum atriðum. Í myndinni segir frá tveimur vinum, hljómsveitarstjóranum og tónskáldinu Fred Ballinger og kvikmyndaleikstjóranum Mick Boyle, sem eru saman í fríi á heilsuhæli í Sviss. Tveir gamlir refir úr kvikmyndaheiminum, Michael Caine og Harvey Keitel, fara með hlutverk þeirra.

Tónskáldið er sest í helgan stein og hefur hvorki áhuga á að stjórna hljómsveitum né semja framar. Hann verst meira að segja með öllum ráðum þegar sendiboði Bretadrottningar leitar til hans og hyggst fá hann til að draga fram sprotann að nýju til að stjórna sínu þekktasta verki fyrir hennar hátign. Leikstjórinn er hins vegar hvergi hættur og vinnur að mynd, sem á að verða hans minnisvarði.

Allt bendir hins vegar til þess að tónskáldið eigi sitt hvað eftir, en leikstjórinn sé kominn fram yfir síðasta söludag.

Vinirnir eiga bráðfyndnar samræður um erfiðleika við þvaglát, sem mæla má með dropateljara, og gamlar ástir. Báðir eru hæfilega kaldhæðnir, en um leið það nærgætnir að þeir gæta þess að leyna hvor annan hinu óþægilega og segja hvor öðrum aðeins frá því sem gott er. Annar vill virkja sköpunarbrunn æsku sinnar, hinn er þess fullviss að fyrir elli sakir sé fullkomlega tilgangslaust að reyna að endurheimta æskuþróttinn með líkamsrækt og heilbrigðu líferni. Á hælinu birtist æskan þeim síðan í ljóma ungra kvenna, sem ganga um beina, nudda þá og birtast naktar í heitum böðum, allar þó utan seilingar þrátt fyrir nálægðina.

Hjónaband dóttur tónskáldsins og sonar leikstjórans tengir þá enn frekar, þótt það endist stutt í myndinni.

Margir góðir sprettir eru í myndinni. Í bráðfallegu atriði þaggar Bellinger niður í náttúrunni og byrjar síðan að stjórna snoturri kúabjöllukviðu þar sem kýr á beit, vindur í gróðri og fuglar á flugi mynda hljómsveitina. Skemmtilegur snertur af töfraraunsæi. Atriði þar sem aðalleikkonur úr gömlum myndum Boyles birtast honum tekst hins vegar ekki jafn vel.

Í myndinni verða ýmsar uppákomur. Paul Dano leikur leikara, sem er að undirbúa sig undir nýtt hlutverk á heilsuhælinu. Hann er orðinn þreyttur á að þekkjast helst út á það hlutverk, sem hann telur ómerkilegast á ferlinum. Þegar hann hæðist að ungfrú alheimi, sem er á heilsuhælinu vegna þess að hún fékk þar viku dvöl í vinning með titlinum, gefur hún honum skemmtilega á baukinn.

Jane Fonda er stórkostleg í litlu hlutverki gamallar dívu, sem Boyle telur að hann hafi gert fræga. Roly Serrano er einnig frábær í hlutverki Maradona og svo líkur honum að í fyrstu hefði mátt ætla að knattspyrnugoðið væri mætt í eigin persónu. Tilþrif hans á tennisvelli eru með ólíkindum – hafi brellumeistarar hvergi komið þar nærri.

Myndin er uppfull af súrrealískum senum þar sem fólk af ýmsum stærðum, gerðum og aldri birtist mismikið klætt.

Í gegnum þetta allt saman liggur þráður þar sem vinirnir glíma við arfleifð sína, fortíð og framtíð, fjölskyldu og frægð, æsku, elli og tilfinningar. Caine, sem með afturgreiddan, hvítan makka minnir sumpart á tónskáldið Atla Heimi Sveinsson, leikur tónskáldið með hæfilegri blöndu af húmor og lúinni lífsreynslu. Sömuleiðis er gaman að fylgjast með Keitel í hlutverki leikstjórans, sem rembist við að virkja sköpunarkraftinn, en virðist ekki ætla að ná flugi, með hóp af lotningarfullum ungmennum sér til aðstoðar.

Oft er það þannig þegar vel tekst til að heildin er sterkari en partar hennar. Veikleiki Æsku er að partarnir eru sterkari en heildin og geldur myndin fyrir það þótt fyllilega megi mæla með henni.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal